Ég hef átt í stríði við þunglyndi og kvíða í mörg ár ásamt líkamlegum veikindum. Ég hef gengið djúpa dali en líka upplifað mikla hamingju og á ótal margt sem ég er svo mikið þakklát fyrir. Þunglyndið og kvíðinn fer samt ekki þó svo að gleðin spili inn í. Partur af þunglyndinu er skömmin yfir því að vera þunglynd, skömmin yfir því að vera svo mikill aumingi að væla yfir svo litlum hlutum á meðan aðrir hafa það enn verra. Eitt stærsta dæmið eru börnin mín sem eru heilbrigð og falleg. Ég veit vel hversu mikil lukka það er að geta eignast börn, hvað þá að eignast heilbrigð börn og ég þakka fyrir það á hverjum einasta degi enda eru þau eina ástæðan fyrir því að þrátt fyrir hyldýpið sem þunglyndið er kem ég mér á lappir á morgnanna. Mér finnst ég vera eigingjörn og sjálfselsk, að leyfa mér það að líða illa. Mér finnst ég vanþakklát fyrir það sem ég hef og ég skammast mín meira en orð fá lýst. Mér finnast tilfinningar mínar ekki eiga rétt á sér og mér finnst mitt „væl“ svo mikil frekja.
Fjárhagsáhyggjur og umboðsmaður skuldara
Ég ásamt stórum hluta þjóðarinnar á í fjárhagserfiðleikum, það liggur svo þungt á mér að suma daga næ ég ekki andanum og eina leiðin fyrir mig til að höndla það er að ljúga því að sjálfri mér að þetta reddist. Það hjálpar samt ekki þunglyndispúkanum og eykur á þá sjálfsímynd mína að ég sé aumingi, svartasti sauðurinn í fjölskyldunni sem er alltaf að biðja um lán. Það að skulda fjölskyldumeðlimum peninga er mun þyngra á sálinni en að skulda banka.
Ég leitaði til umboðsmanns skuldara fyrir þónokkru og fékk samþykkta aðstoð við gjaldþrot, enda engar lausnir fyrir „aumingjann“ mig. Fyrir stuttu þurfti ég að mæta í dómssal vegna gjaldþrotsins, ég ætlaði að vera töff, mér á að vera drullusama, þetta eru bara peningar og algjör tittlingaskítur miðað við þær upphæðir sem aðrir hafa farið í þrot með. Ég á ekkert, hef ekkert að setja uppí nema börnin mín og sem betur fer eru þau ekki tekin til gjaldþrotaskipta og fyrir það Á ég að vera þakklát. Þar sem ég sat í dómssalnum með uppklæddan dómarann fyrir framan mig í heilar 5 mínútur eða svo heyrði ég ekki orð af því sem hann sagði. Ég fann að ég náði varla andanum og eina sem ég heyrði var: „Þú ert nú meiri auminginn! Sitjandi hér yfir þessum smáatriðum, eyða tíma og peningum hins opinbera í þessa smámuni á meðan það er fólk þarna úti sem hefur það MIKLU verra en þú! Þú ættir bara að skammast þín og fara heim og þakka fyrir það sem þú hefur.“ Auðvitað var þetta ekkert það sem hann sagði! En þetta heyrði ég samt sem áður.
Getur ekki sofnað án hjálpar
Það að loka augunum og ljúga að sjálfri mér er mín leið til þess að höndla hlutina. Með því að horfast ekki í augu við þá næ ég að ýta þeim til hliðar. Ég finn að ég þarf að vera að gera eitthvað, hlusta á eitthvað eða hafa eitthvað annað en mínar ljótu hugsanir og með því næ ég að grafa þær dýpra og dýpra og vonast til þess að þær hverfi á endanum. Sem dæmi sofna ég ekki á kvöldin nema með kveikt á sjónvarpsþætti í eyrunum á mér og með róandi lyfjum. Með því þá komast ekki ljótu hugsanirnar að og ég næ að sofa. Ég á erfitt með daglegt líf eins og að láta börnin mín læra eða aga þau af því að ég bara höndla það ekki. Það er svo miklu auðveldara að segja bara já heldur en að takast á við afleiðingar nei-sins. Það er auðveldara að leyfa þeim bara að hanga í tölvunni heldur en að standa í strögglinu við að fá þau til að gera eitthvað annað. Mér finnst ég því latasta mamma í heimi og algjörlega að misnota þá lukku sem það er að eiga þau.
Ég leyfi mér stundum eitthvað skemmtilegt, en það er bara skemmtilegt á meðan á því stendur því eftirá sit ég með nagandi samviskubit yfir því að hafa leyft mér þetta. Mér finnst ég ekkert hafa rétt á neinu skemmtilegu, ég ætti frekar að leggja mig fram við að börnin mín hefðu það skemmtilegt og eyða orku og peningum í þau en ekki í sjálfa mig. Mér finnst ég vera sjálfselsk að láta mér detta það í hug. Mér finnst ég líka ótrúlega sjálfselsk að láta mér líða svona illa yfir þeirri upphæð sem ég þyrfti til að greiða upp það sem ég þarf að borga til að létta á sálinni, nokkrir hundraðþúsundkallar á meðan að aðrir fara út í daginn og standa sig, með milljónir á samviskunni.
Á nokkra sigra að baki
Þrátt fyrir þessi erfiðu ár á ég þónokkra persónulega sigra að baki. Þar á meðal er nám, hvernig ég fór að því skil ég ekki en ég náði mér í stúdentspróf og fór rúma hálfa leið með háskólapróf. Ég er stolt af því en ég skammast mín líka fyrir sjálfselskuna að hafa eytt þessum tíma í nám frekar en börnin mín og heimili. Ég er öryrki, handónýt í líkamanum og á sál og þess vegna er ég stórhneyksluð á sjálfri mér að láta mér detta þá vitleysu í hug að eyða tíma og orku í að mennta mig. Til hvers? Ég á aldrei eftir að verða neitt annað en aumingi á spena hjá ríkinu og ætti því miklu frekar að andskotast til þess að standa mig í móðurhlutverkinu heldur en að eyða tíma, orku og peningum í eitthvað sem ég á aldrei eftir að nýta.
Síðustu mánaðarmót voru okkur þung og við áttum lítið eftir til að lifa á. Samt sem áður í algjörri neitun á ástandið leyfði ég mér það að ljúga því að mér að þetta reddaðist og átti skemmtilega helgi. Leyfði mér að skemmta mér og börnunum og átti alveg rosalega góða helgi í góðra vina hópi. Á sunnudeginum fann ég að fjárhagsáhyggjurnar og í raun veruleikinn fór að banka upp á. Hvernig í andsk. ætlaði ég að láta þetta duga til mánaðarmóta? Á mánudagsmorgninum voru börnin mín að finna sig til fyrir skóladaginn. Sonur minn komst ekki í stígvélin sín og það var gat á strigaskónum hans. Ég fann heldur hvergi flíspeysu á yngri soninn til að senda hann með á leikskólann. 50 þúsund eftir á bankareikningnum og mánuðurinn rétt byrjaður! Ég fann hvernig allt fór að hellast yfir mig og ég brotnaði… botninn fór úr tunnunni og ég fór í eitthvað ástand sem ég get ekki lýst. Mér fannst allt snúast á milljón fyrir framan mig og það var eins og einhver tryði trekt ofaní mig og ég fyllt af sandi. Ég náði varla andanum og ég veit hreinlega ekki hvernig ég fór að því að koma þeim út í daginn. Hausinn fór á milljón og ég brotnaði niður. Oft hef ég grátið en aldrei svona. Ég gat ekki hætt, alveg sama hvað ég reyndi og ég var skíthrædd, vissi ekki hvað var að gerast með mig og allar ljótustu hugsanir sem ég hafði rétt leyft mér rétt að leiða hugan að helltust yfir mig. Eftir því sem ég leyfði þeim að hrannast upp jókst skömmin yfir því að grenja yfir þessum smáatriðum. Ég átti ekki til orð yfir sjálfselskunni í mér undanfarið, mánuðurinn rétt svo byrjaður, ég búin að eyða í alla þessa vitleysu og á meðan áttu börnin mín ekki fatnað út í daginn.
Endaði á læknavaktinni
Skömmin yfir því að leyfa mér að líða svona jókst líka og alveg sama hvað ég sagði mér það oft að ég hefði ekki rétt á að láta mér líða svona þá gat ég ekki hætt að gráta. Mér fannst ég svo ljót, misheppnuð, sjálfselsk og frek að ég óskaði þess heitast að sofna bara og vakna ekki aftur. Sem betur fer hugsaði ég ekki um að skaða mig, en mér fannst samt allir miklu betur settir án mín og ég væri bara baggi á öllum og það væri bara miklu betra ef ég væri ekki hér, hefði bara aldrei orðið til!
Aumingja maðurinn minn skildi ekkert hvað var í gangi. Hann veit að sjálfsögðu að ég berst við mína púka en svona hafði hann aldrei séð mig. Enda skammast ég mín svo fyrir púkana að ég hlífi honum við þeim, vill ekki leggja þetta á hann ofaná allt annað og er bara ósanngjarnt af mér að vera að íþyngja honum með þessu rugli í mér. Hann sá þó að það væri lítið annað í stöðunni en að fara með mig á læknavaktina. Þangað fórum við, hann leiddi mig inn til læknisins og þar reyndi ég að stynja upp á milli ekkasoganna hvað væri að mér. Ég náði ekki andanum og skalf og nötraði. Læknirinn fór með okkur inn í annað herbergi, lét mig leggjast á bekk og gaf mér róandi, ég var greinilega í ofsakvíðakasti og hreinlega að fá taugaáfall. Lyfin virkuðu sem betur fer og ég náði andanum.
Skömmin og vanlíðanin hvarf þó alls ekki en ég var þó allaveganna hætt að gráta. Læknirinn kemur inn, spyr hvort mér líði betur og segir svo að hann sé búinn að lesa yfir söguna mína. Hans ráðleggingar og skilaboð til mín voru að nú ætti ég bara að fara heim, knúsa börnin mín og þakka fyrir það sem ég á. Þetta væri kannski vitundarvakning um að taka til hjá mér. Ef þetta væru fjárhagsáhyggjur þá benti hann á félagsþjónustuna en fyrst og fremst ætti ég að fara heim, knúsa börnin mín, taka svefntöflu, sofa og á morgun yrði örugglega betri dagur, tók í hendina á mér og kvaddi.
Ég var í móðu, grét ekki en ef ég hef einhverntíman skammast mín fyrir tilfinningar mínar og þunglyndi þá var þetta toppurinn. Lyfin gerðu það að verkum að ég fór ekki í þetta ástand aftur en vá, ef mig hefur einhverntíman langað að hverfa ofaní jörðina þá var það á þessum tímapunkti. Ég var að eyða dýrmætum tíma læknisins og heilbrigðisþjónustunnar í aumingjann mig.
Þeir sem eru þunglyndir eru líka þakklátir
Það sem mig langar að ná fram með þessum skrifum er að reyna að varpa ljósi á hugarheim þeirra sem berjast við þunglyndi. Það er ekkert samansemmerki á milli þunglyndis og vanþakklætis. Þeir sem berjast við þunglyndi eru líka þakklátir fyrir það sem þeir hafa og hafa að sjálfsögðu samkennd með þeim sem hafa það verra. Ég á vinkonur sem hafa misst börn, ég á líka vinkonur sem eiga fötluð börn og vinkonur sem geta ekki átt börn. Ég get samt ekkert gert að því að ég er þunglynd og ég á erfitt með að stjórna hugsunum mínum. Ég finn svo mikið til með þessum vinkonum mínum, ég get hreinlega ekki sett mig í þeirra spor og ég stórefast um að ég stæði upprétt í sömu sporum. Ég er óendanlega þakklát fyrir börnin mín, manninn minn, fjölskylduna mína o.sv.frv. Tilfinningar mínar eru samt þarna, og þó svo að ég skammist mín fyrir þær þá fara þær ekkert heldur aukast við skömmina. Af hverju þarf að meta vægi tilfinninga? Er í alvöru hægt að bola burt vanlíðan með þeirri staðreynd að vanlíðan annara er meiri? Ég held ekki, þess vegna vill ég að litið sé á þunglyndi og vanlíðan eins og persónur, þær eru eins misjafnar og þær eru margar og þó svo að eitt hafi meiri áhrif á einn en annan hefur það ekkert að segja með hvernig persónuleika viðkomandi hefur að geyma. Sem dæmi þá stakk það mig alveg rosalega í sumar að lesa statusa á facebook þegar fólk „vogaði“ sér að kvarta undan rigningunni og í kommentum stóð: blessuð þakkaðu bara fyrir að það rigni vatni en ekki sprengjum eins og úti í heimi!
Má ekki láta rigningu fara í taugarnar á sér? Og heldur fólk í alvöru að ef maður leyfir sér það sé manni drullusama um alla aðra?
Það hafa allir rétt á því að hafa tilfinningar
Annað dæmi eru fréttirnar af því að gamanleikarinn heimsþekkti Robin Williams fyrirfór sér. Allt ætlaði um koll að keyra, sumir tjáðu sorg sína og samúð. Aðrir hneyksluðust á fólki að vera að „missa sig“ yfir einum látnum manni á meðan hundruðir manna, kvenna og barna létu lífið á hverjum degi í stríðshrjáðum löndum. Enn aðrir hneyksluðust á því hvernig vellríkur og frægur maður eins og hann gæti hafa verið þunglyndur! Átti peninga og allt sem flestir gætu óskað sér og þess vegna hafði hann ekki rétt á sínum tilfinningum. Ég get lofað ykkur því að hann hefur hugsað það sama og skömmin yfir því hefur pottþétt verið ein af ástæðunum fyrir því að hann tók eigið líf. Hann hefur upplifað sig sem sjálfselskan aumingja sem hefði engan rétt á að líða illa.
Það höfðu allir rétt á að syrgja Robin Williams og deila fregnum og samúðarkveðjum um hann. Fólki var ekkert sama um alla hina þó þau deildu þessu. Það hefur ekkert að segja um persónuleika fólks að það deildi þessum fregnum en ekki fregnum af stríðshrjáðum löndum og óbreyttum borgurum sem létust. Eins hafði Robin Williams fullan rétt á tilfinningum sínum og þó svo að hann hafi verið miklu ríkari en ég og átti við öðruvísi púka að stríða þá áttu hans púkar alveg rétt á sér eins og mínir og ég hef mikla samúð með honum og vona að hann hafi fundið frið.
Þrátt fyrir lítið sjálfsálit tel ég mig hafa samkennd með öðrum. Ég vildi óska að ég hefði meira af mér að gefa til annara því ég veit svo vel að margir hafa það miklu verra en ég. Ég vill vera til staðar fyrir aðra og gera gott og glöð myndi ég fórna mörgu. Ég hef staðið í þeim sporum að horfa upp á nákomin ættingja í miklu áfalli eftir alvarlegt slys á barninu hennar og það eina sem ég óskaði mér var að skipta við hana, ég óskaði þess heitt og innilega að þetta væri að koma fyrir mig en ekki hana.
Þáði ekki hjálpina
Mér hefur boðist hjálp, m.a. eftir að hafa tekið próf vegna fæðingarþunglyndis í ungbarnaeftirlitinu. Ég þáði hana ekki, mér fannst tíma og peningum heilbrigðisþjónustunnar miklu betur varið í aðrar mæður en mig enda átti ég bara að skammast mín fyrir tilfinningar mínar. Þetta áfall varð þó til þess að loksins sé ég að ÉG er börnunum mínum eitt það mikilvægasta í lífinu á meðan þau eru að komast á legg og þeirra vegna skiptir það máli að ÉG sé hér og þess vegna hef ÉG rétt á hjálp, þeirra vegna! Það hafa allir rétt á sínum tilfinningum og ekki skammast þín fyrir þær eða kafa þær dýpra í þeirri von um að þær hverfi því á endanum dettur botninn úr tunnunni.
Hættið að skamma aðra fyrir tilfinningar sínar, hættið að bera vandamál saman og virðið hvort annað. Við og okkar tilfinningar hafa allar rétt á sér og tökum frekar höndum saman við að uppræta skömmina sem ekki bara fylgir þunglyndi og kvíða heldur er bara ein aðal orsök þess.