Frunsur eru litlar blöðrur sem myndast oftast á vörum eða kringum munn. Þær verða til af völdum Herpes Simplex sem er veira og venjulega hverfa þær, án meðferðar á 7-10 dögum.
Einkenni frunsu
Fyrst þegar þú smitast með Herpes Simplex þá færðu líklegast engin einkenni heldur brýst frunsan út seinna. Það byrjar oft með svona kitlandi tilfinningu líkri náladofa, svo kemur kláði eða brunatilfinning. Svo byrjar að myndast blaðra með vökva í, mjög svo huggulegt.
Hvað er til ráða?
Ef þú bíður þá hverfur frunsan, eins og segir hér að ofan, á 7-10 dögum. Það er hinsvegar hægt að fara og fá krem án lyfseðils í apótekum sem minnka óþægindi og flýta fyrir því að frunsan fari. Til þess að þessi krem skili sem bestum árangri er best að byrja að nota þau um leið og þú byrjar að finna fyrir einkennum. Einnig eru til blástrar til þess að setja á frunsuna sem þú getur fengið í apóteki. Fyrir þá sem eru sífellt að fá frunsur er hægt að fara til heimilislæknis og fá töflur til inntöku sem þú átt að taka um leið og einkenni byrja en þá á frunsan ekki að brjótast fram.
Forðist að smita aðra
Það er ekki hægt að koma algjörlega í veg fyrir að fá þessa ógeðfelldu veirusýkingu en þú getur í það minnsta reyna að forðast það að smita aðra. Það geta allir smitast af veirunni og mest er hættan á því að smita aðra þegar blaðran springur og vökvi kemur úr henni. Þá ættir þú að forðast kossa og önnur náin atlot eins og munnmök því þó svo að þessi tegund af Herpes sé ekki sú sama og fer vanalega í kynfæri getur hún samt sem áður smitast í kynfæri fólks. Sérstaklega er mikilvægt að forðast það að smita fólk sem er með viðkvæmt ónæmiskerfi og ber þá að nefna fólk sem er í lyfjameðferð við hvítblæði og krabbameini, þá sem eru smitaðir með HIV og einnig ungbörn.
Hvernig koma á í veg fyrir smit
Það er alveg augljóst að þú átt ekki að kyssa manneskju á munninn sem er með frunsu því þá ertu í einna mestri hættu að fá frunsu sjálf/ur. Forðastu að nota sömu áhöld og manneskja með frunsu, eins og bolla og skeiðar og ekki fá varasalva eða varalit hjá einhverjum með frunsu. Einnig skaltu koma þér hjá því að nota handklæði, rakvélar og tannbursta sem manneskja með frunsu er að nota.
Streita, kvef og flensa geta valdið því að frunsan blossar upp ef þú ert sýkt/ur af henni á annað borð. Notaðu varasalva og sólarvörn í sól, því of mikil sól veldur líka frunsum. Þvoðu hendur oft og forðastu það að vera að fikta í frunsunni til að dreifa henni ekki á fleiri staði.
Gangi þér vel!