Kynferðislegt samneyti manna og dýra loks bannað í Danmörku

Brátt verður mannfólki bannað með lögum að hafa samfarir við dýr á danskri grundu og þykir kominn tími til.

Til stendur að gera verknaðinn refsiverðan og mun Danmörk þar slást í för með Noregi, Svíþjóð og Þýskalandi sem áður leyfðu verknaðinn en komu nýverið á lögum sem hamla dýraníðingum að svala hvötum sínum á málleysingjum. Þess má geta að kynmök manna og dýra eru með öllu óleyfileg í flestum öðrum Evrópuríkjum og er Danmörk því eitt fárra ríkja sem enn leyfir kynferðislegt samneyti manna og dýra.

Það var landbúnaðarráðherra Danmerkur, Dan Jørgensen, sem gaf út opinberlega yfirlýsingu þess efnis fyrir skömmu síðan og ganga lögin í gildi árið 2015.

Við fyrrgreint tækifæri tók landbúnaðarráðherra einnig fram að ákvörðun hans lægi til grundvallar þeirri staðreynd að núverandi lagarammi, sem heimilar kynmök manna og dýra, varpaði rýrðarljóma á annars flekklausan orðstír Danmerkur og lét eftir sér hafa í viðtali við Ekstra Bladet:

Ég hef ákveðið að banna með öllu kynferðislegt samneyti manna og dýra. Sú ákvörðun mín er margþætt í sjálfu sér; en þó aðallega tilkomin vegna þess að í yfirgnæfandi meirihluta tilfella er um að ræða voðaverknað gagnvart dýrunum sjálfum. Undir öllum kringumstæðum ætti að úrskurða slík vafaatriði dýrunum sjálfum í hag, sem geta eðlilega ekki sagt til um hvort þau samþykkja samræði eða ekki. Þar af leiðandi ætti að banna kynferðislegt samræði manna og dýra með öllu.

Í apríl sl. kom út stutt heimildarmynd um dýraníð og ferðamennsku dýraníðinga í Danmörku sem sjá má hjá að neðan og er óþarft að taka fram að dýravinir fagna langþráðri lagabreytingu ákaft:

 

 

SHARE