Fallega snyrtar neglur hafa ávallt verið í uppáhaldi hjá mér og þau eru ófá kvöldin sem ég hef eytt með móður minni með naglaþjölina og kóralrauða lakkið. Sennilega hef ég verið kringum fermingaraldur þegar snyrtikvöldin tóku að renna upp, eitt af fætur öðru, en öll voru þau sveipuð dulúð og framandi ilm sem einungis er á færi kvenna að greina til fulls.
Í þá daga var ekki um mikið annað að velja en hárrauðan lit, glært undir og yfirlakk, fíngerða demantaþjöl og aceton vætt í bómull. Handáburð í ofanálag og svo auðvitað brast á þjóðarsorg þegar sprunga kom í nögl.
Ég er orðin svo gömul, gott fólk, að gervineglur voru ekki enn komnar á markað meðan ég gekk í gagnfræðaskóla og hlustaði á Prince. Annað er þó uppi á teningnum í dag og Instagram bókstaflega iðar af hugmyndum, útfærslum og forvitnilegum tillögum sem mig dauðlangar að prófa.
Tískan er dimm í haust, fjölbreytileg og glamúrkennd. Framúrstefnuleg og ögrandi. Dumbrauður kemur við sögu og svo einnig litríkar neglur. Marglitar. Doppóttar. Demantaprýddar.
Hér fara nokkrar svipmyndir af því sem ber hæst í handsnyrtingu nú í haust á Instagram:
#ombrenails #burgundynails #mattemanicure
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.