Það hefur verið mikið fjallað um bloggfærslu heilsubloggarans Helgu Gabríelu síðustu daga þar sem hún gerir upp samskipti sín við Mörtu Maríu, ritstjóra Smartlands á Mbl.is.
Marta María hafði samband við Helgu Gabríelu vegna mynda sem Helga birti á Instagram síðunni sinni en þessar myndir höfðu farið á flakk eftir að einhver rak augun í það að átt hafi verið við myndirnar. Ritstjóri Smartlands vildi fjalla um myndirnar en Helga Gabríela var ekki samþykk því og að hennar sögn bað hana um að gera það ekki. Marta María fór þá aðra leið og fjallaði um málið án þess að nafngreina Helgu heldur talaði einungis um 23 ára gamlan heilsubloggara.
Í kjölfarið á þessum atburði ákvað íþróttafræðingurinn og einkaþjálfarinn Nanna Árnadóttir að hætta pistlaskrifum fyrir Smartland. Hún skrifaði sinn síðasta pistil á sunnudaginn og greindi þá frá því að hún hafi tekið þá ákvörðun að hætta þar henni fyndist Smartland stríða gegn mörgu af því sem hún trúi á.
Mér finnst greinarnar á Smartland ýta undir útlitsdýrkun og fjalla á neikvæðan hátt um heilsufar einstaklinga, eitthvað sem mér finnst að ætti að vera eitt það jákvæðasta í lífinu, þ.e. gott heilsufar.
Nanna segir að þegar hún var fyrst beðin um að skrifa pistla inn á Smartlandið hafi hún verið efins. Hún hins vegar sá síðan tækifæri í því að skrifa á jákvæðan hátt um heilbrigðan lífsstíl og hreyfingu til að vega á móti allri umfjöllun sem birtist á Smartland sem henni fyndist slæm.
Í pistli Nönnu vitnar hún í grein Mörtu Maríu um myndirnar af Helgu Gabríelu og segir það vera út í hött að fjalla um hversu fáránlegt það sé að konur séu að beita ýmsum aðferðum til þess að líta betur út þar sem stór hluti greina inn á Smartlandinu séu um aðferðir til að létta sig, líta betur út, en inni á síðunni er dálkur þar sem hægt er að senda fyrirspurnir á lýtalækni.
Pistill Nönnu endar síðan á þeim nótum að hún sé komin með nóg og vilji frekar fagna fjölbreytileikanum heldur en að taka þátt í þessari menningu.
Í dag hef ég þó fengið nóg og segi stopp við útlitsdýrkuninni og bullinu sem fram kemur á Smartlandi. Verum ánægð með okkur sjálf, borðum hollt og hreyfum okkur til þess að líða vel og látum ENGAN segja okkur hvernig við eigum að líta út til þess að passa inn í samfélagið. Fögnum fjölbreytileikanum og elskum okkur sjálf.
Kristín Helga er óumdeilanlega mesti Kardashian aðdáandi Íslands og nærliggjandi landa. Hennar heitasta ósk er að vera vinkona Khloe Kardashian.
Hún hefur áhuga á öllu mögulegu og þar á meðal að lesa og skrifa um fræga fólkið í Hollywood.