Kim slúðrar leyndarmálinu að baki deilingu „sjálfa”

Kim nokkur Kardashian kann að státa af grönnu mitti og vera glæst með eindæmum, en það mun þó meira spunnið í stúlkuna en brosið eitt. Þannig er Kim svo lúnkin að leika á samskiptamiðla að hún nýtur virðingar fyrir vikið og hélt ágætan fyrirlestur á tækniráðstefnu fyrir skemmstu, þar sem hún ljóstraði því upp hvernig sigra á samskiptamiðla.

Einhverjum kann að finnast það skjóta skökku við að Kim Kardashian skuli fengin til að predika um notkun samskiptamiðla á veglegri ráðstefnu um þróun í tæknigeiranum. Þó er ekki allt sem sýnist. Fyrir skemmstu setti Kim á markað farsímaleikinn KIM KARDASHIAN: HOLLYWOOD og hefur rakað inn seðlum í kassann. Þá hefur stúlkan með sjálfsmyndum sínum, gert úr gríðarlegt veldi og er einn alvinsælasti notandi Instagram í dag, en yfir 20 milljónir notenda fylgja Kim eftir á miðlinum.

Kim, sem er með álíka fjölda fylgjenda á Twitter, eða ríflega 24 milljón manns, gaf fúslega ráð og ábendingar í viðtali því sem hún veitti Köru Swisher á ráðstefnunni.

Hér fara sex slungin ráð þegar átt er við samskiptamiðla úr smiðju Kim:

– Instagram er uppáhalds samskiptamiðill Kim. Ljósmyndir búa yfir meiri sköpun en orðin ein að mati Kim. Samt er hún afar virkur notandi á Twitter.

– Þó Instagram sé í mestu uppáhaldi hjá Kim, segist hún nota Twitter á sambærilegan hátt og aðrir nota Google. „Twitter er svo lifandi, þar gerist allt í rauntíma” segir hún „Ég get kastað út spurningu, búið til umræðuefni og fengið svör frá öðrum notendum nær samstundis.”

– Kim skrifar og deilir öllum sínum tístum á Twitter og ljósmyndum á Instagram sjálf. Hún segist ekkert botna í því að aðrar stjörnur skuli ekki gera slíkt hið sama – að sér finnist fáránlegt að heimsfrægir einstaklingar skuli halda úti launuðum starfskröftum sem sjá um slíkar deilingar.

– Sá orðrómur að Kim fá 10.000 Bandaríkjadollara að launum í hvert einasta sinn sem hún tístir á Twitter á ekki við nein rök að styðjast. „Ég væri bandóð á Twitter ef svo væri” sagði Kim í viðtalinu. „Ég myndi drita út tístum á tveggja mínútna fresti.”

– Hún er útsmogin þegar að vali á myndum og röð deilinga kemur. Tímasetning skiptir höfuðmáli, segir Kim. „Ég fylgi þriggja mynda reglunni. Ef ég fer yfir þann fjölda þá flæðir setteringin yfir fréttaveituna mína og kæfir flæðið í deilingunum.”

– Kim á og notar Blackberry Bold. Hún er með slíka þráhyggju fyrir Blackberry að hún þefar uppi símann á eBay og kaupir gjarna þrjá í einu – þar sem hætt er að framleiða módelið – bara svona til vonar og vara, ef einn þeirra skyldi brotna. iPhone notar hún hins vegar til sjálfsmyndatöku. Útsmogin er hún.

SHARE