Hafnarfjörður tekur á sig drungalega mynd nú um helgina og verða draugar og forynjur í forgrunni í bæjarfélaginu. Tilefnið er Dagur hinna dauðu eða Allra heilagra messa sem á rætur sínar að rekja til Mexíkó og er haldinn hátíðlegur í lok október ár hvert.
Á viðburðasíðunni Draugabærinn Hafnarfjörður á Facebook má finna örlítinn fróðleiksmola um sjálfan daginn og uppruna Hrekkjavöku en þar segir:
Dagur hinna dauðu eða Allra heilagra messa er haldinn hátíðlegur í Mexíkó ár hvert. Þetta er litrík hátíð sem er tileinkuð hringrás lífsins. Menn heiðra forfeður sína með því að útbúa altari eða Ofrenda hlaðið skrauti og mat, fjölskyldur og vinir koma saman og eiga góðar stundir með mat og tónlist. Gerð altarisins er viðburður í sjálfu sér, margir leggjast á eitt og efniviðurinn getur verið margvíslegur en útkoman oft hlaðin og dulúðug og er hugmyndin sú að tengja saman heim lifenda og dauðra.
Nornaleit með dramatísku ívafi og tilheyrandi verðlaunaafhendingu, pólsk draugastund, dularfull draugaganga og hryllingsmyndabíó er aðeins brot af dagskránni, sem stendur yfir frá fimmtudegi til sunnudags en einnig mun Lista- og Menningarfélag Hafnarfjarðar slá upp tívolítjaldi, efna til konukvölds og bjóða til mexíkóskrar listasmiðju.
Á vefsíðu Hafnarfjarðarbæjar kemur fram að mexíkósku listamennirnir Diego Narvaez og Laura Chenillo sem nú dvelja í gestavinnustofu Hafnarborgar muni leiða listasmiðjuna þar sem markmið þáttakenda verður að skapa saman Ofrenda í tilefni Dia de los Muertos, en svo nefnist Dagur hinnna dauðu – eða Hrekkjavaka – á frummálinu og mun þar gefast kostur á að læra hinar gömlu hefðir að baki deginum sjálfum og fræðast um uppruna hans.
Smiðjan fer fram fimmtudag og föstudag 3o. og 31. október frá kl. 18-21 og laugardag 1. nóvember frá kl. 12-18.Afrakstur smiðjunnar verður síðan til sýnis í Apótekarsal Hafnarborgar (gengið inn frá Strandgötu) frá kl. 18-21 á laugardagskvöldið. Ýmiss efniviður stendur þátttakendum til boða en fólk er jafnframt hvatt til þess að koma sjálft með efni sem hentar s.s. kerti, krukkur, skraut, pappír, liti og myndir af forfeðrum sínum til að vinna með.
Þá mun dansinn duna fram á rauða nótt um helgina í Hafnarfirði, en Kiddi Kanína ásamt DJ Óla Palla og DJ Ziggy halda uppi stuðinu á Draugadiskó A. Hansen bæði föstudags- og laugardagskvöld, en Todmobile slá botninn í hátíðina á sunnudag með glæstu tónleikahaldi.
Nánar má lesa um dagskrá helgarinnar á vefsíðu Menningar- og Listafélags Hafnarfjarðar
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.