Svo virðist sem tískubylgja ríði nú yfir hjá ákveðnum hópi ungra kvenna sem láta líkamshárin undir handakrikum óáreitt. Eins og flestir vita myndast á endanum brúskur í armholunni sé líkamsrakstri ekki beitt reglulega.
Óljóst er hvað veldur bylgjunni en við hjá ritstjórn höfum orðið hennar var bæði á öldum internetsins og í sturtuklefum sundlauga í borginni.
Má vera að þetta sé ákveðin andspyrna gegn háreyðingunni sem hefur verið ríkjandi síðastliðin fimm ár eða svo. Við sem erum komnar yfir þrítugt munum það vel þegar það var bara allt í lagi að vera með smá runna að neðan til dæmis. Í dag þykir það ekki aðlaðandi og eru því flestar fullorðnar konur eins og smástelpur að neðan.
Þegar kemur að hári undir handakrikum snýst umræðan oft um að svitalykt eigi auðveldara með að myndast þegar svitinn festist í hárunum. Var það upphaflega ástæðan fyrir því að konur fóru að raka sig undir handakrikum. Talið er að konur hafi byrjað að fjarlægja líkamshár undir handakrikum að staðaldri í kringum árið 1915. Fyrsta rakvélin ætluð konum kom fyrst á markað árið 1922.
Það var ekki fyrr en í kringum seinni heimsstyrjöldina, eða upp úr árinu 1940, að fatatískan varð þess valdandi að konur tóku að raka á sér leggina eftir því sem pilsin urðu styttri. Nylon-sokkabuxur komu á markað á svipuðum tíma og urðu strax mjög vinsælar. Að vera með rennislétta leggi varð ekki bara tíska heldur nauðsyn ef hárin áttu ekki að sjást í gegn.
Flestar konur hafa í gegnum tíðina látið það duga að snyrta á sér skapahárin og halda ofvexti í skefjum. En eins og fyrr sagði hafa þau fengið að rjúka alveg með tilkomu brasilíska vaxsins. Nútímakonan borgar fúlgur fjár til að láta rykkja af sér mottuna!
Nú er spurning hvort verði viðsnúningur á háreyðingum eða hvort við förum að raka á okkur handleggina næst.