Stefnir Blóðbanka: „Blóð okkar er ekki sýkt, frekar en annarra.”

27 ára gamall samkynhneigður karlmaður, Troy Michael Jónsson, íhugar nú að stefna bæði Blóðbankanum og Landlæknisembættinu til að láta reyna á lögmæti þess að hommar megi ekki gefa blóð.

Þetta kemur fram á fréttavef RÚV en Sævar Þór Jónsson, lögmaður Troy Michael, er að sögn fréttastofu að yfirfara gögn sem stendur og segir hann undirbúning málshöfðunar langt á veg kominn. Segir Sævar í viðtali við fréttastofu RÚV að „… reglurnar eigi rætur sínar að rekja til þess tíma þegar menn vissu ekki hvaða hættur væri að eiga við varðandi blóðgjöf.”

Þá bendir Sævar einnig á að hlutfall þeirra sem sýktir eru af HIV sé ekki hærra meðal samkynhneigðra en gagnkynhneigðra, blóð sé nú skimað og að það komi í veg fyrir að sjúklingar fái sýkt blóð.

Á vef Blóðbankans má lesa reglugerð þá er snýr að hverjir mega gefa blóð, en þar er skýrt kveðið á um að karlmenn sem hafa haft samfarir við einstakling af sama kyni mega ekki gefa blóð á Íslandi.

Sjálfur bendir Troy á að þörfin fyrir blóðgjafir sé mikil á Íslandi sem stendur og því séu þau rök að hommar megi ekki gefa blóð ekki haldbær. Að undarlegt sé að útiloka heilbrigða þjóðfélagshópa frá blóðgjöfum á hæpnum forsendum sem hér er lýst að ofan.

„Blóð okkar er ekki sýkt, frekar en annarra. Þetta er algjörlega skýrt dæmi um mismunun á grundvelli kynhneigðar.“

Frétt RÚV má lesa í heild sinni HÉR

SHARE