Ádeilur og fordómar, sleggjudómar og aðdáun er tengjast konurbrjóstum; mýtur og staðreyndir og jafnvel fordómar. Viðhorfin eru svo margslungin og flókin í eðli sínu að erfitt er að tíunda. Ætti kona að brjóstfæða? Eru brjóstaaðgerðir skammarlegar? Er eðlilegt að ganga í brjóstahaldara, dónalegt að láta skína í geirvörtu eða eru konubrjóst eðlileg ásýndar? Hvaða form er fallegt og hvað þykir ljótt?
Listinn er endalaus. Öllu forvitnilegra er þó að skoða þá hlið sem sjaldnar er rædd; hvað konum þykir í raun og veru um eigin brjóst. Um alla þá daglega athygli sem konubrjóst geta dregið að sér og þá kúnst að lifa með slíkar hormónasprengjur sem umheimurinn virðist heltekinn af. Á vefsíðunni Refinery 29 er að finna forvitnilegan og áleitinn myndaþátt um konubrjóst sem tekur á viðhorfum kvenna til eigin brjósta.
Við birtum hluta greinarinnar hér en greinina sjálfa má nálgast á Refinery 29
Sem fyrirsæta í yfirstærð upplifi ég oft mikinn þrýsting sem snýr að þeim ranghugmyndum að allar stúlkur í yfirstærð séu með bogadregnar línur. Ég veit hins vegar að þau viðhorf byggja á mýtum. Þess vegna þarf ég að eiga auka fyllingar sem ég set í brjóstahaldarann þegar ég sit fyrir á myndum og sýni föt. Því fólk reiknar með því að allar stúlkur í yfirstærð séu með þrýstnar og ávalar línur …
… ég var í gæsapartýi þegar ég uppgötvaði æxlið í öðru brjóstinu. Ég var að fíflast með undirfatnað sem vinkona mín hafði fengið að gjöf og klæddi mig í brjóstahaldarann. Þetta átti bara að vera djók, en þegar ég greip um brjóstin á mér fann ég loks hnútinn. Hann var lítill og í laginu eins og baun. Ég hef örugglega hringt í 12 mismunandi lækna og ráðgjafa sem sögðu mér allir að hafa engar áhyggjur, því ég væri ekki enn orðin fertug og enga sögu um brjóstakrabba var að finna í minni fjölskyldu, …
… fólk segir að ég sé með tvö moskítóbit framan á bringunni í staðinn fyrir brjóst og sjálf tengi ég brjóstin á mér ekki við kynveruna í mér, vegna þess að þau eru ekki eins og ég hefði viljað að þau yrðu þegar ég varð kynþroska. Ég geng eiginlega aldrei í brjóstahaldara og ég get líka verið í fallega flegnum bolum án þess að glenna brjóstaskoruna framan í heiminn, því … brjóstin á mér eru bara of lítil.
… ég varð kynþroska alveg fáránlega snemma og ég var komin í D-skálar í 12 ára bekk. Ég þroskaðist miklu hraðar en stelpurnar í mínum bekk og strákarnir voru beint út sagt kvikindislegir og vondir við mig; þeir gripu í brjóstin á mér og hikuðu ekki við að káfa á mér. Þeir voru einfaldlega of ungir til að gera sér grein fyrir því að það var rangt að láta svona. Brjóstin á mér eru miðpunktur líf míns og hafa alltaf verið …
Brjóstakrabbinn umbylti einfaldlega lífi mínu á svo óteljandi marga vegu. En dýrmætasta lexían sem ég hef lært af veikindunum er sú að taka ekki smáatriðin of nærri mér – að lifa hvern einasta dag til fullnustu.
… svo ég ákvað að fara í brjóstastækkun og það var besta ákvörðun sem ég hef tekið. Mér líður vel í dag og aðgerðin hefur gert mikið fyrir sjálfstraustið. Auðvitað er þetta bara brjóstastækkun – en þetta var líka skrefið sem ég þurfti að taka til að byggja upp sjálfstraustið. Aðgerðin breytti miklu fyrir mig. Auðvitað þarf enginn lífsnauðsynlega á slíkri aðgerð að halda en ef manni langar til og hefur efni á aðgerð, hvað stendur þá í veginum?
Brjóstin á mér eru hluti af mér sem kynveru þegar ég vil hafa þau svo, en mestmegnis af tímanum eru þau bara til staðar, framan á bringunni á mér. Vonandi fæ ég einhvern daginn tækifæri á að brjóstfæða mín eigin börn og þegar ég verð orðin gömul kona verða þau slitin og lúin. Sá dagur mun renna upp að enginn maður á eftir að líta tvisvar á brjóstin á mér, vegna þess að þau verða þreytt og slapandi og ævagömul. Ég sýni þau ekki oft en þegar ég geri það, geng ég alla leið; ég nota push-up haldara og flegið hálsmál. Og ég fíla það.
Ég elska brjóstin á mér og finnst æðislegt að þau séu stærri. Ég held að mér mislíki bara ekkert við þau. Þegar ég var lítil stelpa, gat ég ekki beðið eftir að brjóstin færu að vaxa. Og þegar þau fóru að koma, myndaði ég ástarsamband við þau.
Ég hef örugglega verið 9 eða 10 ára gömul þegar ég fór að stelast til að kíkja á vinkonur mínar þegar þær voru fáklæddar. Ég man að ég skoðaði sjálfa mig í einrúmi líka og skildi ekki af hverju þær voru með miklu minni brjóst en ég. Þær voru með lítil kirsuberjabrjóst en mín voru öðruvísi. Í smá stund var ég viss um að ég hefði fæðst sem karlmaður, því mér fannst brjóstin á mér allt öðruvísi en þeirra.
Ég þori ekki að fara í DNA rannsókn og krabbameinsskoðun í þeim tilgangi að láta kanna hvort ég hef erft genið sem dró móðurömmu mína til dauða úr brjóstakrabba og sýkti móður mína, sem lifði brjóstakrabbann af. Það er ömurlegt að tala svona, en mér finnst stundum eins og brjóstin á mér séu gangandi tímasprengja og að það sé óhjákvæmilegt að ég muni einn daginn fá krabbamein.
Ég sé ekkert kynferðislegt við brjóstin á mér en ekki bara vegna þess að þau eru lítil. Mér finnst stærðin alveg mátuleg; þau passa ekki alveg í lófann en þau eru samt alveg nógu stinn. Ég hef átt nokkra kærasta sem hafa allir spurt mig hvort ég geti hugsað mér að fara í brjóstastækkun seinna á ævinni og ég hef alltaf neitað. Glætan.
Ég hafði verið á hormónameðferð í sex mánuði og hafði engum sagt enn að ég væri kona – þegar ég tók aftur saman við gamla kærustu sem ég hafði slitið sambandi við mörgum árum fyrr. Ég sagði henni frá því, stuttu áður en við tókum saman aftur … og eitt kvöldið sváfum við í sama rúmi. New Order voru að spila í útvarpinu og lagið Temptation ómaði í hátölurunum. Hún smeygði hendinni undir bolinn minn og snerti brjóstin á mér, sem voru ofurviðkvæm og næm, í alfyrsta skipti. Þá, á þeirri stundu, fór ég að yfirstíga skömmina sem fylgdi því að upplifa þær breytingar sem líkami minn var að ganga í gegnum.
Greinina má lesa í heild sinni HÊR
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.