Hljómsveitin Himbrimi gaf frá sér myndband við lagið Tearing á dögunum. Þar sést söngkonan Margrét Rúnarsdóttir ganga um kalda fjöru prúðbúin fjöðrum og fallegum klæðum sem endurspegla lagið með dramatískum hætti.
Margrét segist sækja innblástur víða fyrir tónlistina en að oftast sé um að ræða sérstaka tilfinningu sem hana langar til að færa yfir í orð og tóna.
„Ég hef alltaf haft þörf fyrir að skapa og gera tónlist. Það er svo gott að tjá sig í gegnum tónlist og að miðla einhverju áfram. Það eru engar hömlur, ég leyfi bara því að koma sem vill koma. Það er oft þegar ég sest fyrir framan píanóið að það kemur bara eitthvað, einhver tilfinning. Það fer líka eftir því hvernig ég er upplögð hverju sinni, hvað kemur frá mér í það skiptið. Ég ákveð sjaldan hlutina fyrirfram heldur flæðir þetta náttúrulega og ég leyfi hjartanu alltaf að ráða för.“
Fjölskyldulífið og tónlistin
Maður Margrétar er Birkir Rafn Gíslason sem leikur á gítar í hljómsveitinni Himbrimi. Saman eiga þau tæplega þriggja ára son. En hvernig hefur gengið að sameina fjölskuldulíf og tónlistina?
„Það hefur gengið vel með allt þetta yndislega fólk í kringum okkur sem er tilbúið að hjálpa okkur. Sterkt bakland skiptir gríðalegu máli. Það getur verið svolítið „production“ að vera par sem á barn saman og sem er líka í hljómsveit saman.“
Ljósmynd: Krístin Pétursdóttir
Það ríkir mikil tónlistargleði á heimilinu að sögn Margrétar en hún segist vera alin upp við tónlistina ásamt systur sinni, Láru Rúnarsdóttur, sem hefur einnig gert garðinn frægan í tónlistarheiminum.
„Ef við erum ekki sjálf að spila þá er hlustað mikið á tónlist hér á bæ. Ég var líka alin upp við mikla tónlist. Pabbi minn er tónlistarmaður og systir mín. Þannig það á kannski einhvern hlut að máli og hefur verið ákveðin hvatning og innblástur að fást við tónlistina. Það er mikill sköpunarkraftur í kringum mig og ég hef alltaf haft þörf fyrir að skapa. Tónlistin gefur manni frelsi til þess og að vera maður sjálfur.“
Myndbandinu er leikstýrðu þær Margrét Vala og Agnes Björt Andradóttir en í því má sjá Margréti breytast úr einskonar strengjabrúðu og yfir í fuglinn Himbrima, sem er táknmynd fyrir frelsi. Hér neðan má sjá nokkrar ljósmyndir sem teknar voru við gerð myndbandsins.