Korselett: Fyrirrennari Photoshop var forboðið fantasíuklæði

Stundaglasavöxtur hefur ávallt þótt eftirsóknarverður meðal þeirra kvenna sem vilja tolla í tískunni og þrá það eitt að snúa höfðum á götu úti. Svo eftirsóknarverður þykir stundaglasavöxturinn sem einkennir þær konur sem eru með þrýstinn barm, örgrannt mitti og bústinn afturenda að þær hafa ófáar lagt nær allt í sölurnar til að öðlast, þó ekki væri nema tímabundið, bogadregnar línur.

 

 

Þegar Photoshop ekki dugar til og líkamlegrar nærveru er krafist leita enda ófáar konur í smiðju formæðra sinna. Korselettin, sem áður ollu yfirliðum og geta ollið skaða á inni líffæri kvenna ef ekki er varlega farið, lifa enn góðu lífi í dag og framleiðendur hafa vart undan að taka niður pantanir.

 

 

Korselettin eru ævagömul, hafa verið í notkun frá örófi tíma – eða svo virðist það alla vega þegar flett er gegnum síður tískusögunnar á góðum degi. Svo algeng voru yfirlið kvenna sem gátu vart dregið andann í níðþröngum korselettum hér á öldum áður að húsgagnasmiðir hófu að hanna og selja svonefnda “fainting couches” – sem eru betur þekktir undir nafninu “legubekkir” eða “sessalón” í dag. Legubekkirnir voru því sérhannaðir með yfirlið kvenna í huga; svo hægt væri að leggja þær niður, losa um reimarnar og strjúka ilmsöltum við vit þeirra til að kalla þær aftur til meðvitundar.

 

Þau eru falleg, korselettin og eru í raun fantasía, ævintýralegur klæðnaður sem undirstrikað getur ýktan kvenleika og aukið á leikræna heildarmyndina. En þegar til lengri tíma er litið geta korselett unnið ómældan skaða á innri líffærum konunnar; lifur, lungum og nýrum, svo eitthvað sé nefnt.

 

 

Þar með er ekki sagt að það eitt að klæðast korseletti yfir kvöldstund geti ollið varanlegum skaða. Þvert á móti er verið að vísa til þeirrar staðreyndar að langvarandi noktun korseletta getur brákað rifbein, truflað meltingarstarfsemi og dregið úr eðlilegri brennslu líkamans. Svo mikinn skaða geta korselett unnið á kvenmannslíkamanum.

 

 

Þrátt fyrir þetta allt er einhver ljúfsár fegurð yfir bansettum korselettunum. Reyrð og haganlega hagrædd, níðþröng og mótandi, gefa korselettin konulíkamanum einhvern fantasíukenndan bjarma þó ekki sé nema á ljósmynd, á leiksviði eða yfir haganlega afmarkaða kvöldstund, þar sem ætlunin er að laða fram nær ómanneskjulegar og bogadregnar línur.

Korselettin eru dásamlegur fylgihlutur og sé korselettið haganlega reyrt, ekki of fast og einungis yfir kvöldstund, má með sanni segja að korselettin geti sveipað konu dulúðugum bjarma. Kynt undir leikrænar fantasíur, gætt nær hvaða konu sem er nær lýtalausum stundaglasavexti og blekkt augað. En korselettin eru einmitt það; fögur fantasía sem klæðast ætti yfir eina kvöldstund og þá í hæfilegri stærð.

 

Dásemd sem þau eru, þá er fjölbreytileiki fegurðarinnar einmitt fólginn í því – að umfaðma eigin ófullkomleika. Korselettin eru draumkennd, ægikvenleg og fögur ásýndar en þau eru fantasía sem best er geymd í myndveri, þeim er ætlað að fanga augnablikið en ekki verða hluti af gráum veruleika hversdagsins. Til þess eru korselett alltof óþjál og geta hreinlega verið hættuleg líkamanum.

En fögur eru þau tilsýndar úr fjarlægð … því verður seint neitað.

#corset

SHARE