Dylan Brosnan, 17 ára gamall sonur Bondknúsarans Pierce Brosnan úr öðru hjónabandi leikarans, sannar í nýrri auglýsingaherferð fyrir Saint Laurent að sjaldan fellur eplið langt frá eikinni.
.
Sterkur svipur er með þeim feðgum Dylan og Pierce eins og sjá má af þessum myndum
.
Dylan, sem birtist í svart-hvítum myndaþætti gefur föður sínum ekkert eftir í glæstum jakkafatnaði og klæðskerasniðnum herraklæðnaði og virðist sem fæddur til að daðra við linsuna. Ásamt Dylan ljáir hinn 19 ára gamli Jack, sonur Val Kilmer, Saint Laurent, nærveru sína við kynningu á nýjustu línu Saint Laurent en að baki nýju herferðinni er Hedi Slimane, listrænn stjórnandi Saint Laurent sem er þekktur fyrir að feta ekki troðnar slóðir og tengdi þannig tónlist og tísku saman á síðasta ári undir formerkjunum Saint Laurent Music Project. Uppátæki Hedi þykja voguð og ögrandi og eru þeir Dylan og Jack einungis nýjasta útspilið úr herbúðum Saint Laurent.
.
.
Dylan er eldri sonur Bond leikarans úr öðru hjónabandi Brosnan en móðir Dylan er Keely Shaye Smith, sem starfar sem blaðamaður. Sjálfur er Pierce, faðir Dylan orðinn 61 árs gamall og geislar enn af tímalausum kynþokka. Samkvæmt því er kemur fram á Style fékk Slimane augastað á Dylan fyrir Saint Laurent sl. sumar í Malibu, þar sem Dylan er búsettur ásamt 13 ára gömlum bróður sínum og báðum foreldrum.
.
Spennandi verður að sjá hvort Dylan fetar í fótspor föður síns á hvíta tjaldinu
.
Enginn vafi leikur á því að Dylan hefur erft karlmannlegt útlit föður síns sem hefur brætt ófá hjörtun gegnum leik sinn í Bond kvikmyndunum og tekur sig einkar vel út í glæstum jakkafötunum en Dylan er hávaxinn og grannur rétt eins og Brosnan eldri og er spurningin nú einungis þessi hvort drengurinn muni feta í fótspor föður síns á hvíta tjaldinu og þannig halda nafni ættarinnar á lofti í kvikmyndaheiminum þegar fram í sækir.
.
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.