Alexander Wang kann að halda um stjórntaumana í tískuhúsi Balenciaga og njóta ómældrar virðingar sem hátískuhönnuður, reyndar svo mjög að hann var nýverið fenginn til að sérhanna línu fyrir H & M en nýjasta herferð hans hefur vakið undrun, reiði og depurð almennings.
Ástæðan? Jû, hann kýs að vísa í sjálfsfróun kvenna með birtingu mynda í tengslum við nýja gallbuxnalínu sem brátt kemur á markað. Ljósmyndirnar sýna nakta konu með gallabuxur á hælunum í sniði sem ógerlegt er að greina, en Wang deildi annarri og grófari mynd sem sýnir nakta konu með gallabuxurnar dregnar niður að hnjám seilast með fingrunum beint milli fóta sér líkt og verið sé að mynda lélegt klám þar sem sjálfsfróun kemur við sögu.
.
.
Gagnrýnendur hafa brugðist harkalega við; segja sorglegra en orðum tekur að nefna að kvenlíkaminn sé enn á dögum upplýstra þegna nýttur í niðrandi tilgangi til að selja tísku á niðurlægjandi og hlutgerandi máta. Að litlu skipti þó almenningur sé ekki mótfallinn nekt, það eitt að telja að konur kaupi fremur gallabuxur ef þær sjá fyrirsætur fróa sér á auglýsingaspjöldum sé dapurleg tilraun af hálfu Wang til að vekja athygli á eigin vörulínu.
.
.
Sjálfur segist Wang í viðtali við WWD hins vegar ekkert sjá athugavert við uppsetninguna, þvert á móti segir hann alls ekki ljóst hvernig túlka megi herferðina, sem er ný af nálinni.
Þetta er ekki ögrandi í kynferðislegum skilningi, heldur ögrandi á vitsmunalegan hátt; getur hvatt til umræðna. Sjálfur ætla ég ekki að túlka hvaða skilaboð felast í framsetningunni. En forvitnilegt verður að sjá með hvaða hætti fólk kýs að túlka herferðina og hvaða orð verða látin falla. Auðvitað verða alltaf einhverjir mótfallnir þessu uppátæki. Það er óhjákvæmilegt.
Ekki er með öllu víst hvað Wang á við eða hverju hann reiknar með að konur verði mótfallnar. Hvort ólíklegt sé að konur afklæðist gallabuxum og iðki sjálfsfróun eða njóti þess að sitja naktar með rándýrar buxur á hælunum í einrúmi? Nema hann reikni jafnvel með að konur geti brugðist ókvæða við og umræðu um hlutgervingu kvenlíkamans beri á góma. Hafi Wang vonast til þess að kynda undir feminískum glæðum siðvandra, hefur honum þegar tekist ætlunarverk sitt.
En þó er eitt enn á huldu; hvernig lítur svo línan eiginlega út?
Nýja gallabuxnalínan kemur í verslanir þann 8 desember nk. en vefsíðu Wang má skoða hér
Tískuvikan í New York: Alexander Wang með sterkar og vogaðar línur
Skuggalegar uppstillingar á fyrirsætu – Myndir
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.