Sigga Klingenberg er alltaf frekar áberandi í fjölmiðlum og er meðal annars þekkt fyrir einstakan klæðaburð og útlit. Við hjá Hún.is spjölluðum við Siggu aðeins um árið sem senn er að líða og árið sem er að koma.
Það er nú dálítið eftirminnilegt að ég fann pabba minn á árinu 2012, orðin 52 ára gömul og það á Facebook. Datt aldrei í hug að ég ætti annan pabba en þann sem var skrifaður á mig. Ég og sá pabbi minn vorum bæði í sérkennilegum blóðflokk en annað var nú ekki líkt með okkur. Hann var nú ágætis kall og dugaði mér alveg þótt sambandið væri nú ekkert uppá marga fiska, þá gerði hann líklegasta það besta sem hann gat.
Sigga segir að „nýji“ pabbi hennar sé svo líkur henni að þau þurfi ekki einu sinni að fara í DNA próf og að samskiptin milli þeirra séu afbragðs góð.
Hann segir við kærustuna sína „Hvað, Sigga min hefur ekki hringt í mig í 2 daga ætli það sé eitthvað að?“ og mér finnst það æðislega krúttlegt.
Sigga er ekki mjög hrifin af sprengingunum sem fylgja áramótunum:
Ég er ekki neitt fyrir áramótapartý. Það eru alltaf allir að vonast eftir að allt verði fullkomið og tapa sér oft í stressinu, sprengja upp áramótin í ógeðssprengjum sem trufla áru landsins. Það er rétt eins og það sé stríðsástand, dýr og börn skelfingu lostin og ruslið hylur Móður jörð. Margir þjást af þunglyndi, næstu vikur á eftir. Það ætti að banna þessar rakkettur og láta bankana bara sponsera sprengjur við hafnarbakkann.
Sigga segir jafnframt:
Ég eyði gamlársdegi með fjölskyldu minni, Sigrúnu, Guðbirni og Pésa og auðvitað þeim sem kíkja inn. Klukkan 12 á miðnætti óskum við okkur alltaf, eina ósk á mann, sem við hvíslum út í alheiminn. Svo fer ég að sofa og þegar ég vakna pæli ég mikið í draumunum sem mig dreymir enda eru þeir fyrir nýju ári. Á nýárs er ég svo Völvan á skemmtistaðnum Austur eins og undanfarin ár. Þar sit ég í hásæti með óskasteina og gef góð ráð fyrir nýtt ár.
Á nýju ári segist Sigga stefna að því að vera betri manneskja:
Ég ætla að halda námskeið um allt land, skrifa nýja bók og jafnvel fara að hreyfa mig eitthvað (djók). Svo ætla ég að læra að syngja með hjálp snillingsins Heru Bjarkar. Allavega ætla ég ekki að taka lífið of alvarlega því ég kemst ekki lifandi frá því.
Gleðilegt ár!
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.