Ilmolíur í hjúkrunarmeðferð

Margar minningar fólks eru tengdar við ilm, hvort sem minningarnar eru góðar eða slæmar. Ilm er hægt að nota sem meðferðarform og ilmolíumeðferð er beitt innan heilbrigðisgeirans víða um heim til að styðja við aðra meðferð, t.d. til að draga úr kvíða, bæta svefn og auka vellíðan. Í þessari grein er fjallað um ilmolíur sem lið í hjúkrunarmeðferð. 

Saga ilmolía

Notkun jurta til lækninga nær aftur um þúsundir ára. Vitað er til að sedrusviðarolía var notuð af Egyptum fyrir 5000 árum. Heimildir eru til um notkun allt að 60 olíutegunda bæði til að gefa ilmvötnum ilm og til lækninga í byrjun 17. aldar. Þá hafði einnig verið margt skráð um virkni jurta og olía í Evrópu. Eftir því sem vísindalegri þekkingu fleygði fram viku jurtirnar fyrir tilbúnum efnasamböndum og lyfjum.

Í Frakklandi hefur notkun olía og ilms haldið velli og ekki að undra þótt flest ilmvötn séu framleidd þar. Maurice Gattefosse, efnafræðingur, var nefndur faðir ilmolíanna því hann rannsakaði virkni þeirra og lagði grunn að þeirri vísindalegu þekkingu sem til er í dag á olíunum (Stevensen, 2001). Sagan segir að hann hafi verið að vinna í rannsóknarstofu sinni þegar sprenging varð sem brenndi á honum annan handlegginn og dýfði hann brenndu hendinni óvart ofan í næstu fötu sem í var lavendilolía (Lavandula angustifolia).

Svo vel greri höndin og sársaukinn varð svo lítill að hann ákvað að helga starf sitt því að kanna virkni ilmolía. Margir af sjúklingum hans voru hermenn sem særðust í fyrri heimsstyrjöldinni. Meðal þeirra olía, sem hann notaði, voru blóðberg, kamilla, smári og sítróna til að meðhöndla sár og drep hermannanna. Með auknum lyfjakostnaði, aukaverkunum og ónæmi baktería fyrir mörgum sýklalyfjum hefur vaknað áhugi á virkni ilmolía og hvernig hægt er að nota þær í meðferð.

 

Unnar úr bæði blómum, rótum, fræjum og fleiri jurtum

Þótt ilmplöntur og afurðir þeirra hafi verið notaðar til lækninga og í snyrtivörur í þúsundir ára eru heimildir um eimaðar olíur ekki eldri en um 1000 ára. Olíurnar koma frá mismunandi stöðum jurtanna, t.d. blómum (rósir), laufum (piparmintu), ávöxtum (sítrónu), fræjum (fenniku), grösum (sítrónugrasi), rótum (kalmusrót), viði (sedrusviði) og berki (kanill) (Tisserand og Balacs, 1999). Eftir eimingu eru þær venjulega litlausar eða ljósgular og hreinar.

Olíurnar innihalda blöndu af rúmlega hundrað lífrænum efnum. Ekki verður farið í efnafræði í þessari grein en nauðsynlegt er að kunna góð skil á efnaeiginleikum olíanna ef þær eru notaðar í lækningaskyni. Bent er sérstaklega á bók E. Joy Bowles (2000) í heimildaskrá. Olíurnar eru rokgjarnar og myndast við annarsstigsefnaskipti plantnanna.

Ekki er alltaf vitað af hverju þessar olíur verða til en sumar olíur verja jurtirnar fyrir skordýrum, eða sjúkdómum. Oft myndast þessar olíur vegna einhverrar streitu í plöntunni og ekki er hættulaust að nota allar olíutegundir. T.d. eru fúranókúmarefni mikilvæg en eitruð í sumum olíum ef þau eru þar í of miklu magni. (Bowles, 2000; Tisserand og Balacs, 1999).

 

Gæðin tengd skilyrðum við ræktun

Mikilvægt er að hreinleiki og gæði þessara olía haldist til að þær viðhaldi virkni sinni. Gæði fara eftir nákvæmni í greiningu á tegund, greiningu á efnagerð plöntunnar, staðsetningu, loftslagi, vökvun, sólskini og fleiru í umhverfi plöntunnar. Slíkar upplýsingar er ekki að finna á pakkningu olíunnar en til að geta verið nokkuð viss um gæði hennar er gott að gera prófun en hægt er að lesa sér til um slíkt í bókum um ilmolíur. Það er mikilvægt að hafa varann á þegar olía er keypt og gott er að spyrja þá sem þekkja til um reynslu þeirra af gæðum olíunnar.

Nauðsynlegt er að þekkja til nafngifta plantna þegar notuð eru efni úr þeim. Mikill munur getur verið á eiginleikum planta af sömu ættkvísl, og einnig getur verið munur á eiginleikum planta af sömu tegund. Það er með þessar olíur eins og lyf að mikilvægt er að þekkja verkun þeirra, aukaverkanir og hættumörk. Planta er nefnd eftir ættkvísl og tegund á latínu, t.d. Lavandula angustifolia.

Ættkvíslin er Lavandula og er með stórum staf en tegundin er angustifolia og er með litlum staf. Vitað er að um 3000 plöntutegundir eða um 1% sem framleiða ilmolíur, en margar þessara ilmolíutegunda hafa ekki enn verið rannsakaðar. Um 300 plöntur eru ræktaðar sérstaklega til að framleiða ilmolíur (Halcón, 2001).

 

Skilgreining á ilmolíumeðferð

Ilmolíumeðferð hefur verið skilgreind sem notkun á ilmolíu (essential oil) í lækninga- eða heilusbótarskyni hvort sem olían frásogast um húð, verkar á lyktarskyn eða er til inntöku (Buckle, 1999). Það skal taka fram að aðeins tvenns konar vinnsluefni (extracts) úr jurtum falla undir að vera hæfar til notkunar í þessu skyni en það eru ilmolíur og pressaðar olíur (Buckle, 1997; Price og Price, 1999; Tisserand og Balacs, 1999). Vinnsluaðferðir við að safna þessum olíum eru mismunandi.

Ilmolíur (essential oils) eru plöntulausn sem hefur fengist með eimingu plöntuhluta einnar jurtategundar. Þá hefur ilmolían verið skilin frá gufunni og engu er bætt við. Pressaðar olíur eru afurð sítrusávaxta og fást með einfaldri pressun sítrusbarkar án hita og aðstoðar leysiefna. Ekki geta allar plöntur myndað ilmolíu og sumar mynda svo lítið að olían yrði of dýr í framleiðslu. Algengt er að framleiðendur þynni olíuna og ber að varast slíkar vörur. Sumar olíur eru framleiddar úr plöntum með háu innihaldi hinna eftirsóttu efna og geta fengist á góðu verði.

Stundum þarf mikla fyrirhöfn og talsvert magn af plöntunni til að framleiða olíuna. Ef slíkar olíur fást &aa cute; lágu verði er sennilega ekki um hreina olíu að ræða heldur hefur einhverju verið bætt út í olíuna, t.d. jurtaolíu eða alkóhóli. Dæmi um þetta er rósaolía en um eitt tonn af rósablöðum þarf til að framleiða nokkra dropa af olíunni. Til að athuga hvort um hreina olíu er að ræða er hægt að setja einn dropa á servíettu og þá mun hrein olía algjörlega gufa upp með tímanum og skilur ekki eftir sig fitublett.

Hafi olían verið þynnt með annarri olíu mun fitublettur verða eftir á servíettunni. Alkóhól er annað algengt efni sem er notað til að þynna olíurnar og finnst það oftast á lyktinni.

 

Hvernig beita á ilmolíum á líkamann

Ekki er í vitað nákvæmlega hvernig ilmolíur verka og ekki eru allir sammála um virkni þeirra og hvernig best sé að nota þær. Þrjár aðferðir er hægt að nota til að koma olíu inn í líkamann: um lyktarskynið og lungun, gegnum húðina og með inntöku um munn, endaþarm og leggöng (Buckle, 1997;Price og Price, 1999). Sú leið, sem notuð er, fer eftir ástandi einstaklingsins, sem verið er að meðhöndla, einkennum og hvaða olía er valin.

Ef til dæmis er verið að meðhöndla einkenni frá öndunarfærum getur verið heppilegast að nota innöndun. Ef einkennin eru hins vegar á húð er betra að nota bakstra, úða, baðlausn eða nudd. Þegar ákveða skal hvaða meðferð hentar best verður meðferðaraðili að hafa í huga hvaða efni eru í olíunni, kosti og galla meðferðarinnar og ástand einstaklingsins sem verið er að meðhöndla.

I. Húð (integumentary system) Ilmolía frásogast auðveldlega gegnum húðina og þaðan berst hún til blóðrásar og fruma. Margt hefur áhrif á frásog, til dæmis þykkt húðar, gegndræpi og hraði blóðrásar. Fituleysanleg efni eiga greiða leið gegnum húðina og það er besta leiðin til að fá staðbundna verkun á sár eða einkenni á húð. Helstu meðferðarform eru bakstrar, úði, bað og nudd (Buckle, 1997; Price og Price, 1999).

II. Innöndun (olfactory system) Innöndun er hraðvirkasta og einfaldasta leiðin fyrir olíuna inn í líkamann. Ilmur hefur bráð áhrif á manneskjuna og hún bregst snögglega við ilmi og hægt er að segja stax til um hvort lykt er viðkunnanleg eða ekki og oft vekur ilmur minningar. Húðin í nefinu er þunn og talið er að sameindir olíunnar komist til heilans við innöndun fyrir tilstuðlan lyktarskynsins (Buckle, 1997; Price og Price, 1999).

III. Inntaka (ingestion) Sérstaka menntun þarf til að geta sagt fólki til um inntöku á olíu, og skal það tekið fram að ekki er verið að ráðleggja hjúkrunarfræðingum að nota olíurnar þannig. Hægt er að taka dropa í vatnslausn, í gelhylki eða sem munnskol og einnig að nota stíla með tilbúinni lausn um endaþarm eða í leggöng (Buckle, 1997; Price og Price, 1999).

 

Áhrif ilmolía

Notkun ilmolía í hjúkrun er enn á byrjunarstigi og helstu rökin fyrir notkun eru þau að sjúklingarnir segja að þær verki eða áhrif verða sjáanleg. Rannsóknir hafa helst verið gerðar á dýrum en upplýsingar um áhrif olíanna á mannslíkamann eru ekki alltaf nægar. Tilgátur eru uppi um hver áhrif olíanna geta verið og oftast er þar samspil margra þátta.

Til dæmis eru slakandi áhrif af ilmolíum talin geta stafað af því að olíurnar eru flókin, rokgjörn efnasambönd sem geta náð til minnisstöðva ánægju í heilanum, sum efni í olíunum eru einnig talin geta haft áhrif á móttöku enda dópamíns, serótóníns og noradrenalíns í heilanum, og áhrif snertingar á húð geta haft áhrif til að auka slökun (Buckle, 1999).

Í olíunum eru mörg virk efni sem geta haft áhrif á sál og líkama. Áhrifin geta verið slakandi eða örvandi eftir því hvaða olía er notuð. Rannsóknir hafa sýnt að áhrifin geta verið margs konar. Til dæmis hafa þær dregið úr verkjum, minnkað kvíða, aukið einbeitingu, haft slakandi áhrif, örvað virkni ónæmiskerfisins, dregið úr þunglyndi og haft bakteríudrepandi áhrif(Buckle, 2002; Stevensen, 2001).

Rannsóknir sýna fram á virkni

Rannsóknir á virkni ilmolía eru enn á frumstigi en síðustu ár hefur þekkingu og rannsóknum á notkun þeirra fleygt fram. Nokkrar rannsóknir, sem hafa verið framkvæmdar af hjúkrunarfræðingum, gefa til kynna að ilmolíur geti haft jákvæð áhrif á líðan. Erfitt er þó oft að sýna fram á hvort olíur eiga í raun allan þátt í því.

Í rannsókn á 122 gjörgæslusjúklingum sýndu Dunn, Sleep og Collett (1999) fram á að sjúklingar, sem fengu nudd með 1% lausn af lavendilolíu sýndu minni einkenni kvíða og voru jákvæðari samanborið við þá sjúklinga sem fengu bara nudd eða voru bara látnir hvíla sig. Í annarri rannsókn (Wilkinson, Aldridge, Salmon, Cain, ogWilson, 1999) var borið saman nudd með og án ilmolía hjá sjúklingum með krabbamein. 103 sjúklingum var skipt tilviljunarkennt í tvo hópa. Niðurstöður sýndu að úr kvíða dró hjá báðum hópum eftir nudd hvort sem það var með eða án ilmolíu.

 

Lavendilolía

Lavendilolía er ein af þeim olíum sem hvað mest hefur verið notuð og best rannsökuð af hjúkrunarfræðingum og heilbrigðisstarfsfólki. Jurtin sjálf getur orðið metra há, hún er fölgræn með mjóum greinum og fjólubláum, fallegum blómum. Þessi olía á sér langa sögu, nafnið kemur frá Rómverjum sem notuðu jurtina til að gefa baðvatninu ilm en latneska orðið fyrir að þvo er lavare.

Hún hefur um aldir verið notuð til lækninga, einkum til að bæta líðan í maga en umfram allt sem ilmvatn og einnig til að halda skordýrum frá, gefa þvotti ilm og til að veita slakandi áhrif (Lawless, 1992). Hún er talin vera verkjadeyfandi, hafa bakteríu- og sveppadrepandi áhrif, vera bólgueyðandi, draga úr krömpum og hafa róandi áhrif svo eitthvað sé nefnt. Ekki hefur enn verið sýnt fram á neikvæðar aukaverkanir af völdum lavendilolíu í rannsóknum.

Sjúklingar á gjörgæslu og á hjartadeildum fundu minni verki og sváfu betur eftir nudd með lavendilolíu (Woolfson og Hewitt, 1992) og í rannsókn Brownfield (1998) var olían borin á háls og axlir gigtarsjúklinga. Samkvæmt viðtölum við þá sem þáðu meðferð voru áhrifin mjög jákvæð, einkum sváfu sjúklingar betur og verkir minnkuðu.


Almennar varúðarráðstafanir á meðgöngu

Áður en einstaklingur er meðhöndlaður með ilmolíu þarf að hafa góðar upplýsingar um ofnæmi, lyf, heilsufar og fleira sem nauðsynlegt er að vita um einstaklinginn. Algjört skilyrði er að kynna sér helstu aukaverkanir olíu áður en hún er notuð. Þar sem algengast er að nota olíu á húðina er mikilvægt að prófa hvort sá sem meðhöndla skal er viðkvæmur fyrir olíunni.

Viðbrögð húðarinnar geta verið þrenns konar: erting, næmi og ljósofnæmi. Þessi viðbrögð fara eftir styrkleika olíunnar en aldrei má setja óþynnta olíu á húðina. Ef um ertingu er að ræða koma viðbrögð fljótt fram en næmi myndast smám saman. Hægt er að setja tvisvar sinnum sterkari lausn en á að nota í meðferðinni innan á framhandlegg, plástra yfir og hafa í tvo sólarhringa til að sjá hvort einhver viðbrögð koma fram. Til að forðast ljósofnæmi, sem margar olíur valda, þarf að passa að sá sem er meðhöndlaður fari ekki í sól eða ljós í a.m.k. 12 tíma eftir notkun (Tisserand og Balancs,1999).

Nokkrar olíur geta haft áhrif á estrógenmyndun í líkamanum þar sem efni í þeim eru mjög lík estrógeni. Þetta getur verið varhugavert hjá krabbameinsveiku fólki þar sem þekkt er að nokkrar gerðir æxla geta verið háðar estrógeni og því ber að fara mjög varlega með val á olíu fyrir slíka sjúklinga (Buckle, 1997). Um notkun ilmolíu á ófrískar konur eru ekki allir sammála en almennt er viðurkennt meðal þeirra sem nota ilmolíur að ekki skuli nota þær fyrstu 24 vikur meðgöngu því ekki er með vissu vitað hver áhrif olíanna geta verið á fóstur.

 

Nokkrar olíur ber að forðast á meðgöngu

 

Ákveðnar olíur er ráðlagt að forðast algerlega meðan á meðgöngu stendur (Tisserand og Balacs,1999). Þrennt hefur mest áhrif á gæði olíanna en það eru hiti, ljós og súrefni úr andrúmsloftinu. Það verður því að geyma þær á köldum, dimmum stað í vel lokuðum glösum. Venjulegaer mælt með að frá opnun olíuglass sé hún ekki notuð lengur en í eitt ár til að gæði hennar haldist, en ef vel er passað upp á geymslu hennar getur sá tími lengst í 2 ár (Tisserand ogBalacs, 1999). Olíur skulu geymdar þar sem börn ná ekki til.


Ilmolíublöndun

Ilmolíur eru unnar úr jurtum og eru frá náttúrunnar hendi mjög sterkar lausnir og því er nauðsynlegt að skilja öryggi og mátt þessara sterku lausna sem eru gerðar úr mörgum efnafræðilegum einingum. Oft hefur verið sagt að meira af einhverju góðu sé betra en minna en þetta á ekki við um ilmolíur þar sem sérstaklega skal ítrekað að minna er oftast betra. Styrkleiki kringum 2% -10% af olíulausnum er viðmið sem gott er að nota við meðferð á húð(Buckle, 1997; Price og Price, 1999).

Um 20 dropar eru í hverjum millilítra og um 100 dropar í 5 ml. Ilmolíurnar eru óþynntar og því verður að þynna þær fyrir notkun. Oft er ilmolíunum blandað saman við burðarolíur, t.d. fyrir nudd, en þær eru frekar feitar olíur og unnar úr jurtum. Mælt er með að nota kaldpressaðar olíur sem burðarolíur og eru margar slíkar til, t.d.úr vínberjasteinum, sólblómafræjum, hveitikími og morgunfrúm (Buckle, 1999).

Til viðmiðunar:

2% lausn: 2 dropar af ilmolíu í 5 ml af grunnolíu.
3% lausn: 3 dropar af ilmolíu í 5 ml af grunnolíu
10% lausn: 10 dropar af ilmolíu í 5 ml af grunnolíu(Halcón, 2001).
Tekið skal fram að betra er að byrja með veika lausn til að sjá hver áhrifin verða af olíunni. Þegar verið er að meðhöndla veikt fólk, börn eða gamalt fólk er ráðlegt að byrja með enn veikari blöndu. Algengt er að nota ilmolíu í bað og eru þá settir 6-8 dropar af ilmolíu í vatnið. Ráðlegt er að blanda olíuna fyrst með mjólk eða burðarolíu til að leysa hana upp svo hún eigi greiðari leið inn um húðina (Halcón, 2001; Buckle, 2002). Ein einfaldasta leiðin til að láta ilmolíu virka er að anda henni að sér.

Hægt er að nota rakatæki til að dreifa olíunni, hella henni út í vatnið þegar það volgnar. Rakinn inniheldur þá ilmolíusameindir. Þetta er gott þegar verið er að meðhöndla öndunarörðugleika eða slím í lungum. Einnig er hægt að nota þurra innöndun, þá eru settir nokkrir dropar í bómullarhnoðra eða á bréfþurrku og leyft að gufa upp í andrúmsloftið. Þá er hægt að setja 1 til 5 dropa af ilmolíu á servíettu eða í skál með heitu vatni anda ilminum að sér í um 5 til 10 mínútur. Einnig er hægt að setja ilmolíu í krem og anda að sér, gæta þess bara að augu séu lokuð og ekki fari olía í augun.

 

Hjúkrunarfræðingar hvattir til að kynna sér ilmolíur

Hjúkrunarfræðingum og öðrum, sem hafa áhuga á að kynna sér ilmolíur og notkun þeirra, er bent á lesefni í heimildaskrá. Þetta er spennandi meðferðarform og getur haft margt að bjóða fram í hjúkrun sjúklinga ef vel er með farið. Það skal tekið fram að ekki eru til neinar reglur um notkun þessara olía innan heilbrigðiskerfisins á Íslandi. Að mörgu er að hyggja þegar beitt er sérhæfðum meðferðarúrræðum sem lítið hafa verið reynd og hafa ekki viðurkenndar rannsóknir að baki. Fjallað var um þessi atriði í grein höfundar í Tímariti Félags íslenskrahjúkrunarfræðinga sem kom út í apríl 2002.

 

Heimildaskrá:
Bowles, E. J. (2000). The Basic Chemistry of Aromatherapeutic Essential Oils. Sydney, Ástralíu. E. Joy Bowles gaf út.
Brownfield, A. (1998). Aromatherapy in arthritis; A study. Nursing Standard, 13(5), 34-35.Buckle, J. (2002). Aromatherapy. Í M. Snyder og R. Lindquist (ritstj.),Complementary/AlternativeTherapies in Nursing (4. útgáfa) (bls. 245-257). New York: Springer PublishingCompany.
Buckle, J. (1999). U se of aromatherapy as a complementary treatment for chronic pain.Alternative Therapies in Health and Medicine, 5(5), 42-51.
Buckle, J. (1997). Clinical Aromatherapy in Nursing. London: Arnold Publishers.
Dunn, C., Sleep, J., og Collett, D. (1995). Sensing an improvement: An experimental study to evaluate the use of aromatherapy, massage and periods of rest in an intensive careunit.Journal of Advanced Nursing, 21, 34-40.
Halcón, L. (2001). Clinical Aromatherapy 1: Monographs: Rosemary. Sótt á netið 22.september 2001 á vefslóð Minnesótaháskóla: http://webct3.umn.edu/CSPH5501_f01/-Monographs/Rosemary.htm
Lawless, J. (1992). The Encyclopaedia of Essential Oils. Dorset Bretlandi Element BooksLimited, Dorset.
Price, S. og Price, L. (1999). Aromatherapy for Health Professionals (2. útgáfa .), London: Churchill Livingstone.
Stevensen, C. (2001). Í D. Rankin-Box (ritstj.), The Nurse’s Handbook of Complementary Therapies (2. útgáfa) (bls.129-137). London: Harcourt Publishers.
Tisserand, R. og Balacs, T. (1999). Essential Oil Safety. A guide for Health care Professionals.London: Churchill Livingstone.
Wilkinson, S., Aldridge, J., Salmon, I., Cain, E., og Wilson, B. (1999). An evaluation of aromatherapy massage in palliative care. Palliative Medicine, 13, 409-417.
Woolfson, A., og Hewitt, D. (1992). Intensive aromacare. International Journal of Aromatherapy,4(2), 12-14.

Þessi grein birtist í Tímariti íslenskra hjúkrunarfræðinga 1. tbl. 79. árg. 2003

Lestu fleiri áhugaverðar greinar á Doktor.is

Screen Shot 2014-11-26 at 18.53.23

Tengdar greinar:

ADHD og ómega-fitusýrur

Góð ráð við svefntruflunum

Geðveiki af völdum kannabisneyslu

 

SHARE