Dæturnar eru stórkostlegar týpur – Viðburðaríkt ár að baki

Svavar Knútur söngvari og söngvaskáld hefur baukað ýmislegt skemmtilegt á þessu ári og við fengum aðeins að spjalla við hann um það sem á undan er gengið og það sem framundan er.

Vá! Þetta var rosalega viðburðaríkt ár! Ég gaf út mína aðra sólóplötu og fékk að vinna með stórkostlegum alþjóðlega virtum listamanni við gerð hennar. Ég ferðaðist hálfan hnöttinn með músíkina og fjölskylduna og söng á ótrúlega flottum og skemmtilegum stöðum. Eftirminnilegast er þó að kynnast betur dætrum mínum báðum tveim og fatta betur og betur hvað þær eru stórkostlegar týpur.

Svavar Knútur segir að hann ætli að vera í rólegheitum um áramótin.

Við förum öll fjölskyldan norður á Djúpavík á Ströndum, því okkur leiðist bramboltið í borginni og ég þoli ekki flugeldalykt, hún minnir mig á Satan og Hellisheiðarvirkjun í öðru veldi. En á Djúpavík er alltaf dásamlegt að vera og þar tekur á móti okkur yndislegt fólk.

Það verður nóg að gera á nýja árinu hjá Svavari og hann er með söngleik í vinnslu:

Ég stefni að því að bæta mig á öllum helstu sviðum og læra að segja nei við fólk öðru hvoru. Svo stefni ég að því að klára Zombie-söngleikinn minn og jafnvel vinna í Jólalögunum mínum. Ennfremur ætla ég að spila ennþá meira erlendis á næsta ári og er nú þegar bókaður á NXNE og SXSW hátíðirnar í Kanada og Bandaríkjunum. Mikið stuð!

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here