Fleiri ráð fyrir þig sem elskar einhvern með ADD/ADHD

Við birtum greinina Að elska einhvern með ADD eða ADHD fyrir skömmu og viðbrögðin létu ekki á sér standa en fjölmargir virtust kannast við sig í skrifunum. Hér koma fleiri góð ráð þegar kemur að daglegri umgengni við ástvin með ADD eða ADHD, hvort sem um barn, maka, fjölskyldumeðlim eða vin er að ræða.

 

1. Ekki vera í afneitun – Viðurkenndu staðreyndir

Kallaðu þetta réttu nafni: athyglisbrestur og ofvirkni. Líf þitt mun einfaldast til muna þegar að þú skilgreinir þetta hugtak, eignar þér það og hættir að ýta því frá þér. Að viðurkenna greininguna er fyrsta skrefið í átt að nýju frelsi. Það er engin ástæða fyrir því að skammast sín. Margir af helstu hugsuðum heims hafa verið með ADHD. Vísindamenn, rithöfundar, listamenn, tónlistarfólk og athafnamenn hafa allir náð árangri vegna þess að þeir hafa þessa skapandi hugsjón sem aðra skortir oft á tíðum.

 

2. Ekki fordæma – Vertu réttlát/ur

Áttaðu þig á því að ástvinur þinn sem er með ADHD er að reyna sitt allra besta, þótt það nái stundum ekki að uppfylla þína staðla. Slakaðu á, slepptu tökunum og gefðu þeim tíma. Þeir munu uppfylla það sem þeir taka sér fyrir hendur en ekki innan þess tímaramma sem þú hefur í huga. Gefðu þeim tíma og næði til þess að ljúka verkefnum sínum. Veittu hvatningu með ást og hugulsemi en ekki dómhörku.

 

3. Ekki sætta þig við lélegar afsakanir – Hvattu frekar til og veittu innblástur hvernig má ná markmiðinu.

ADHD er engin afsökun fyrir því að lifa óábyrgu lífi. Það þýðir einfaldlega að það sem virðist leikur einn fyrir þér getur reynst einstaklingi með ADHD óyfirstíganlegt. Hlutir sem þér finnst einfaldir eins og að opna tölvupóstinn, losa þig við ruslpóst og að fara yfir reikningana getur verið eins og að klífa Mount Everest fyrir þeim. Þú ert kannski í vafa um hvort þú eigir að trúa þessu en svona er þetta. Reyndu að vera hvetjandi, þrátt fyrir efasemdirnar.

 

4. Ekki vera þjálfari – Vertu klappstýra

Stattu á hliðarlínunni; náðu í dúskana og vertu hvetjandi og skemmtileg. Hughreystandi orð hafa miklu meiri og betri áhrif heldur en skammir og niðurrif. Þjálfarar geta verið óþægilega dómharðir og eiga það til að benda á gallana. Klappstýrur aftur á móti standa á hliðarlínunni og lýsa yfir algjörum stuðningi við keppnisliðið sitt. Þær virka hvetjandi og treysta á að allt fari vel. Leyfðu ástvini þínum sem er með ADHD að vita að þú ert í sama liði og hann.

 

5. Ekki gera óraunhæfar kröfur – Vertu raunsæ 

Þegar einstaklingur með ADHD verður stressaður, fær þráhyggju og festist í spurningunni „hvað ef?“ Þá hjálpar ekki að öskra á hann „Gerðu þetta bara! Vertu ekki með þetta vesen!“ Sættu þig við að hann á líklega ekki eftir að geta uppfyllt væntingar þínar og óskir þegar það hentar þér. Ef um áríðandi mál er að ræða er best að vera nákvæmur og skýr. Setja sér markmið og raunhæfar væntingar.

 

6. Forðastu predikanir – Sýndu virðingu

Kennslustund með ástvini eru ekki líklegar til árangurs ef einstaklingnum líður eins og að það sé verið að tala við sig eins og leikskólabarn sem braut óvart rúðu. Ef þú hefur eitthvað að segja vandaðu þá orðin og tímasetninguna vel. Ákveðið tíma þar sem þið getið rætt málin. Vertu búin að æfa þig í huganum hvað þig langar að segja í kærleika en ekki á stjórnsaman hátt.

 

7. Ekki vera hvatvís – Þolinmæðin þrautir vinnur

Einstaklingur með ADHD er hvatvís. Ef þú ert sú eða sá sem ert gæddur rökhugsun og skynsemi í sambandinu er hinn aðilinn að treysta á þig til þess að vera þolinmóð og vís. Tveir hvatvísir einstaklingar sem bregðast við hvorum öðrum trekk í trekk er ekki ávísun á fallegan endir.

 

8. Ekki vera fórnarlamb – Kallaðu eftir aðstoð og stuðning

Vertu með gott stuðningsnet í kringum þig til þess að hjálpa þér yfir hjallana. Þú þarft ekki að takast á við allt alveg ein. Hringdu í góðan vin, trúnaðarkonu, sálfræðing, skilningsríka frænku, bara einhvern sem er tilbúinn til þess að hlusta og vera til staðar. Ef þú vilt ekki þurfa að hlusta á ráðleggingar annarra getur verið gott bara að halla sér upp að öxl einhvers og grenja aðeins. Finna svo styrkinn aftur.

 

9. Mundu eftir markmiðum þínum – Gerðu ráð fyrir jákvæðri útkomu 

Oft sjáum við eftir því sem við segjum. Orð sem ekki er hægt að taka aftur tilbaka. Orð sem særa og sem geta skilið eftir sig djúp sár og jafnvel ör. Hafðu markmiðin alltaf ljós. Hvað langar þig til þess að öðlast? Spurðu sjálfa þig hvort það sem þig langar til að segja muni hafa jákvæðar eða neikvæðar afleiðingar. Það er undir þér komið. Þú stjórnar útkomunni. Farðu þér hægt og hugsaðu áður en þú talar.

 

10. Ekki vera með sektarkennd – Minntu þig á að þú ert að gera þitt besta

Það er sorglegt að upplifa það að ástvinurinn verðskuldi ekki ást þína eða að þér mislíki hegðun hans einfaldlega OF mikið. Ef þú ert foreldri og ert miður þín vegna hegðunar barns þíns gætirðu auk þess verið þjökuð af samviskubiti. Minntu þig á að þetta er ekki þér að kenna. Þú ert að gera þitt besta! Þú ert í erfiðum aðstæðum það er ekki auðvelt að vita öllum stundum hvernig á að bregðast við. Sýndu sjálfri þér skilning og þolinmæði.

 

11. Ekki reyna að stjórna þeim – Hafðu stjórn á þér

Að móðga, niðurlægja eða hóta einhverju er ekki farsæl aðferð til að koma af stað einhverjum breytingum. Að reyna að hafa stjórn á fólki er dæmt til að misheppnast. Þegar þér líður eins og að þú vitir ekki hvernig þú getir haft áhrif á ástvininn skaltu reyna að hugsa um eigin framkomu og viðmót. Þú getur ekki stjórnað öðru fólki, þú getur aðeins stjórnað því hvað þú segir, hugsar og gerir gagnvart þeim.

 

12. Ekki flækjast inn í aðstæðurnar – Taktu skref aftur á bak

Spennuþrungnar tilfinningar eru oftast neikvæðar tilfinningar. Að verða meðvirkur og reyna að ráðskast með einhvern er ekki vænlegt til árangurs. Þegar streitan er orðin mikil og þú ert við það að fara að missa þig og jafnvel öskra á viðkomandi er best að stíga til hliðar. Þannig getur þú endurheimt þig, andað, slakað á og hlustað á skynsemisröddina.

 

13. Ekki dæma – Sýndu samúð

Að dæma einhvern er mjög auðvelt. Að sýna nærgætni og samúð getur verið virkilega erfið áskorun. Gættu þín á því að dæma þá úr leik og flokka sem ómögulega, lata og misheppnaða. Stimpillinn getur loðið við þá í mörg ár því fólk verður oft það sem aðrir segja að þeir eru.

 

14. Forðastu að nota orðið „aldrei“ eða „alltaf“ – ekkert er óbreytanlegt

Á einhverjum erfiðum tímapunkti getur verið erfitt að minna sig á að ekkert varir að eilífu. Hlutirnir munu fara á betri veg og þú verður að trúa því. Orðið „aldrei“ gefur til kynna vonleysi. Orðin „innan tíðar“ hinsvegar gefa til kynna breytingu. Það eina sem er stöðugt í þessum heimi er breytingin.

 

15. Segðu ekki „Æj gerðu þetta bara“ – Áttaðu þig á því að þeir geta það hreinlega ekki

Flestir eiga bágt með að skilja hvers vegna manneskja með ADD/ADHD getur ekki framkvæmt einföldustu hluti eins og að borga reikninga, halda röð og reglu á skjölum og að setja fötin á sinn stað. Þótt þetta kann að reynast þér auðvelt í framkvæmd reyndu að hafa í huga að einstaklingur með ADD/ADHD á einna erfiðast sjálfur með að skilja hvers vegna hann getur ekki borgað reikningana eða farið yfir tölvupóstinn sinn.

 

16. Vertu ekki hrædd við að rétta út hjálparhönd

Það er vissulega mikilvægt að kenna ástvini þínum hversu mikilvægt það er að vera áreiðanlegur og ábyrgur. En mundu líka að það er allt í lagi að bjóðast stundum til þess að hjálpa til. Jafnvel Einstein var með aðstoðarmann.

 

17. Vertu ekki með óraunhæfar væntingar – gerðu frekar lista yfir kostina sem þú elskar við ástvininn

Viðurkenndu ástvin þinn nákvæmlega eins og hann er. Rétt eins og með flest sambönd þá er æskilegra að halda athyglinni á því sem er jákvætt. Ekki gleyma þeim frábæru eiginleikum sem ástvinur þinn með ADD/ADHD er gæddur. Minntu þig á að kannski voru það einmitt þessir eiginleikar sem þú varðst ástfangin af í upphafi. Kímnigáfa, gleði, orka og hvatvísi. Byrjaðu á byrjuninni og elskaðu hann líkt og þú værir að kynnast honum upp á nýtt. Ef um barnið þitt er að ræða er gott að minna sig á tilfinninguna þegar þú hélst á nýfædda barni þínu í fanginu í fyrsta sinn.

 

18. Ekki vanrækja aðra í fjölskyldunni – Eyddu tíma með þeim líka í einrúmi

ADD/ADHD getur yfirgnæft allt heimilislífið og haft áhrif á allt og alla innan veggja heimilisins. Mundu að umgangast aðra í fjölskyldunni reglulega. Þeir þurfa á þér að halda líka. Farðu í bíó eða í ísbíltúr með þeim. Segðu þeim að þeir eiga alveg sérstakan stað í hjarta þínu og taktu utan um þá.

 

19. Forðastu reiði – Taktu þér hlé og búðu til frið

Reyndu að framkalla friðsamlegt ástand á heimilinu og settu það í forgang. Heimili sem er nærandi og býr yfir friðsamlegri og kærleiksríkri stemningu gerir heilmikið fyrir heildarástandið. Að reiðast er mjög auðvelt. Að halda kyrru fyrir krefst styrkleika. Settu sambandið í forgang í stað þess að akta á erfiðar tilfinningar. Það þarf ekki að orða allt sem flýgur í gegnum hugann hverju sinni. Sá vægir sem vitið hefur meira. Rétt er þó að taka það fram að ofbeldissambönd, hvort sem um andlegt eða líkamlegt ofbeldi er að ræða, eiga aldrei rétt á sér. Sum sambönd eru afar óheilbrigð og eitruð. Það ber að enda þannig sambönd og leita sér faglegrar aðstoðar til að vinna úr því.

 

20. Elskaðu sjálfa þig – Gerðu eitthvað sem gerir þig hamingjusama

ADHD sambönd eiga það til að tæma bæði orku og lífsgleði. Allt í einu áttarðu þig á því að þú hefur ekki hlegið í mánuð. Þú ert kannski búin að gleyma hvernig það er að brosa og þú manst ekki lengur hvenær þú skemmtir þér virkilega vel síðast. Búðu til tíma fyrir sjálfa þig. Gerðu eitthvað sem gerir þig hamingjusama. Skemmtu þér eins oft og mikið og þú mögulega getur.

 

Lítil saga að lokum:

Eftir að kona nokkur hafði fengið ADHD greiningu fyrir 7 ára son sinn fór hún til sálfræðings. Hún var miður sín, rifin og tætt og ráðþrota yfir því hvernig hún ætti að tækla son sinn. „Hvað meira get ég gert? Ég er að þegar að gera allt sem ég mögulega get fyrir son minn. Ég skil ekki hvernig ég á að tækla hann.“ Sálfræðingurinn horfði á hana og sagði hljóðlega: „Elskaðu hann meira.“

Þetta var ekki svarið sem hún hafði vonast eftir. Hún grét og bað hann að útskýra málið betur; „Elska hann meira? Ég er að gefa þessu barni allt sem ég mögulega get. Ég er tóm að innan. Ég á ekkert eftir. Hvernig get ég mögulega elskað hann eitthvað meira?“

„Reyndu betur. Farðu dýpra. Þú getur þetta,“ svaraði sálfræðingurinn.

Þegar þú elskar einhvern sem er með ADHD þá eru þeir partur af þér. Þeir lifa í höfðinu þínu og í hjartanu þínu. Þú varst sérstaklega valin fyrir þetta verkefni. Elskaðu hann meira.

Heimild: Lifehack.org

Tengdar greinar:

Að elska einhvern með ADD eða ADHD

ADHD og Ómega fitusýrur

SHARE