Það kom úrskurður frá kviðdómi 1. júní, í máli Johnny Depp vs. Amber Heard, þar sem Johnny Depp hafði betur og voru honum dæmdar um 15 milljónir dollara í bætur. Kviðdómur fann Johnny samt sekan um ærumeiðingar vegna yfirlýsinga sem komu frá fyrrum lögfræðingi hans, Adam Waldman, varðandi ásakanir Amber í garð Johnny. Amber á því að fá 2 milljónir dollara í skaðabætur fyrir það.
Það hefur varla farið framhjá nokkrum manni að háværari raddir hafa verið á móti Amber Heard og virðast flestir halda að hún hafi logið og beitt Johnny Depp ofbeldi. Við getum ekki vitað það. Það eina sem er augljóst og hafið yfir allan vafa, að mínu mati, er að þau áttu í eitruðu alkóhólísku sambandi.
„Kviðdómurinn gaf mér lífið mitt aftur,“ sagði Johnny Depp í yfirlýsingu sem hann gaf frá sér eftir dómsuppkvaðninguna. Í stuttu máli, fór Johnny í mál við Amber vegna ærumeiðandi greinar sem hún skrifaði og var birt í The Washington Post. Greinin fjallaði um hvernig það væri að vera þolandi heimilisofbeldis.
Málið í Englandi
Í nóvember árið 2020 tapaði Johnny Depp máli á móti The Sun vegna blaðagreinar sem fjölmiðillinn birti, sem fjallaði um að hann hafi beitt þáverandi eiginkonu sína, Amber, ofbeldi. Réttarhöldin fóru fram í Englandi og er almennt talið að oftar sé dæmt í hag stefnanda þar í landi, en í Bandaríkjunum. The Sun varð því að sanna það að ásakanirnar á hendur Johnny væru réttar og tóku réttarhöldin 16 daga í Royal Courts of Justice í London.
Amber var auðvitað látin bera vitni og nefndi hún 14 atvik þar sem hún sagði að Johnny hefði beitt hana ofbeldi á árunum 2013-2016.
Eitt atvikanna var hið títt nefnda atvik í Ástralíu árið 2015, þegar Johnny var þar við tökur á Pirates of the Caribbean. Amber hélt því fram að hann hefði ráðist margoft á hana, skorið fingurgóminn á sér af og kennt henni svo um meiðslin. Dómarinn á Englandi trúði ekki að Amber hefði verið ábyrg fyrir því að Johnny missti fingurgóminn með því að henda vodkaflösku í Depp. Hann komst að þeirri niðurstöðu að Amber hefði verið fórnarlamb „viðvarandi og margfaldra líkamsárása“.
Einnig var tekið til umfjöllunar atvik sem átti sér stað í desember 2014, en um það atvik sagðist dómarinn „ekki vera sannfærður um að flokkaðist sem líkamsárás“. Annað atvik sem átti sér stað í nóvember 2015 sagði dómarinn að væri ekki heldur hægt að sanna því Johnny hefði ekki verið fenginn til að bera vitni um atvikið.
Af þeim 14 meintu ásökunum sem teknar voru fyrir í réttinum, dæmdi dómarinn að 12 hefðu raunverulega átt sér stað. Dómarinn Justice Nicol sagði, þann 2. nóvember 2020 að The Sun hefði sannað að greinin sem hefði verið birt hefði að mestu leyti rétt.
„Ég tek sannanir hennar, um að Johnny hafi beitt hana ofbeldi, gildar. Þetta hlýtur að hafa verið alveg hræðileg upplifun,“ sagði dómarinn.
Justice dómari sagði einnig að aftur og aftur hefði „Johnny sagt Amber vera að búa til eitthvað gabb og hún hefði gert það til að „tryggja sig“ og hún væri algjör „gullgrafari“.“ Hún sagðist ekki taka undir þessa lýsingu á Amber.
Munurinn á málinu í Englandi og málinu í Bandaríkjunum
Í Englandi var mál Johnny á móti The Sun en ekki á móti Amber Heard. Úrskurðurinn í London kom ekki í veg fyrir að hann gæti farið í mál við Amber í Bandaríkjunum, vegna greinarinnar hennar sem birt var í Washington Post. Þannig að þremur mánuðum síðar, í mars 2019, höfðaði Johnny mál á móti Amber og vildi fá 50 milljónir í skaðabætur. Það var svo í janúar 2021 höfðaði Amber mál á móti Johnny þar sem hún fór fram á 100 milljónir í skaðabætur, og er talið að málið fari fyrir dóm seinna á þessu ári. Bæði málin voru höfðuð í Virginia.
Í málinu sem fram fór í Englandi, var einn dómari sem dæmdi í málinu og í málinu í Bandaríkjunum var kviðdómur. Meiðyrðamál falla oftar stefnanda í vil í Englandi og samkvæmt Washington Post, hefur það meira að segja orðið til þess að fólk, víðsvegar að í heiminum, hefur ferðast til Englands til að höfða mál þar, til að auka líkurnar á að þeir vinni málið.
Í Bandaríkjunum eru almennt gerðar meiri kröfur um sannanir í meiðyrðamálum þekkts fólks. Samkvæmt bandarískum lögum þarf stefnandi í meiðyrðamáli að sanna að hann hafi orðið fyrir raunverulegum skaða af ásetningi þess sem stefnt er. Í þessu tilfelli þurfti því óyggjandi sannanir fyrir því að Amber Heard, hafi viljandi og af ásetningi logið til þess að skaða mannorð Johnny Depp.
Mark Stephens, alþjóðlegur fjölmiðlamaður sagði í samtali við The Post, að lögfræðingar Johnny Depp störfuðu eftir svokölluðu DARVO kerfi. DARVO stendur fyrir Deny, attack, reverse victim and offender, sem samkvæmt okkar bestu þýðingu væri „neitun, árás og víxlun á fórnarlambi og geranda“. Sem þýðir það að þau unnu að því að gera Johnny að þolanda og Amber að geranda.
„Við höfum komist að því að DARVO virkar mjög vel á kviðdómendur en virkar nánast aldrei á dómara, sem eru þjálfaðir í að skoða sönnunargögn,“ sagði Mark í þessu samtali við The Post.
Eins og ég sagði hérna í byrjun getum við ekki vitað hvað fór Johnny og Amber á milli þegar enginn var með myndavél eða hljóðupptöku. Tólf manns, í kviðdómi, voru sammála um þessi málalok og þá er það niðurstaðan að þessu sinni. Ef Amber fer áfram með sitt mál getur verið að það verði tekið fyrir á þessu ári og munum við eflaust fá fréttir af því í beinni útsendingu, eins og úr þessu máli.
Heimildir: Firstpost.com, Washington Post og The Sun
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.