Heilsa.is sérhæfir sig í að bjóða vörur sem stuðla að heilsu og velllíðan en eru líka með heimasíðu sem er með allskonar heilsutengdum greinum.
Ertu með meðvitund þegar þú borðar? Já sennilega, tæknilega séð, nema þú gerir það í svefni.
En grínlaust, ef þú hugsar út í það, hversu oft ertu með fulla athygli við átið? Við hversu margar máltíðir upplifir þú að virkilega einbeita þér að matnum, hvernig hann lítur út, litunum, lyktinni, bragðinu, áferðinni. Að tyggja vel og vandlega þar til allt er maukað og rennur loks ljúflega niður í maga. Munnfylli fyrir munnfylli þar til þú finnur að þú ert passlega mett/ur?
Þetta er það sem kallað er meðvitað át eða að borða í núvitund (e: mindful eating) og má færa rök fyrir að sé ein af grunnstoðum góðrar heilsu. Það skiptir nefnilega ekki bara máli hvað þú borðar, heldur líka hvernig þú borðar.
Áhrif hugans á át og meltingu (kallað “cephalic phase” á ensku) hafa heilmikið verið könnuð og benda rannsóknir meðal annars til þess að athygli á bragð, lykt, áferð og útlit matar geti leitt til aukinnar framleiðslu meltingarensíma, munnvatns og ýmissa hormóna sem eru nauðsynleg fyrir eðlilegt niðurbrot og upptöku fæðunnar. Þetta stig meltingar virðist líka mikilvægt til að rétt skilaboð varðandi svengd og seddu komist til skila og getur þannig dregið úr ofáti (1). Enda hefur verið sýnt fram á að fólk er líklegra til að innibyrða meira og verða síður vart við mettun ef það til dæmis horfir á sjónvarpið eða verður fyrir annarri truflun á meðan það borðar (2;3).
Matartímar flestra eru sennilega sjaldnast í líkingu við lýsinguna hér að ofan. Algengara er að borða á hlaupum, við tölvuna eða sjónvarpið. Átið er sjaldnast sett í forgrunn. Það er gert í hjáverkum til að spara tíma. Hver kannast ekki við að gleypa í sig á mettíma, svolgra líter af vatni með til að koma niður ótuggnum bitunum og muna svo ekkert hvernig maturinn bragðaðist eða hve mikið var borðað. Ranka svo við sér við þá tilfinningu að hafa borðað grjót en ekki mat . Oft fylgir þessu uppþemba, þung seddutilfinning og almenn óþægindi.
Ég veit að þegar fólk er með þúsund bolta á lofti bæði í vinnunni og heima virðist þetta ekki gerlegt. Sérstaklega með lítil börn á heimilinu sem hafa takmarkaðan áhuga á því að sitja við matarborðið og njóta matarins. Ekki auðvelt, ég þekki það vel enda hefur þetta núvitundarát orðið töluvert erfiðara eftir að erfinginn fæddist. Við reynum bara okkar besta.
Hér eru nokkur góð ráð til að koma sér af stað:
- Gott er að byrja á að borða eina máltíð dagsins í núvitund. Veldu t.d. þann tíma sem er líklegast að þú getir sest niður og notið máltíðarinnar.
- Dragðu andann djúpt ofan í maga fimm sinnum áður en þú byrjar að borða.
- Reyndu að borða aldrei á hlaupum, best er að sitja og hafa sem mest rólegheit (ekki fyrir framan tölvu eða sjónvarp).
- Tyggðu vel og vandlega, það er ómissandi fyrir góða meltingu. Mundu að maginn er ekki með tennur. Þetta hjálpar þér líka að borða hægar og þú tekur frekar eftir því þegar þú ert mett.
- Ekki drekka mikið með matnum. Allt í lagi að dreypa á sopa og sopa en þú átt ekki að þurfa að drekka til að koma matnum niður – þá ertu ekki að tyggja nógu vel.
- Stefndu að því að setjast ekki við sjónvarpið, tölvuna, símann eða dagblaðið þegar þú borðar. Það dregur athyglina frá átinu, meltingin líður fyrir og þú ert líklegri til að borða meira en ella.
Að lokum: Næst þegar þig langar í eitthvað sætt, prófaðu að taka einn bita af dökku súkkulaði og leyfðu honum að bráðna í munninum. Ekki tyggja, taktu eftir bragðinu og áferðinni, njóttu bitans frekar en klára allt stykkið í einum rykk og sitja svo eftir með samviskubit og sykursjokk. Athugaðu hvort þetta dugar ekki til að fullnægja súkkulaðiþörfinni.
- Smeets PA, Erkner A, de Graaf C (2010) Cephalic phase responses and appetite. Nutrition Reviews, 68:643-655.
- Brunstrom JM, Mitchell GL (2006) Effects of distraction on the development of satiety. British Journal of Nutrition,96:761-769.
- Hetherington MM, Anderson AS, Norton G, Newson L (2006) Situational effect on meal intake: A comparison of eating alone and eating with others. Physiology & Behavior, 88:498-505.
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.