Lífið hefur breyst heilmikið á síðastliðnum vikum og mörg okkar höfum þurft að breyta okkar dagsdaglegu venjum allverulega. Við höfum eytt meiri tíma heima við, vinnum jafnvel alltaf heima, förum ekki í ræktina, ekki út að skemmta okkur og svo framvegis.
Þú gætir hafa velt því fyrir þér af hverju þú finnur fyrir gríðarlegri þreytu, þrátt fyrir að þú sért ekki eins virk/ur og vanalega. Samkvæmt sérfræðingum í sálfræði er þetta algjörlega eðlilegt. Þetta þýðir að líkami þinn er að bregðast við stressi og áföllum.
Sjá einnig: Húsráð: Minnkaðu óreiðuna í sóttkví
„Það eru nokkrar ástæður fyrir því að við erum alltaf svona þreytt,“ sagði Jen Hartstein, sálfræðingur og álitsgjafi Yahoo Life. „Í fyrsta lagi erum við að upplifa óvenju mikið af tilfinningum. Sum okkar finna fyrir kvíða, sem virkjar taugakerfið okkar á þann hátt að við förum að framleiða adrenalín. Við förum í ákveðinn „sjálfsbjargarham“. Þessi streita leiðir til þess að orkan okkar á það til að hrynja og líkaminn þarf hvíld og þá „slekkur hann á sér“ ef svo má að orði komast.“
„Í öðru lagi erum við ekki að takast á við heiminn á sama hátt og áður. Vanalega gerum við hluti, dagsdaglega, sem örva okkur og gera okkur spennt fyrir lífinu. Að missa þessa hluti út getur gert okkur mjög þreytt,“ segir Jen einnig. „Í þriðja lagi erum við ekki jafnmikið utandyra og áður svo við fáum ekki sama D-vítamín og áður og það veldur þreytu.
Sjá einnig: Fátækari en áður
Það eru til leiðir til að draga úr þessum þreytueinkennum, eins og við vitum. Það er auðvitað mjög mikilvægt að hafa rútínu á hlutunum, vakna, borða, vinna, taka smá líkamsæfingar, vinna, borða og svo framvegis. Fáðu þér frískt loft og leyfðu sólinni að skína aðeins framan í þig. Þetta ástand er tímabundið og áður en þú veist af verður allt eins og áður og þú mætt/ur í vinnu eins og vanalega.
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.