Jóhann Óli Eiðsson skrifaði á dögunum áhugaverðan pistil um upplifun sína á þunglyndi. Pistillinn ber heitið „Að hata barnið sitt“ og stakk titillinn örlítið í augun þegar ég sá honum deilt á Facebook. Ég smellti á hann og las hann og sá ekki eftir því.
Pistillinn hefst á þessum orðum:
Fyrir tæpu ári síðan byrjaði ég að pára þennan pistil í tölvuna. Oft á þeim tíma ákvað ég að hann væri tilbúinn og blessunarlega skipti ég jafn oft um skoðun. Útgáfurnar af honum eru jafn misjafnar og þær eru margar.
Lífið hætti að vera skemmtilegt
Jóhann segir frá því að hann hafi hafið skriftir þegar hann var nýkominn út af geðdeild en hann hafði verið þjakaður af depurð í um 7 ár.
Síðari hluta unglingsáranna tapaði lífið einhverjum sjarma. Ég veit ekki hvað varð til þess en smám saman minnkaði ánægjan af öllu sem ég tók mér fyrir hendur.
Líttu á tilfinningar sem skala frá núll til tíu. Núll er versta mögulega líðan sem til er, tíu sú besta og fimm er normið. Síðastu sjö ár var ég stabíll í þristi. Ekkert vakti hjá mér gleði, fátt náði að gera mig fýldan, ekkert skipti mig máli. Viðbrögð við öllu voru lærð. Í þessum aðstæðum bar mér að brosa, í öðrum hélt ég faðmlaginu nógu lengi, í enn öðrum þóttist ég samhryggjast eða reyndi jafnvel að gera mér upp reiði. Staðreyndin er sú að ég fann ekki fyrir neinu af þessu.
Jóhann segir frá því að honum hafi fundist hann vera að leika allt sem hann gerði því hann var bara að taka þátt, en í raun hafi hann ekki viljað gera neitt. Hann þóttist elska, sendi sæt sms og eignaðist kærustu en aldrei fundið fyrir neinu nema leiða.
Þegar ég horfi um öxl þá finnst mér ótrúlegt að enginn hafi séð í gegnum þetta gervi mitt. Flesta morgna staulaðist ég á fætur og skakklappaðist í gegnum daginn. Á nærri hverju einasta kvöldi lagði ég höfuðið á koddann og hugsaði alls konar. Eru allir svona? Hvað á ég að gera? Hvað ef ég myndi fyrirfara mér? Myndi það einhverju breyta? Djöfull nenni ég þessu ekki áfram. Af hverju ætti ég að halda áfram að lifa? Niðurstaðan var sú að allt er tilgangslaust drasl sem engu máli skiptir og úr því það skipti engu gat ég allt eins látið mig hafa það aðeins lengur.
Fékk þær fregnir að hann væri að verða faðir
Lífið var ómerkilegt og honum fannst það ómerkilegasta af öllu vera hann sjálfur. Svo kom að því að Jóhann fékk að vita að hann væri að verða faðir.
Áhugalaus og gagnslaus beit ég það í mig að gera mitt besta. Skítt með mína líðan. Ég var hvort sem er ófær um að finna nokkurn skapaðan hlut.
Jóhann vonaði að með tilkomu barnsins myndi honum fara að líða vel og hann færi að finna fyrir hlutum á ný. Það var því miður ekki raunin.
Tilfinningin þegar ég sá son minn í fyrsta skipti var ömurleg. Ég fann fyrir viðbjóði. Allar lygarnar og allt sem ég hataði í fari mínu hafði skyndilega holdgerst. Slímugar bak við eyrun, inn í hitakassa á vökudeild Landspítalans og grenjuðu.
Mig langaði að þykja vænt um hann, mig virkilega langaði það, en ég var ófær um það. Ég reyndi sem frekast ég gat en ég kunni það ekki. Hvernig þykir manni vænt um einhvern? Hvernig er maður glaður? Ég kunni að feika þessa hluti en ég kunni ekki að finna fyrir þeim og það var að éta mig lifandi. Ég óska ekki nokkrum manni að líða á þennan veg. Engum.
Allt fer að fara á verri veg
Upp frá þessu fór Jóhanni að líða sífellt verr. Hann borðaði ekki og svefninn varð óreglulegur. Líðanin var orðin virkilega slæm og endaði með því að Jóhann og barnsmóðir hans skildu.
Skömmu síðar gerðist upp úr þurru eitthvað sem ég skil ekki enn. Stífla brast og um mig flæddu allar þær tilfinningar sem höfðu verið heftar þriðjung ævi minnar. Þær hreinlega kaffærðu mig. Skyndilega fann ég á eigin skinni hvað fólk átti við með orðum á borð við angist, reiði, afbrýðissemi, gleði og svo mætti lengi telja.
Andvökunætur urðu fleiri og Jóhann sleppti úr máltíðum og hann var farin að gæla við þá tilhugsun að taka sitt eigið líf.
Ég skrifaði bréf sem átti að vera það síðasta sem ég myndi rita á ævi minni. Á löngum andvökunóttum hafði ég oft velt fyrir mér hvernig slíkt bréf liti út. Hvernig liði mér? Alltaf hafði ég séð mig fyrir mér með penna í hönd, grátbólgin augu, tárvott blað fyrir framan mig og skíthræddan um það sem væntanlegt væri. Raunin var að ég lá líkt og beinlaust fiskflak uppi í rúmi, með tölvuna á maganum og leið betur en mér hafði liðið í fjölda ára.
Sjálfsvígstilraunir og innlögn á geðdeild
Tilraunir Jóhanns til sjálfvígs urðu þrjár og segir hann í pistlinum að ef maður ætli að fyrirfara sér, þá takist manni það. Hann hafi verið að gera tilraunir og hafi í besta falli verið „til í það“.
Að endingu fór ég inn á geðdeild Landspítalans en auðvitað þurfti ég að byrja á því að láta þá sem næst mér standa leita að mér um borgina. Ég var útskrifaður eftir viku og kom að mörgu leiti verri út. Að vísu langaði mig ekki lengur að skaða mig en þess í stað einsetti ég mér að draga sem flesta niður á mitt plan.
Þarna hófst tímabil sem Jóhann vildi svo gjarnan taka til baka.
Mér tókst að gera allt það sem skilgreinir skíthæl að því undanskildu að hóta eða beita ofbeldi. Frábært Jóhann, takk fyrir Jóhann. Já, ég var í alvörunni að hampa sjálfum mér fyrir það að hafa ekki gert tilraun til að ganga í skrokk á einhverjum. Þvílíkur árangur.
„Ég vil aldrei nokkurntíman sjá þetta barn framar.“
Jóhann segist sjá eftir svo mörgu frá þessum tíma. Hann sér eftir að hafa látið sig hverfa svo dögum skipti og nánast hverju einasta orði sem hann lét útúr sér.
Mest sé ég eftir því að hafa afneitað syni mínum. Í stað þess að segja „Sorrí, ég er ekki í standi til að umgangast hann núna, gemmér séns á að jafna mig,“ þá hlóð ég í eitt nautheimskt „Ég vil aldrei nokkurntíman sjá þetta barn framar.“ Í meira en hálft ár hélt ég því til streitu.
Jóhann segir frá bataferli sínu. Hvað hefur breyst og hvernig honum líður í dag. Hann þurfti að bíða í marga mánuði eftir að fá tíma hjá geðlækni og er hann í dag farinn að fá að vera með barninu sínu reglulega og hann er farinn að njóta þess.
Sjáðu allan pistilinn í heild sinni hér!
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.