Að lifa með kvíða

Ég er kvíðasjúklingur, greind með ofsakvíðaröskun og er í samtals- og lyfjameðferð hjá geðlækni. Ég var ung þegar ég fór fyrst að finna fyrir kvíða, kannski 7.. 8.. 9 ára og hef, svo lengi sem ég man, verið áhyggjufulla týpan..og hélt að allir væru þannig.. alltaf með áhyggjur af öllu. Hlutum sem voru búnir að gerast, hlutum sem voru að gerast og hlutum sem áttu kannski eftir að gerast.  Ég var erfitt barn að því leyti að mér leið ekki vel og það hefur verið erfitt fyrir foreldra mína að geta lítið gert í því fyrir mig. Ég var kvíðasjúklingur og það var kannski ekki mikið sem var hægt að gera í því enda var ég orðin 34 ára þegar ég var loksins greind með ofsakvíða.

Foreldrar mínir skildu þegar ég var 9 ára og þá fór allt á fullt, ég átti mjög erfitt tímabil frá svona 9 til 14-15 ára og var um tíma hjá barnasálfræðingi.  Mamma mín vildi allt fyrir mig gera og ég man eftir samtali sem við áttum liggjandi uppí rúmi hjá mér um hvað hún og við gætum gert til þess að mér myndi líða betur. Ég átti engin svör en hún reyndi allt sem hún gat. Hún bara vissi ekki þá að ég var og er kvíðasjúklingur. Það er eitthvað sem maður þarf að læra að lifa með, ég kann allavega ekki ennþá sigrast á þessum sjúkdómi.

Ég var orðin rúmlega tvítug þegar ég brotnaði algjörlega niður og leitaði mér hjálpar niðrá bráðamóttöku geðsviðs hjá LSH og þar tók á móti mér yndislegur læknir sem vísaði mér áfram í HAM (Hugræn Atferlismeðferð) hóp sem bjargaði lífi mínu á þeim tíma. Ég lærði leiðir til að tækla kvíðann og þunglyndið sem ég var greind með þá, ég var í þessari meðferð í nokkrar vikur og upplifði í fyrsta sinn líf án kvíða.

Árin liðu og lífið kom fyrir, ég byrjaði í sambandi með manni, skipti um vinnu og allskonar gerðist. Það var ekki fyrr en ég var um 29 ára sem kvíðinn byrjaði að koma aftur. Þá gekk ýmislegt á í mínu lífi sem gerði það að verkum að mér leið ekki vel og Búmm – kvíðinn mætti. Ég leitaði mér svo aðstoðar þegar ég var 34,  alveg að niðurlotum komin, og er ennþá í þeirri meðferð og aftur, sú meðferð bjargaði lífi mínu.

Mín skilaboð eru þau að allir geta “lent í því” að fá geðsjúkdóm. Það þarf hetju til að viðurkenna það og stíga skrefið í að sækja sér hjálp. Þú ert ekki ein(n). ég eða einhver annar hefur verið þarna líka <3

SHARE