Að sætta sig við það sem maður fær ekki breytt

Nú er nýtt ár hafið og allir ætla sér bæta sig og gera betur í ár en á seinasta ári. Ég hef reyndar aldrei strengt nein áramótaheit en mér finnst samt áramótin oft vera svolítið tilfinningaþrungin stund. Sum ár eru erfiðari en önnur og oft margar áskoranir sem verða á vegi okkar. Ég fer alltaf inn í nýtt ár með von um frábæran tíma, jákvæðar og notalegar samverustundir, góða heilsu og góð samskipti við sem allra flesta í kringum mig.

Ég sagði ykkur einu sinni frá því að ég missti vinkonu mína á nýársnótt. Það gerðist aðfaranótt 1. janúar 2015. Ég fékk jákvæð viðbrögð við pistlinum og sá ekki eftir að hafa skrifað hann. Mér fannst ég ná að koma tilfinningum mínum í orð og koma þeim frá mér, sem virkaði eins og ákveðin heilun. Mig langar því að fylgja þessum pistli eftir og segja ykkur aðeins frá því hvað hefur gerst síðan.

Það tók mig langan tíma að sætta mig við þessi málalok á tilvist þessarar fallegu vinkonu minnar. Ég veit ekki hvort maður verði nokkurn tímann „sáttur“. En með hverjum mánuðinum sem leið varð örlítið betra að anda. Í byrjun var eins og hjartað tæki aukakipp og maginn færi í smá hnút í hvert skipti sem vinkona mín kom upp í hugann. Þar af leiðandi fór ég að halda huganum mínum uppteknum. Ég fór á tilfinningalegan flótta frá þessu. Ég stunda jóga og hafði gert það með þessari vinkonu minni og í hvert skipti sem kom að slökun í lok tímans kom hún í hugann. Þannig ég fór að sleppa slökuninni. Það var ágætis lausn að mér fannst. Ég notaði þessa aðferð á fjölmargt í lífi mínu. Fríaði mig frá því að fá þessa slæmu tilfinningu. Ég hætti að sofna útfrá mínum eigin hugsunum og fór að sofna út frá því að horfa á heilalaust sjónvarpefni í símanum mínum. Það var auðveldara.

Einn daginn kom svo að því að ég varð að leyfa þessu öllu að koma. Ég hafði hlaupist á undan þessu og ég var með allt í einhverskonar biðstöðu.

Ég fór í fjölskylduferð með börnunum og unnusta mínum. Á sólríkan stað í Flórída. Þetta var rúmu ári eftir andlát vinkonu minnar. Ég var á ströndinni í hvítum sandi í sól og blíðu. Brosandi fólk og börn og lífið gat ekki verið einfaldara. Sjórinn svo fallegur og rólegur. Það var á þessari stundu sem ég hugsaði: „Lífið mitt er bara svakalega fallegt og gott. Hlutirnir verða góðir aftur og ég ætla að hjálpa því að gerast.“

Screen Shot 2017-01-05 at 3.53.50 PM

Auðvitað gerði ég mér alveg grein fyrir að lífið er ekki bara sólarströnd og áreynslulaust sumarfrí. En ég fann það bara á þessari stundu að ég yrði að lyfta þessari ósýnilegu sorgarslæðu af mér sjálf. Það var enginn að fara að gera það fyrir mig. Ekki misskilja mig, ég var ekki búin að liggja í eymd allan þennan tíma, en það var alltaf eitthvað smá dapurt í huganum mínum.

Frá og með þessari stundu vissi ég að þetta yrði bara allt í lagi. Ég hef upplifað ýmislegt og komist í gegnum það. Ég yrði að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt. Sætta mig við! Ekki gleyma eða vera alveg sama. Bara sætta mig við það sem ég get ekki breytt.

Ég vona að árið 2017 verði ykkur öllum heillaríkt, fallegt og gott. Notum þetta ár til að vera besta útgáfan af okkur sjálfum!

Fylgstu með!

Kidda á Instagram

Hún.is á Instagram

Hún.is á Snapchat: hun_snappar

SHARE