Að sigrast á fullkomnunaráráttunni

Að þjást af fullkomnunaráráttu er eflaust eitthvað sem margir tengja við. Öll höfum við einhverja fullkomnunaráráttu tilhneigingar, fyrir mörgum birtist hún ef til vill þegar okkur finnst við berskjölduð en fyrir öðrum þá getur fullkomnunaráráttan verið krónísk þráhyggja og lamandi ekki ósvipið og fíknihegðun. Það sem er áhugavert er að þar sem fullkomnunarárátta á heima, leynist alltaf lítill leigjandi sem kallast skömm. Í rauninni er skömmin fæðingarstaður fullkomnunaráráttunnar.

The thing that is really hard, and really amazing, is giving up on being perfect and beginning the work of becoming yourself.– Anna Quindlen

Fullkomnunarárátta er ekki það sama og að gera sitt allra besta. Það er heilbrigt að vera með raunhæf markmið til að bæta sjálfan sig og líf sitt en eins og við munum stuttlega fjalla um í þessari grein að það er fín en skýr lína þarna á milli.

Fullkomnunarárátta er sú trú að ef við lifum fullkomnu lífi, höfum óaðfinnanlegt og fullkomið útlit, högum okkur á fullkomlega viðeigandi máta þá munum við komast hjá óþægindunum sem fylgja tilfinningunum; skömm, dómhörku og sektarkennd. Fullkomnunarárátta er þykkur skjöldur sem við umvefjum okkur með í þeirri einlægu trú að hún muni hlífa okkur og vernda þegar í rauninni hún er sú sem hindrar okkur hvað mest í að vaxa og blómstra. Hún er nefnilega ekki sjálfsbætandi hegðunarmunstur heldur er rótin af þessari áráttu viðurkenningarþörf og samþykki frá öðrum.

Flest allir sem þjást af fullkomnunaráráttu voru aldir upp við að fá hrós og viðurkenningu í gegnum hversu vel þeir stóðu sig í skóla, íþróttum, hversu góðir þeir voru að fylgja reglum, að þóknast fólki, útlit og mannasiðir svo fátt eitt sé nefnt. Það sem gerist á leiðinni er að sjálfsmyndin fer hönd í hönd við hversu vel viðkomandi stendur sig, hversu mikið hrós hann fær. Það er heilbrigt að vilja standa sig vel fyrir sjálfan sig, innri röddin hjómar einhvern veginn svona: „hvernig get ég bætt mig?“ en þegar fullkomnunaráráttan á í hlut þá er fókusinn fyrir utan sjálfan sig: „hvað munu þau hugsa um mig?“.

Hvernig sigrast ég á fullkomnunaráráttunnni?

Til að komast yfir þess háttar áráttu/þráhyggju þá þurfum við að berskjalda okkur fyrir þessum erfiðu og óþæginlegu tilfinningum líkt og skömm, sektarkennd og mögulegri dómhörku annarra (áliti annarra). Það er eina leiðin til að þróa með sér þrautseigu gagnvart skömm og æfa sig í umburðarlyndi í garð síns sjálfs. Þegar við sýnum okkur sjálfum meiri kærleik og umburðarlyndi þá byggjum við upp ákveðið þol fyrir skömm og þannig getum við boðið ófullkomleika okkar velkominn. Við finnum okkar hugrekki, umburðarlyndi og tenginguna við okkur sjálf og aðra í ófullkomleikanum.

Flest okkar erum að reyna lifa lífinu eins samkvæm okkur sjálfum og við mögulega getum. Innst inni viljum við fella allar grímur sem við höfum sankað að okkur. Leonard Cohen orti svo fallega um ófullkomleikann: „There is a crack in everything. That’s how the light gets in.“ Er ekki komið nóg af því að eyða mikilli orku og tíma í að spasla upp í götin til að allt líti fullkomlega út?

Það er ekki brestur að vera manneskja. Við erum öll í þessu saman – ófullkomin og mannleg saman.

Fullkomnunaráráttan lofar í grið og elg ríkara lífi en eina sem hún kemur með á borðið er þjáning og eymd. Því meiri orku og fókus sem þú fæðir fullkomnunaráráttuna með, því meiri óánægja. Þetta er nefnilega hugtak sem hefur ekkert með raunveruleikann að gera. Það er bara þannig að við lifum í ófullkomnu heimi þar sem alltaf er hægt að laga og bæta allt! – hverja manneskju, hverja hugmynd, hvert einasta listaverk, hverja upplifun – allt!

Svo ef þú ert fullkomnunarsinni þá ertu dæmd/ur til að tapa! sama hvað þú gerir þá er alltaf hægt að bæta allt. Að finna þessar mannlegu tilfinningar sem öllum finnst óþæginlegar þegar ófullkomleiki okkar kemur út í dagsljósið er það sem gerir okkur mannleg. Fullkomnunaráráttan í rauninni eykur líkurnar á að við upplifum skömm, dómhörku og sektarkennd sem leiðir til sjálfsásakandi hegðunar: „þetta er mér að kenna, mér líður svona útaf því að ekkert sem ég geri er nógu gott, ég er ekki nógu góð/ur.“

Hér er eitt verkefni sem mig langar að skora á ykkur þarna úti sem tengið við þessa fullkomunaráráttu.

  • Skrifaðu niður kosti og galla þess að vera fullkomnunarsinni. (Þú gætir mögulega komist að því að hún hamlar þér meira en þú heldur).

Heimildir: The Gifts of Imperfection eftir Brené Brown

SHARE