Að vera ábyrgur neytandi

Ég er búin að vera að velta þessu fyrir mér í dágóðan tíma – alveg löngu áður en mér datt í hug að deila þessu með öðrum.

Hvern eða hverja er ég að styðja þegar ég er að versla t.d snyrtivörur sem eru mínar ær og kýr? Þegar ég versla mér snyrtivörur er það fyrir mig og í förðunarkittið mitt. Þar sem ég vil geta valið skynsamlega fyrir sjálfa mig og eins viðskiptavini mína þá er ég oftast búin að „googla“ og fara á Youtube áður en ég ákveð að viss vara verði fyrir valinu og reyni þannig að taka upplýsta ákvörðun hverju sinni.

Jú ég er komin yfir þrítugt með mann, barn og fullt af ábyrgð og get því ekki verið að gera hvatvís kaup. En það sem ég er að tala um er, er ég að taka upplýsta ákvörðun um frá hverjum ég er að versla hverju sinni. Þá á ég við hver stendur á bakvið fyrirtækið eða verslunina sem ég ákveð að versla við? Stundum, já, þá veit ég að ég er að styðja gott fyrirtæki, oftast er það einstaklingur með stækkandi fyrirtæki og þar er unnið af áhuga og með hjartanu – ekki af eintómri græðgi.
Hver er forgangsröðunin? Er eytt mikið í endalausar auglýsingar? Hver er þjónustan við viðskiptavini – er hún persónuleg og góð og er hægt að fá prufur eins og á t.d kremum?

Ég fór með systur minni í vinsæla verslun og hún ætlaði að fá sér meik. Ég spyr afgreiðslustúlkuna hvort að hún geti ekki fengið prufu af því? “Nei við gefum ekki prufur auk þess eigum við ekki svona lítil box.” –  “Ókei, en ef ég kem bara með svona box?” – “Nei við gefum ekki prufur.” Já þarna var 16 ára systir mín að fara að eyða 9 þúsund í meik hjá þeim og það var ekki hægt að fá eina litla prufu!

Í byrjun árs var ég með námskeið í húðumhirðu fyrir unglingadeildina í skólanum hér fyrir vestan. Ég hafði samband við þessi helstu fyrirtæki sem ég vissi að væru með góðar húðvörur, sendi þeim póst og greindi frá því hvað stæði til og spurði hvort að þau hefðu tök á því að senda mér smá prufur sem ég gæti látið þau hafa að loknu námskeiði.

Sjá einnig: Þjóðarsál: ,,Baráttan við að viðhalda eigin lífsgæðum hefur valdið kreppu í samkennd“

Það tóku flestallir alveg svakalega vel í þetta og við fengum fullt af prufum og jafnvel vörur í fullri stærð! Ansi rausnarlegt þar sem ég var ekkert að fara að auglýsa þetta á snapinu eða á bloggi. Eitt fyrirtækið hafði orð á því að þau vildu alltaf styðja unga fólkið þegar það kæmi að húðumhirðu sem er ótrúlega flott! Ég fékk líka eitt svar þar sem að viðkomandi sagðist ekki hafa tök á því að senda prufur- sem er skiljanlegt og ég þakkaði þeim því bara fyrir svarið og óskaði þeim góðs gengis.

Síðar í vikunni horfði ég á alla helstu snaparana hér á Íslandi fá mjög veglegar gjafir frá þessu sama fyrirtæki – og þetta voru engar smá prufur! Þarna sá ég líka mjög skýrt hver forgangsröðunin var hjá þeim.
En gott og blessað þetta er þeirra fyrirtæki og þau ráða því fullkomlega hvernig öllu er ráðstafað. En ég tók persónulega þá ákvörðun að vera ekki lengur virkur viðskiptavinur þar sem að í mínum huga voru auglýsingar ofar en viðskiptavinurinn sem bað um eina já eina! Litla prufu.

Tilgangurinn með þessu bloggi er ekki að sverta orðspor eins né neins.

Það sem að mér þykir mun alvarlega er að það eru fyrirtæki í þessu bransa sem er að hrella önnur minni, með slæmu baktali og öðrum siðlausum viðskiptaháttum eins og að vera með sömu merki og aðrir en án þess að vera með viðurkennt leyfi frá framleiðanda. Svo er líka dæmi um að fyrirtæki séu búin að vera lengi að koma ákveðnu merki á markaðinn og það hefur verið einfaldlega verið hrifsað af þeim af stærri aðilanum því þar eru meiri peningar.

Mig langar bara að vekja ykkur til umhugsunar um þessi mál!
Vona að það fari að opnast meiri umræða hér og fólk fari að þora að tjá sig

En hvet ykkur til þess að taka upplýsta ákvörðun áður en þið eyðið peningunum ykkar.

Ég kýs að versla við fyrirtæki sem:

  • Veitir viðskiptavinum sínum persónulega og góða þjónustu

  • Er með góðar vörur á sanngjörnu verði

  • Veitir manni frelsi til þess að geta ákveðið hvaða vara sé rétt fyrir mann – með því t.d að bjóða uppá prufur.

  • Hræðist ekki samkeppni eða talar niður til annara fyrirtækja

Höfundur: Helga Þórey

Bloggsíða Helgu

SHARE