Að vera kona – Hvað á maður að kalla píkuna á sér?

Á dögunum kom út hjá Uppheimum bókin Að vera kona eftir enska rithöfundinn Caitlin Moran í þýðingu Önnu Margrétar Björnsdóttur. Bókin er 370 blaðsíður og gefin út í kilju.

Ég er ötul stuðningskona ofvaxinna nærbuxna. Öfgafemínismi þarf hreinlega á stórum nærbuxum að halda. Virkilega stórum. Í þessum skrifuðu orðum er ég í nærbuxum sem hefðu getað slökkt Lundúnabrunann mikla, á hvaða tímapunkti sem er fyrstu tvo sólarhringana sem hann geisaði. Þær ná frá lærum og upp að nafla og ég get einnig notað þær sem sumarhús ef ég þarf að komast í burtu úr borginni um helgar. Ef ég ætlaði að bjóða mig fram til þings væri slagorð mitt: „Risavaxnar ömmunærbuxur fyrir allar konur!“

Það hefur aldrei verið betra að vera kona, ekki satt? Konur hafa kosningarétt og aðgengi að pillunni og jafnan rétt til menntunar. Þó er eitt og annað sem tónlistarblaðakonan Caitlin Moran sér ástæðu til að fetta fingur út í og velta fyrir sér, oft með sprenghlægilegum hætti. Hvers vegna eru uppi háværar kröfur um brasilískt vax? Hvers vegna finnst sumum femínistar vera fullkomlega óþolandi? Hvað á maður að kalla píkuna á sér? Og hvers vegna í ósköpunum verða kvenmannsnærbuxur sífellt efnisminni?

Samhliða eigin þroskasögu rekur Caitlin Moran eldfim baráttumál kvenréttindahreyfingarinnar. Að vera kona er sjálfsævisögulegt varnarrit gallharðs femínista um allt frá strippbúllum til fóstureyðinga, frá kynlífshegðun til starfsframa. Bókin sló í gegn í heimalandinu Englandi og vakti mikið og þarft umtal.

Ad-vera-kona-web

SHARE