Aðaláherslan verður á húðina í förðunartísku sumarsins

„Það er rosalega margt í gangi en svona samkvæmt því sem ég hef séð á tískupöllunum erlendis er mikil áhersla á húðina og að leyfa henni að njóta sín. Ljómandi húð verður mjög áberandi, „highlight“ og léttar skyggingar,“ segir Sara Dögg Johansen sem er þekkt nafn í förðunarbransanum á Íslandi og annar eigenda Reykjavík Make Up School, þegar hún er spurð að því hverju við megum eiga von á í förðunartískunni í sumar.

Samhliða ljómandi húð eigum við annað hvort eftir að sjá áberandi augnförðun eða æpandi varaliti. „Ef við tökum áfram mið af tískupöllunum þá erum við að tala um létta og náttúrulega augnförðun með til dæmis rauðum vörum eða alveg öfugt, áberandi augnförðun og „nude“ varir.“

Sara segir bjarta, bláa liti vera vinsæla á augun núna, bæði í formi augnskugga og „eyeliner“ og að þá sé slík förðun pöruð með minna áberandi varalit. „Lykilatriði í sumar er að leggja áherslu á annað hvort varir eða augu, ekki bæði,“ segir Sara sem þorir þó ekki að lofa að trendin af tískupöllunum nái endilega alla leið til Íslands.

Gerviaugnhár hafa verið mjög vinsæl á meðal íslenskra kvenna undanfarið og virðast vinsældir þeirra ekkert vera að dvína. „Gerviaugnhár hafa komið rosalega sterkt inn upp á síðkastið og þeirri tísku er hvergi nærri lokið, það eru eiginlega bara allir með slík augnhár í dag,“ segir Sara.

e79d0f9e-68d0-4cc7-9ad0-1c8e4c312f2c

Sara Dögg Johansen.

„Við eigum eftir að sjá íslenskar stelpur leggja mikla áherslu á augnhárin í sumar, úrvalið af augnhárum er orðið mjög fjölbreytt og hægt að fá svo falleg náttúruleg augnhár. Þú getur fengið stök augnhár, hálf og heil þannig að allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Augnhárin munu fá að njóta sín í sumar og alveg óþarfi að hafa augnskugga eða „eyliner“ með. Ljómandi húð og falleg augnhár eru alveg nóg. Og láta svo fallegt gloss setja punktinn yfir i-ið.“

Sara segir glossið yfirleitt detta út yfir vetrartímann en koma svo aftur þegar sólin fer að skína. „Glossið dettur alltaf inn þegar líða fer að sumri. Ferskjulitað gloss er vinsælt núna og svo gloss í rauðum tónum. Það er einmitt mjög gaman að sjá hvað rauðar varir eru að koma sterkt inn núna, af því þær eru yfirleitt frekar tengdar jólunum.“

Það sem er nauðsynlegt í snyrtibudduna í sumar, að mati Söru, er fallegur kinnalitur. „Kinnalitur verður alltaf rosalega vinsæll á sumrin. Hann gefur andlitinu ákveðinn frískleika og ljóma. Bæði „highlight“ og kinnalitur gefa andlitinu líf og bjartara yfirlit. Kinnalitur er algjört „möst“ yfir sumartímann.“

Birtist fyrst í …amk fylgiblaði Fréttatímans. 

SHARE