Aðgerðir strax! – Guðrún Birna þurfti að fara í brjóstnám

Guðrún Birna Kjartansdóttir setti þessa færslu á bloggið sitt þar sem hún segir frá reynslu sinni á því að fá brjóstakrabbamein og heilbrigðisþjónustunni á Íslandi. Vægast sagt sláandi lesning!

Aðgerðir strax!
Fyrir einum og hálfum mánuði síðan fór ég á leitarstöðina til að láta athuga með annað brjóst mitt. Mér fannst það vera skrítið og hafði hugsað um það í nokkrar vikur og kannski mánuði. Ég var með litluna mína á brjósti fyrir rúmu ári síðan (er 2ja ára) og á einu brjósti og á þessu brjósti sem var orðið eitthvað skrítið. Mér hafði verið sagt að hugsanlega gæti brjóstið orðið stærra vegna þessa og því fór ég ekki fyrr á leitarstöðina. Ég var búin að ákveða að þetta væri stíflaður mjólkurkirtill eða eitthvað svona auðleysanlegt vandamál. Fljótlega kom annað í ljós. Það var strax ljóst að þetta skrítna brjóst þyrfti að skoða betur og mjög fljótlega í þessu ferli var mér sagt að það yrði líklega að taka brjóstið.
Mér fannst þetta auðvitað erfitt en hugsaði sem svo að þetta væri nú bara eitt brjóst. Þreytt og svoldið slitið brjóst sem hefði svo sannarlega skilað sínu.
Í kjölfarið á heimsókninni á leitarstöðina tóku við mjög erfiðar vikur. Rannsóknir og skannar og allt í einu var mér hent inn í annan heim. Læknaheim. Sjúklingaheim. Heim sem ég þekkti ekki og hafði í raun engan sérstakan áhuga á að kynnast. Fljótlega breyttust orðin sem voru notuð – frá því að vera staðbundnar frumubreytingar í það að vera brjóstakrabbamein sem var komið í eitlana. Ömurlegar fréttir á vikufresti og ógeðsleg bið.
Mér var ekki bara hent í þennan heim heldur allri fjölskyldunni minni og vinum. Þau upplifðu rússíbanann með mér. Tímann þar sem ég varð að reyna að hemja og temja hugann og hugsanir sem fóru oft allt of langt. Krabbamein í mínum huga þýddi bara eitt.
Ég fór í brjóstnám um miðjan september.
Eftir tvær nætur á sjúkrahúsi fór ég heim til foreldra minna og var þar í næstum 3 vikur á eftir. Foreldrar mínir breyttu svefnherberginu sínu í sjúkraherbergi og við tók hvíld og endurhæfing. Endurhæfing var í höndum foreldra minna, Elsu frænku og vinkonurnar skiptust á að koma til mín. Guðmundur stóð vaktina heima og fékk góða aðstoð frá tengdó og hjá öllu okkar dásamlega fólki í sveitinni.
Ég get ekki sagt annað en að þetta hafi verið fjári erfitt á tímum. Ég með eitthvað dren hangandi utan á mér og kraftlaus og veik og áhyggjufull að bíða eftir niðurstöðum. Dagarnir liðu og við Guðmundur fórum á spítalann og fengum niðurstöður sem hræddu okkur aftur og enn. Krabbinn var þarna og var raunveruleg ógn og aggresívur andskoti. Sem betur fer eigum við góða að og þar af einn góðan vin sem er lyflæknir og gat útskýrt allt fyrir okkur og róað okkur.
Á spítalanum fékk ég góða umönnun. Læknarnir skáru meinið burt og hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og annað starfsfólk var mér mjög gott. Daginn sem ég fór heim eftir brjóstnámið skynjaði ég álagið á spítalanum vel. Mér fannst ég ekki óörugg en ég var fegin að komast heim. Samt var ég enn löskuð og með dren og hálfóörugg með framhaldið á skurðinum og batann allan. Dagana fyrir brjóstnámið höfðu fréttir af hrikalega ástandi á spítalanum dunið á okkur. Fréttir af svöngu, þreyttu, leiðu starfsfólki sem ekki hefur tíma til að fara á klósettið og ælir af álagi. Ekki mjög traustvekjandi. Ástandið var mér mjög ofarlega í huga og þegar kæruleysislyfin voru farin að virka vel fyrir aðgerðina hvatti ég starfsfólkið áfram og sagði þeim að þau ættu skilið að fá svakalega góð laun. Man þetta vel, sem og pælingar um skurðstofuna sem tengjast klárlega starfi náms- og starfsráðgjafa, en mér fannst alveg magnað að fylgjast með þeim öllum gera sitt „thing“ (og lét vita af því úff). Þegar ég vaknaði leið mér svoldið eins og ég hefði farið á trúnó á óheppilegum stað og tíma. Svona eins og þegar maður vaknar eftir gott partý og rifjar upp kvöldið og þar með talið trúnó við einu edrúmanneskjuna í partýinu. Pínlegt en aðallega bara fyndið!
Í einu af fyrstu viðtölunum við lækninn minn sagði hann mér að nú myndi ég heyra alls konar hryllingssögur. Jú það er rétt. Ég heyrði hryllingssögur en þær komu allar frá spítalanum sjálfum. Allir aðrir sögðu okkur frábærar sögur, hvetjandi sögur með góðan endi sögur. Elska svona sögur. Ég ætla einmitt að vera svona saga. Góð saga.
Á tímabili var ég rosalega pirruð út í kerfið og spítalann. Mér fannst til dæmis skrítið að ég þurfti að biðja um áfallahjálp eftir eitt mesta áfallið. Að mér væri ekki boðið það strax finnst mér enn skrítið. Svo hitti ég krabbameinslækninn minn og þá leið mér betur. Mér sýnist á því sem ég hef lesið að fólk sem lendir í þessu sé mér almennt sammála. Þegar meðferð og úrræðin eru komin í ferli þá líður manni betur. Mér hefur ekki liðið illa eftir að ég hitti krabbameinslækninn minn. Hann sagði okkur þó ýmislegt sem við munum hafa í huga í framhaldinu. Til dæmis að þau hafi verið sex sem sáu um brjóstakrabbamein á Íslandi en eru núna tvö. Að ég muni þurfa að passa upp á mig sjálf og mína meðferð. Kerfið getur ekki passað upp á mig. Það hefur reynt á þetta nú þegar. Samt hef ég ekki yfir neinu að kvarta því ég vil vera meðvituð um meðferðina og allt sem er í gangi.
Það sem situr eftir er þetta. Það þarf aðgerðir strax á Landspítalanum. Það þarf að bæta kjör og aðstæður lækna og hjúkrunarfólks. Það þarf að bæta tækjakost nú þegar. Það þarf að nást sátt um að setja þessi mál í forgang. Þeir sem veikjast eiga betra skilið en úrelt tæki og örmagna starfsfólk. Þeir sem vinna á spítalanum eiga skilið að fá að vinna við bestu mögulegu aðstæður til að ná sem bestum mögulegum árangri. Skítt með skattlækkun sem skilar okkur nánast engu nema krossi við kosningaloforð xD. Setjum heilbrigðismál í forgang. Það þarf aðgerðir strax!
SHARE