Adolescence – Leyndarmálið á bakvið endinn

Það hafa margir séð þættina Adolescence sem eru á Netflix núna. Þeir fjalla í stuttu máli um fjölskyldu 13 ára drengs sem er handtekinn fyrir morð. Það sem gerir þættina alveg sérstaklega flotta, að mínu mati, er hvernig hver þáttur virðist tekinn í einni töku án þess að klippa. Þetta er alveg ótrúlega flott og ekkert smá vel gert og fyrir svona „nörda“ eins og mig þá hélt þetta mér alveg við efnið allan tímann.

Þættirnir eru mjög áhrifamiklir og við Magnús minn, eiginmaður minn, vorum límd yfir þessu og ég held að ég ætlaði varla að geta stoppað tárin í endann (þó ég sé alveg svakalega hörð út á við heheh). Ég held að Magnús minn hafi líka fengið kusk í augað en það verður aldrei gert opinbert því íslenskir karlar gráta ekki, eru aldrei hræddir og aldrei kalt. Viðfangsefni þáttanna er eitthvað sem allir sem eiga unglinga í dag geta tengt við á einhvern hátt. Varnarleysi, vanmátt, ráðaleysi og vonleysi. Ef þið hafið ekki upplifað neitt af þessum tilfinningum vil ég bara óska ykkur ævarandi lukku með það, svona í alvöru.

Ef þið hafið ekki séð þættina ráðlegg ég ykkur að halda ekki áfram að lesa og horfa á þættina og koma svo aftur.

Í lokaþætti seríunnar er átakanlegt atriði í lok þáttarins og þar má sjá föðurinn brotna niður. Leikarinn, Stephen Graham, leikur þetta svo svakalega vel að það er ekki annað hægt en að finna til. Það sem við vissum ekki þegar við horfðum á þetta var það sem gerðist á bakvið tjöldin.

Leikstjórinn, Philip Barantini, sagði frá því á Tudum, að hann hafi gert svolítið óvænt til að fá eins „hráar“ tilfinningar frá Stephen og hægt væri. Hann fékk mynd af alvöru fjölskyldu Stephen og límdi hana upp í skáp í því sem á að vera herbergi unga drengsins sem á að vera í fangelsi.

„Ef þú horfir mjög gaumgæfilega á lokaatriðið má sjá hann horfa til hægri, þar sem hann sér myndina og það brýtur hann alveg niður. Þetta hafði verið tekið upp áður og þær tökur höfðu verið mjög góðar en þessi var svo raunveruleg, hrá og óundirbúin,“ sagði Philip í viðtali hjá Tudum.

Stephen hefur líka sagt frá því að þetta hafi komið honum svakalega mikið á óvart og hafi 100% gert útslagið: „Þeir náðu mér inn að innsta kjarna. Það var eins og skrúfað frá krana.“

SHARE