Þessi uppskrift er eiginlega alveg svakaleg. Hún er fengin af blogginu hennar Erlu Guðmunds, sem er sælkeri fram í fingurgóma. Það má nú alveg smella í eina svona til þess að ljúka helginni með stæl.
Sjá einnig: Karamellukornflexnammi með lakkrísbitum
Karamellusprengja
Rice Krispies botn:
- 100 gr suðusúkkulaði frá Nóa Síríus
- 80 gr smjörlíki
- 3 msk sýróp
- 150 gr Nóa Síríus rjómakúlur
- 200 gr Rice Krispies (í raun bara eftir smekk hvers og eins)
Bræðið smjörið, súkkulaðið, sýrópið og rjómakúlurnar í potti við vægan hita. Þegar rjómakúlurnar eru alveg bráðnaðar þá má hella Rice Krispies saman við og blanda vel með sleikju. Skellt í form og kælt í ísskápnum í ca. klst.
Rjómafylling:
- 250 ml rjómi
- Heill poki af karamellu Nóa Kropp.
Setjið Nóa kroppið í poka og lemjið hann með buffhamri (eða bara einhverju) og blandið síðan saman við þeyttan rjómann.
Marengsbotn:
- 100 gr sykur
- 100 gr púðursykur
- 2 – 3 eggjahvítur
- 1 stk Risa Hraun (smátt saxað).
Þeytið sykurinn, púðursykurinn og eggin vel saman eða þar til blandan er orðin stífþeytt. Skerið hraunið niður, frekar smátt, og blandið út í með sleikju. Bakist við 150°c í ca. 30 – 40 mín. Til að toppa kökuna bjó ég til smá karamellubráð sem var 150 gr rjómakúlur frá Nóa Síríus og smá rjómasletta, brætt við vægan hita. Skellti því svo yfir kökuna og skreytti með hindberjum og muldu karamellu Nóa Kroppi.
Guðrún Veiga er fædd og uppalin á Eskifirði. Hún er mannfræðingur að mennt, mikill matgæðingur, mamma og múltítasker. Guðrún Veiga hefur skrifað fyrir hina ýmsu miðla, unnið í sjónvarpi og skrifað eitt stykki matreiðslubók.