Æðisleg og öðruvísi karamellujógúrtkaka

Þessi kaka er svolítið óvenjuleg og alveg dásamlega góð. Alveg ekta sunnudags. Uppskriftin er fengin af blogginu hennar Tinnu Bjargarsem er eitt af mínum uppáhalds. Ég mæli með því að þú fylgist með Tinnu á Facebook og fáir allar gómsætu uppskriftirnar hennar beint í æð.

Sjá einnig: Amerísk ostakaka með bláberjum

IMG_8646

Karamellujógúrtkaka

Botn

1 pakki Tom & Jerry kex

70 g brætt smjör

Fínmalið Tom & Jerry kex í matvinnsluvél og blandið saman við brætt smjör. Klæðið botninn í litlu hringlaga smelluformi (20 cm) með plastfilmu. Þrýstið kexblöndunni jafnt og þétt ofan í smelluformið og frystið kökubotninn í um 20 mínútur. Leysið kexbotninn úr forminu og fjarlægið plastfilmuna. Spreyið því næst hliðar smelluformsins með örlitlu Pam spreyi. Þannig losnar jógúrtkakan auðveldlega úr forminu síðar. Að lokum er kexbotninn aftur settur varlega í smelluformið.

Jógúrtfylling

500 ml Þykkmjólk með karamellubragði

300 ml þeyttur rjómi

4 matarlímsblöð

50 ml rjómi

Blandið þykkmjólk og þeyttum rjóma varlega saman. Leggið matarlímsblöð í vatnsbleyti þar til þau mýkjast og kreistið síðan úr þeim vatnið. Hitið rjóma að suðu, bræðið matarlímsblöðin saman við og kælið svolítið. Hellið matarlímsblöndunni í mjórri bunu út í jógúrtblönduna og hrærið stanslaust á meðan til að koma í veg fyrir að límkekkir myndist.

Hellið jógúrtfyllingunni ofan í smelluformið og kælið kökuna í að minnsta kosti 5 klukkustundir. Best er að geyma hana í kæli yfir nótt. Leysið karamellujógúrtkökuna varlega úr smelluforminu og setjið hana á kökudisk.

Karamellubráð

20 karamellur frá Freyju

30 ml rjómi

Bræðið karamellur og rjóma saman og kælið að stofuhita. Hellið karamellubráðinni yfir jógúrtkökuna og látið leka svolítið niður með hliðunum.

 

SHARE