Fjölskyldudagur í Öskjuhlíð verður haldin í fyrsta sinn sunnudaginn 29. júní næstkomandi kl.13 til 16 í grennd við Perluna og í lautum út frá göngustíg sem liggur niður hlíðina.
Á fjölskyldudeginum verður hægt að finna eitthvað við allra hæfi og ævintýri verða í hverju horni. Boðið verður upp á rathlaup, stutta leiðangra, fjölskylduleiki, hjólaþrautir, yoga, hugleiðslu, skylmingar og spunaspil, myndlist, ljósmyndakeppni og einnig mæta á svæðið Ævar vísindamaður og Dr. Bike.
Tilgangur hátíðarinnar er að gefa fjölskyldum hugmyndir að samverustundum ásamt því að hvetja foreldra til að stunda útilíf og hreyfingu með börnum sínum. Rannsóknir hafa sýnt að börn eru líklegri til að tileinka sér heilbrigðan lífsstíl ef þau eru alin upp við það með foreldrum sínum. Þau börn sem stunda útilíf eru líka almennt hraustari en önnur börn og fá sjaldnar pestir. Þess vegna er mikilvægt að vekja athygli á því hversu mikilvægt er fyrir foreldra að vera góðar fyrirmyndir og hvetja börn sín til heilbrigðs lífsstíls.
Skipuleggjendur hátíðinnar eru höfundar bókanna Útivist og afþreying fyrir börn (2012) og Útilífsbók barnanna (2015): Lára G. Sigurðardóttir, Sigríður Arna Sigurðardóttir ,Pálína Ósk Hraundal og Vilborg Arna Gissurardóttir. Skipuleggjendur leggja fram sína vinnu ásamt forsvarsmönnum viðburða.
Gestir eru hvattir til að koma á hjólum eða gangandi en það verður einnig hægt að leggja við Perluna. Teppi og nesti gæti komið sér vel.
Allir hjartanlega velkomnir og ókeypis á alla viðburði.
Mynd: Snæþór Halldórsson
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.