Þegar þú stendur barnið þitt að því að segja skröksögu, eða þræta fyrir eitthvað sem þú veist að það gerði, er barnið ekki endilega að reyna að blekkja þig. Á þessum aldri eru mörkin milli raunveruleika og skáldskapar afar óljós. Líklegar orsakir fyrir skrökinu gætu verið eitthvað af neðantöldu:
Gleymni. 3-4 ára barn er fljótt að gleyma. Barnið er því ekki endilega með uppsteyt þegar það þrætir fyrir að hafa grætt skólafélaga sinn. Það man sennilega ekki eftir því.
Óskhyggja. Þegar barnið þverneitar að hafa brotið vasann í stofunni, er það ekki endilega að reyna að komast upp með það. Það óskar sér bara svo sterkt að atburðurinn hafi ekki átt sér stað, að það trúir að það hafi ekki komið nálægt honum.
Sjá einnig: Nokkrar pottþéttar leiðir til að klúðra uppeldinu
Frjótt ímyndunarafl. Á þessum aldri hefur barnið mjög frjótt ímyndunarafl. Sköpunargleðin er í hámarki og það trúir því statt og stöðugt að það sem á sér stað í kollinum á því sé raunveruleiki. Það er til að mynda eðlilegasti hlutur í heimi að þessum aldri að fara til Afríku um hánótt og tala við fjólublá ljón.
Þörf fyrir athygli. Barnið hefur mikla þörf fyrir athygli og leitar oft allra leiða til að fá hana, ein leiðin getur verið að skálda upp sögur. Ef barn segir til að mynda söguna af því, þegar það synti yfir alla djúpu laugina í sundi þá er það líklegast að sækjast eftir viðurkenningu fyrir stórkostlega (en afar ólíklega) frammistöðu, frekar en það sé beint að skrökva. Barnið getur haldið áfram að nota skröksögur af þessu tagi ef það finnur að það fær þannig þá athygli sem það sækist eftir.
Þörf fyrir að halda um stjórnvölinn. Þegar barnið segir að það hafi bjargað bróður sínum þegar hann datt úr rólunni, þá er það líklega að reyna að hafa stjórn á aðstæðum sem hafa orðið því um megn.
Hvað er til ráða?
Leiktu með. Besta leiðin til að fást við þetta er að slappa af og njóta hvað barninu getur dottið í hug. Hvettu það rólega til að segja sannleikann. Skrautlegar sögur eru yfirleitt saklausar og hluti af þroskaferli barnsins. Börnum eru sögð ótal ævintýri, af hverju ættu þau ekki að segja þau líka?
Sama gildir um ímyndaða vini. Þeir eru merki um vel þroskað ímyndunarafl barnsins.
Ekki ásaka. Vertu jákvæð(ur) í garð barnsins og ekki ásaka það. Það er t.d. gott að nota hvetjandi orðalag eins og: „Hver ætli hafi sett liti út um allt gólf? Ég vildi að einhver kæmi og hjálpaði mér að tína þá upp“.
Vertu skilningsrík(ur). Það er auðvelt að skilja hvers vegna barnið sem er nýbúið að hella niður ávaxtasafa í nýja teppið hennar ömmu, vill ekki gangast við því.
Útskýrðu fyrir því að í staðinn fyrir að óska sér að þetta hefði ekki gerst, sé betra að viðurkenna það og hjálpa til við að hreinsa safann upp. Ef það var búið að banna barninu að fara með ávaxtasafa inn í stofu skaltu benda því á það í rólegheitum að það var rangt, en hrósa því líka fyrir að viðurkenna það. Á endanum lærir barnið að það er betra að segja sannleikann en að skrökva.
Sjá einnig: „Við áttum að búa til börnin“ – Tvær konur stíga fram og segja sína sögu
Heiðarleiki er mikilvægur. Það má vera að barnið þitt haldi því fram að það skilji alveg að það sé ljótt að ljúga, en það er ekki fyrr en um 5-6 ára aldur sem barnið gerir sér fulla grein fyrir afleiðingum þess að segja ósatt. Á meðan skaltu kenna því hvað sé mikilvægt að vera heiðarlegur til dæmis með því að nota dæmissögur eins og: „Úlfur, úlfur“.
Vertu jákvæð(ur), ekki ógnandi. Ef þú vilt að barnið þitt segi þér satt, einkum ef það hefur gert eitthvað af sér, skaltu alls ekki bregðast við með reiðiviðbrögðum. Þá er hætta á að barnið segi þér ekki aftur sannleikann. Þá ber að varast að refsa barninu fyrir skröksögur, en komið hefur í ljós að börnum sem er refsað harðlega hættir sjálfum til að ganga út í öfgar. Þau verða annaðhvort yfirmáta samviskusöm, eða litlir uppreisnarseggir, hvorugt er eftirsóknarvert.
Hrós. Hrósaðu frekar barninu þegar það segir sannleikann. Það hefur jákvæð áhrif á barnið og lætur því finnast það vera þess virði að segja sannleikann.
Elskaðu barnið takmarkalaust. Fullvissaðu barnið um að þér þyki vænt um það, hvað sem á dynur. Þegar það brýtur óvart eitthvað sem þú átt, er líklegt að það neiti því af ótta við að vera hafnað. Útskýrðu fyrir því að mömmu og pabba þyki alltaf jafn vænt um það, jafnvel þegar það gerir eitthvað af sér sem ykkur er á móti skapi.
Sjá einnig: 6 hlutir sem þú átt aldrei að segja við börnin þín
Efldu traustið hjá barninu. Láttu barnið finna að þú treystir því og að það geti treyst þér. Ef þú ert t.d. að fara með það í sprautu, skaltu ekki segja því að það verði ekki vont. Reyndu alltaf að standa við orð þín gagnvart barninu og ef það er ekki hægt, skaltu biðjast afsökunar og útskýra málið.
Börn þurfa festu. Láttu barnið vita til hvers er ætlast af því. Kenndu því að virða boð og bönn eins og að biðja um leyfi áður en það fær sér köku eða það fær lánað dót hjá öðrum. Börn þurfa ákveðinn ramma í samskiptum. Barn sem elst upp við jákvæðan aga og lærir að virða boð og bönn ber frekar virðingu fyrir reglum samfélagsins síðar meir.
Birt með góðfúslegu leyfi en greinin birtist áður í tímaritinu Uppeldi.