Ég rakst á grein eftir Marilyn Wedge sem er læknir og rithöfundur. Mér fannst greinin afar áhugaverð og langaði að deila henni með lesendum okkar. Ég hef velt þessum hlutum mikið fyrir mér, lyfjagjöf barna og þá sérstaklega þegar börnum eru gefin sterk geðlyf með tilliti til allra aukaverkana og mér finnst áhugavert að lesa mér til um þessi mál enda tel ég að mikilvægt sé að vera vel upplýstur og vita bæði um galla og kosti. Mín reynsla er sú að manni er ekki alltaf sagt frá aukaverkunum lyfja áður en maður ákveður að byrja að taka þau og það sama á oft við foreldra sem fá lyf fyrir börnin sín. Hér er þessi áhugaverða grein þýdd sem fjallar um ADHD og tíðni ADHD hjá börnum í Frakklandi og Bandaríkjunum. ATH, þessi grein þarf ekki að endurspegla mínar skoðanir eða skoðanir ritstjórnar, hún er hinsvegar afar áhugaverð.
Franskir krakkar eru ekki með ADHD af því að…………
Frönsk börn þurfa ekki lyf til að sjórna hegðuninni
Í Bandaríkjunum eru u.þ.b. 9% allra skólabarna greind með ADHD og fá viðeigandi lyf. Í Frakklandi eru innan við 0,5% barna greind með og á lyfjum vegna ADHD. Hvernig stendur á því að þessi faraldur sem fer um Bandaríkin hefur varla komið við í Frakklandi?
Er ADHD líffræðileg taugakerfisröskun? Það er svo merkilegt að svarið við þesari spurningu fer eftir því hvort maður býr í Frakklandi eða Bandaríkjunum. Í Bandaríkjunum telja barnageðlæknar að ADHD sé líffræðileg röskun sem eigi sér líffræðilegar ástæður. Meðferðin er líka líffræðileg og lyf eins og Ritalin og Adderall gefin til að hjálpa.
Franskir barnageðlæknar telja aftur á móti að orsakir ADHD röskunar megi rekja til sálfræðilegra og félagslegra aðstæðna. Í stað þess að takast á við hegðunarvanda barnsins með lyfjum leita þeir að hvað veldur ástandinu. Þeir leita ekki í huga barnsins heldur í umhverfi þess. Síðan er reynt að taka á félagslegum vanda með fjölskylduráðgjöf og sálfræðimeðferð.
Þessi aðferð og aðkoma er mjög ólík bandarískum viðhorfum þar sem vandinn er yfirleitt talinn líffræðilegur.
Hvort sem frönskum sérfræðingum tekst að laga það sem aflaga fór í félagslegu umhverfi barnsins eða ekki er það staðreynd að færri frönsk börn falla undir skilgreiningar ADHD en bandarísk börn. Auk þess er franska skilgreiningin ekki jafn víð og opin og sú sem farið er eftir í Bandaríkjunum sem ýmsir telja að sjúkdómavæði ýmsa hegðun barna sem er líklega á stundum eðlileg þegar um börn er að ræða.
Þegar Frakkar skoða börn sem sýna ýmis einkenni um ADHD er alltaf skoðað hvað barnið borðar. Það er vitað mál að hegðun barna fer oft úr skorðum þegar þau hafa borðað eitthvað sem matarlitur er í, rotvarnarefni eða eitthvað sem veldur ofnæmi. Ýmsir sem vinna með börnum sem eiga í erfiðleikum- að ekki sé minnst á foreldra barna sem greind eru með ADHD – vita vel hvað breytt mataræði getur oft hjálpað barninu. En þar sem áherslan og oftrú á lyf ræður ríkjum er ekki hugað að áhrifum matvæla á hegðun og líðan barnsins.
Viðhorf Frakka til barnauppeldis eru nokkuð sérstök og öðruvísi en gerist í mörgum vestrænum löndum. Hér gæti að hluta legið skýringin á því hve fá börn þar eru greind með ADHD. Franskir foreldrar setja börnunum allt frá byrjun ákveðin mörk eða ramma. Börnum er t.d.ekki leyft að narta í mat hvenær sem þeir dettur í hug. Matartímar eru fjórum sinnum á dag og ekki oftar. Börnunum er kennt að bíða eftir matartímanum og borða ekki „snakk“ milli mála. Frönskum ungabörnum er líka kennt að aðlagast þeim reglum sem foreldrarnir setja en ekki eigin óskum og gráti. Ef barnið er ekki farið að sofa alla nóttina þegar það er orðið fjögurra mánaða láta franskir foreldrar það bara gráta. Þeir elska börnin sín alveg jafnvel og mikið og aðrir foreldrar, veita þeim góða menntun, koma þeim í íþróttir og hvetja þau á alla lund. En hugmyndir þeirra um aga eru á margan hátt sérstakar. Þeir telja að börnunum líði vel og þau séu örugg ef mörkin eru alltaf skýr og þau viti til hvers er ætlast af þeim. Þá geti töfraorðið NEI oft bjargað börnum frá því að lenda í ógöngum. Franskir foreldrar telja það alls ekki illa meðferð á börnum að flengja þau ef það er gert að athuguðu máli og í hófi.
Niðurstaðan er þessi. Frönsk börn þurfa ekki lyf til að ná stjórn á hegðun sinni. Þeim er á unga aldri kennt að hafa stjórn á sjálfum sér. Þau skilja til hvers er ætlast heima fyrir og átta sig alveg á hver stjórnar þar. Franskir foreldrar stjórna en ekki börnin eins og sést allt of oft í fjölskyldum í öðrum löndum á Vesturlöndum.
Heimildir: http://www.psychologytoday.com/
Höfundur greinar: Marilyn Wedge. Barnalæknir og rithöfundur.
Þýðing greinar: Bryndís Gyða Michelsen, Hún.is.