“Ein á eftir annarri, þá stálu mörgæsirnar geðheilsu minni. Ég fékk mér þetta tattú þegar ég var nýorðinn edrú en sagan er sú að ég sá þetta á bol hjá félaga mínum og sagði í djóki að ég ætlaði að fá mér þetta sem tattú.
Þegar ég var kominn heim fór ég svo að hugsa um þetta og þá fór ég að átta mig á því að allt mitt líf hef ég kennt öðrum um allt. Þetta skeði bara af því að þessi gerði þetta og svona og ég ætlaði aldrei að fara á fjögurra daga fyllerí. Ég hef verið lagður inn á geðdeild og fleira. Þannig að þetta var aldrei mér að kenna. Svo þetta er mín áminning. Að þetta var aldrei mér að kenna. Ein af annarri þá stálu mörgæsirnar geðheilsu minni.”
Þessu svarar Gissur Breiðdal Smárason aðspurður um merkingu húðflúrs sem hann ber á bringunni, en stórskemmtilega umfjöllun um orsakir þess að fólk lætur flúra á sér líkamann og persónulega merkingu táknanna er meðal þess efnis sem fræðast má um í Lifandi Vefrit, nýútkomnu vefriti háskóalnema í fjölmiðlafræði við H.Í.
“Saga segir frá: Fegurðin sigrar”
“Þegar ég var nítján ára var mér nauðgað og þetta olli mér mikilli sorg” segir Saga Ólafsdóttir jafnframt um forsögu þess að hún ber lítið húðflúr á annarri hendinni. “Ári seinna ákvað ég að leggja fram kæru og tæplega ári seinna kemur í ljós að ákveðið var að fella þessa kæru niður. Þetta var gert sama dag og ég var að ljúka prófi, en þetta var síðasta prófið þetta vor. Ég man að mamma mín hringdi í mig áður en prófið byrjaði og spurði mig hvort hún mætti tala aðeins við mig og sagði henni að ég væri að fara í próf eftir tíu mínútur. Hún segist þá bara spjalla við mig þegar prófið er búið. Það eina sem ég gat hugsað allt prófið var hvort amma mín væri dáin, því hún var orðin háöldruð. Eftir prófið tala ég við mömmu mína sem segir mér að kæran hafi verið felld niður og ég storma þá þarna niður í miðbæ og fæ mér tattú.”
“Alltaf þegar ég horfi á þetta tattú hugsa ég um betri tíma”
Sara, sem í viðtalinu segist alltaf hafa heillast af arabískum menningarheimi, valdi sér arabískt tákn sem merkir fegurð. Þó segist hún ekki hafa hugsað svo mikið út í merkinguna þegar hún valdi táknið. “Eftir á að hyggja hef ég aldrei séð eftir því að hafa valið mér tattúið, en þegar kæran var felld niður tók við uppbyggingartími hjá mér eftir að hafa upplifað mikla niðurlægingu, óvissu og kvíða sem fylgdi kærunni. Alltaf þegar ég horfi á þetta tattú hugsa ég um betri tíma. Ég stóð með sjálfri mér, ég er betri manneskja; ég lenti í þessu áfalli en ég komst yfir það og ég er betri manneskja í dag. Þetta er jákvætt í dag. Þetta er uppáhaldstattúið mitt í dag, því það minnir mig á að ég er sterk og ég er falleg og ég kemst yfir vandamálin sem fylgja því að verða fyrir áfalli.”
Lifandi Vefrit: Ólgandi ferskt vefrit háskólanema sem vert er að skoða
Einnig er að finna á vefritinu nokkuð ítarlegt viðtal við húðflúrlistakonuna Sigrúnu Rós sem starfar á tattoostofunni Bleksmiðjunni í Laugardalnum sem svarar meðal annars því hvert ferlið frá hugmynd að framkvæmanlegum veruleika er þegar hönnun varanlegra húðflúra er framkvænd.
Vefritið, sem ber einfaldlega heitið Lifandi Vefrit er vettvangur nemanda sem sóttu námskeiðið Lifandi Vefrit – Nýmiðlun sem kennt var á vormisseri 2014 í Hagnýtri menningarmiðlun við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands og má marga áhugaverða umfjöllunina lesa gegnum vefritið, sem sýnir á afar lifandi vegu hver helstu hugðarefni ungra á Íslandi eru í dag.
Ástæður þess að ungir Íslendingar fá sér húðflúr má m.a. lesa HÉR en afar skemmtilega uppsetta vefsíðu háskólanema sem ber heitið Lifandi Vefrit má heimsækja með því að smella HÉR
Allar ljósmyndir við þessa grein eru varðar höfundarrétti og eru skjáskot af vefriti háskólanema: Lifandi Vefrit
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.