Um helgina var okkur hjónaleysunum boðið í skírnarveislu. Frændi minn eignaðist nýverið dreng, algjöran bolta og hrikalega sprækan. Við sóttum mömmu og ókum sem leið lá út á Seltjarnarnes. Foreldrarnir tóku á móti okkur í dyrunum, frændi minn hélt á syni sínum og brosti út að eyrum. Ég hafði séð barnið á myndum á Facebook en mamma hafði aldrei áður séð það. Hún leit á drenginn og síðan á frænda minn, nokkuð hvöss á svip.
„Mikið óskaplega er hann feitur,“ sagði hún mæðulega. Brosið fraus á andliti frænda míns og konan hans, sem er nokkru yngri en hann, opnaði munninn en sagði ekki neitt. Ég tók undir handlegginn á mömmu, hló vandræðalega svona til að láta sem um grín hefði verið að ræða, óskaði þeim til hamingju með daginn og dró mömmu inn í húsið.
„Mamma, svona segir maður ekki,“ hvíslaði ég að henni, þegar ég var viss um að við værum komin í hæfilega fjarlægð. „Að minnsta kosti heilsar maður foreldrunum fyrst og óskar þeim til hamingju með daginn, áður en maður fer að gagnrýna barnið þeirra.“
„Friðrik, ég þarf ekki einhverjar lexíur frá þér,“ svaraði mamma sallaróleg og færði sig yfir til skyldmenna okkar. Ég sá að konan mín hafði fengið sér sæti í hornsófa þannig ég rölti þangað og settist við hlið hennar. Ekki leið á löngu þar til sonur systur minnar kom auga á mig og kom stökkvandi til mín.
Kannski er best að ég segi þér aðeins frá stráknum. Hann er tæplega 5 ára og afskaplega indæll, má hvergi aumt vita, alltaf glaður, ánægður og virkilega ljúfur og blíður. Mjög ólíkur villidýrinu sem sonur minn er. Einhverra hluta vegna hefur hann alla tíð verið mjög hrifinn af mér. Það sem gerir hins vegar þennan frænda minn óvenjulegan er að hann klæðir sig bara eins og honum sýnist, óháð því hvað öðrum kann að finnast og virðist algjörlega frjáls og óháður hefðbundnum viðmiðum. Og þarna í skírninni var hann í grænum buxum, gulum bol og með bleika slaufu í hárinu. Hann sagði mér að systir sín hefði ákveðið að vera með slaufu í hárinu svo að hann vildi líka vera með eina. Við konan mín sögðum honum hve flott okkur þætti slaufan og hve hann væri fínn, sem vakti ekki litla lukku hjá þeim stutta. Skömmu síðar kom sonur okkar, í Liverpool treyjunni sinni og svörtum íþróttabuxum og dró frænda sinn út í fótbolta. Eins og ég sagði, þá eru þeir ólíkir frændurnir, sem er ekkert nema gott og blessað.
Jæja, þegar athöfnin var að hefjast komu mamma og bróðir hennar og settust hjá okkur. Presturinn hélt stutta tölu og lesin voru ritningarorð. Loks kom að því að skíra barnið og spurði presturinn hvað barnið ætti að heita.
„Auðbjörn Álfur,“ svaraði frændi minn. Afinn, sem sat við hlið mömmu, hallaði sér fram en leit síðan á systur sína.
„Hvað sagði hann?“ spurði hann það hátt að líklega fór það ekki framhjá neinum í Vesturbæjarlauginni og eflaust fáir á nesinu öllu sem heyrðu ekki í honum. „Dauðinn Sjálfur? Á barnið virkilega að heita það?“ Mamma reyndi að þagga niður í bróður sínum, svo að athöfnin gæti haldið áfram án frekari truflana. Sjálfur þurfti ég að stinga hnefanum upp í mig til að skella ekki upp úr og mér sýndist svo eiga við um fleiri. Þegar skírninni var lokið og útskýrt hafði verið fyrir afanum að barnið hafi verið skírt í höfuðið á honum, það er að segja Auðbjörn, þá komst sá gamli við og dauðskammaðist sín fyrir upphlaupið.
Mamma sat áfram hjá okkur. Hún hallaði sér að mér án þess að taka augun af móðurinni sem hélt stolt á syni sínum og tók við hamingjuóskum frá fjölskyldu sinni.
„Finnst þér þetta ekki ljótt nafn?“ sagði mamma. „Auðbjörn er fallegt, langafi þinn hét Auðbjörn, en Álfur? Álfur, Friðrik? Þetta orð er notað um kjána.“
„Hvaða, hvaða,“ sagði konan mín og skellti upp úr. „Tímarnir breytast og mennirnir með. Við getum ekki öll heitið Jón eða Guðrún. Er ekki ágætt að við berum ólík nöfn og þessar nafnahefðir séu að breytast?“
Mamma var ekki á þeim buxunum og mér sýndist á henni að hún væri einmitt í þeim gírnum að geta tekið góða stund í að ræða mannanöfn og þá á þeim nótum að hennar skoðun sé óvéfengjanlegur sannleikur en skoðun viðmælanda hennar kjánaskapur og vitleysa. Sem betur fer þekkir konan mín móður mína vel og var fljót að beina umræðunni inn á aðrar slóðir. Ég hallaði mér því aftur í sófanum með heita réttinn minn og slakaði á.
Fyrir aftan mig sátu tvær konur á mínum aldri, en þær hljóta að hafa tengst móður skírnarbarnsins því ég kannaðist ekki við þær. Hins vegar ræddu þær um frænda minn litla, son systur minnar, en hann hafði gefist upp á að spila fótbolta við son minn nokkru fyrr og sat á miðju stofugólfinu með súkkulaðiköku. Þær voru yfir sig hneykslaðar á því að nokkur móðir skuli hafa látið eftir syni sínum að fá bleika slaufu í hárið og ræddu það í lágum hljóðum.
Á leiðinni heim sagði ég konunni minni frá þessu.
„Ég skil ekki,“ sagði ég, „hvers vegna hann fær ekki bara að vera eins og hann er? Hvers vegna þurfum við að troða einhverjum hallærislegum viðmiðum um hefðbundinn klæðnað stráka og stelpna upp á börn? Eiga allir strákar að vera í bláu og allar stelpur í bleiku?“
„Myndir þú vilja sjá son þinn í bleikum kjól?“ svaraði konan mín. „Myndirðu senda hann þannig í skólann?“
Ég opnaði munninn og ætlaði að svara. Mig langaði rosalega til að segja já, en ég gat það ekki. Ég verð að vera alveg hreinskilinn með það. Ekki svo að skilja að ég vilji ekki fyrst og fremst að hann sé hamingjusamur, ég held bara að honum yrði strítt og ég er ekki viss um að ég gæti horft upp á það.
„Hugsaðu út í það, Friðrik,“ bætti konan mín við. „Þrátt fyrir allt, þrátt fyrir allar ræður og greinar um jafnrétti, þá erum við ekki komin lengra en þetta. Sjáðu mig,“ sagði hún og benti á svörtu buxurnar sem hún var í, „ég er í buxum en þú myndir aldrei fyrir þitt litla líf fara í pils eða annan kvenfatnað.“
„Hvað kemur það málinu við?“ svaraði ég.
„Jú, af því þetta er hræsni,“ sagði hún. „Það er hræsni að ætla að troða viðmiðum upp á aðra sem maður er ekki tilbúinn að gangast við sjálfur. Ég veit að þér þykir vænt um frænda þinn og þú vilt honum vel. Ég get alveg ímyndað mér að þetta hafi verið óþægileg upplifun, að hlusta á tvær konur ræða um hann með þessum hætti, en svona líður mér og mörgum konum daglega, endalaus pressa um að líta rétt út, ekki endilega bara frá karlmönnum, ekki síður frá öðru kvenfólki.“
„Já, en hvað kemur það því við hvort hann fái að vera með bleika slaufu í hárinu?“
„Skilurðu ekki að þetta er allt angi af sama meiði?“ svaraði konan mín og lagði bílnum. „Án frelsis til að vera nákvæmlega sú persóna sem við kjósum sjálf að vera, án frelsis til trúar, kynhneigðar, klæðaburðar, skoðana og tjáningar, þá náum við aldrei sönnu jafnrétti.“
Ég hef áður sagt að konan mín er klár. Hún er alveg virkilega klár og mun klárari en ég. Hún er búin að pæla í hlutum fram og aftur sem ég veiti alltof lítinn gaum.
„Til að frændi þinn fái að vera eins og hann er, fái að vera hann sjálfur í friði, þá verður þú að geta látið af fordómum þínum og verið tilbúinn að veita syni þínum sama frelsi, sem og dóttur. Það er ekki nóg að ætla honum aðeins frelsi frá fordómum annarra, ef þú ert ekki tilbúinn að láta af fordómum þínum,“ bætti hún við og drap á bílnum. Hún losaði bíllyklana úr svissinum og rétti mér þá. Ég leit á lyklana í hendi minni. „Það þarf að þrífa bílinn og ryksuga afturí. Sonur þinn,“ hún notar þetta orðalag alltaf þegar hann hefur gert eitthvað af sér, „ákvað að mylja hálfan kexpakka í aftursætið í morgun eftir æfingu.“
Að því sögðu opnaði hún dyrnar og steig út.
„Ætlarðu bara eftir þennan jafnréttisfyrirlestur að senda mig út að þrífa bílinn? Hvar er jafnréttið núna? Eiga bara karlar alltaf að sjá um bílana?“ spurði ég glettnislega. Hún sneri sér við og leit á mig, leikur í bláu augunum hennar.
„Hver sagði að ég hefði ekki líka fordóma?“
Við það var hún farin inn í íbúðina okkar. Ég sneri mér við í sætinu. Sonur minn sat þar og fylgdist með mér.
„Ætlarðu að koma með og hjálpa mér?“ spurði ég. Hann hristi höfuðið.
„Neibb, ég er líka með fjórdóma,“ svaraði hann og losaði sætisbeltið. Síðan horfði ég á eftir honum hlaupa út á fótboltavöll.
„Það er þá gott að ég er algjörlega laus við fordóma,“ sagði ég við sjálfan mig, um leið og ég ók út af bílastæðinu. „Annars myndi enginn þrífa bílinn.“
Friðrik Vestdal er tveggja barna faðir í austurborginni og á hann börnin með tveimur konum. Hann er með meistaragráðu í iðngrein og hefur gaman af íþróttum. Friðrik er á fertugsaldri og þarf að fást við öll þau vandamál sem venjulegt fólk þarf að takast á við.