Afmælisbarn fyrir allan peninginn

Ég er ofsalega mikið afmælisbarn. Ég breytist í barn á afmælinu mínu. Ég veit ekki hvort það er af því að ég er alin upp í sveit þar sem ég var í heimavist af því vegurinn var ófær allan veturinn og sökum þess var ég annaðhvort föst í skólanum á afmælinu mínu, en þá var bökuð skúffukaka, eða að ég var föst heima með foreldrum mínum og bræðrum en þá bakaði mamma tertu handa okkur. Ég man allavega ekki eftir því nema einu sinni að ég hafi getað haldið afmæli fyrir krakkana í skólanum heima hjá mér og það var þegar ég var 13 ára minnir mig.

Ég er örugglega alveg óþolandi þegar kemur að þessum „merkasta áfanga hvers árs.“ Ég er farin að auglýsa það að ég eigi afmæli með góðum fyrirvara og vonast þannig til þess að fólk gleymi því alls ekki því það myndi að sjálfsögðu særa mig DJÚPT.

Á afmælisdaginn minn vil ég vera prinsessa og það eiga ALLIR að koma þannig fram við mig. Ekki misskilja, ég er ekkert að valta yfir fólk á prinsessujarðýtunni minni en ég er alveg til í að láta stjana við mig. Svo finnst mér ótrúlega gaman að nota debetkortið mitt á afmælisdaginn minn því þá segir fólk „til hamingju með afmælið“ ef það tekur eftir því og það gleður litla afmælisprinsessu hjartað mitt mikið.

Ég er á hverju ári alltaf jafnspennt að eiga afmæli og mér finnst alveg óendanlega gaman að fá pakka. Pakkaðu inn tómri mjólkurfernu og ég verð samt sem áður glöð að fá pakkann. Mér finnst Facebook besta síða í öllum heiminum á afmælisdaginn minn. Fólk sem veit ekkert að maður á afmæli, nema bara af því að Facebook lætur vita, gefur sér meira að segja tíma til að skrifa manni smá kveðju, dásamlegt! Ég man þá tíð þegar maður fékk kannski svona 10 sms á afmælinu og  nokkrar hringingar en ég held að ég hafi fengið 300 kveðjur á Facebook á seinasta afmælisdegi (hver er svosem að telja) svo það er talsverður munur þarna á.

Afmælið mitt er í nóvember, mánuði fyrir jól, svo ég er nýbúin að vera prinsessa en ég er strax farin að telja niður og það eru bara 355 dagar í næsta afmæli!!

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here