Maðurinn minn er Liverpool aðdáandi og eitt af hvatningarorðunum þeirra er “you’ll never walk alone” eða “þú munt aldrei ganga einn”. Mér hefur alltaf fundist þetta viðeigandi setning, og ekki bara þegar viðkemur fótbolta. Ég meina, það er ekkert betra en að vita að það er alltaf einhver sem passar upp á mann. Þannig, þegar maðurinn minn átti afmæli þá fannst mér tilfallið að útbúa eitthvað með þessum orðum.
Ég keypti þennan bakka í uppáhalds búðinni minni, Hjálpræðishernum, ásamt nokkrum kertastjökum. Ég átti svo málingu, viðarhjörtu og snæri.
Ég byrjaði á því að mála rammann hvítan og fyrst að ég var að mála á annað borð þá málaði ég líka hjörtun hvít. Ég hef svo oft notað þessa aðferð núna undanfarið en ég vildi bara fara einu sinni enn í gegnum hana, bara til að vera viss um að þið sjáið hversu einfalt þetta er.
Ég prentaði út textann og fór yfir bakhliðina á pappírnum með blýanti.
Ég klippti svo blaðið til, mældi til að vera viss um að textinn kæmi á miðjan bakan og límdi blaðið niður. Svo notaði ég blýantinn til að fara yfir útlímurnar á textanum og þegar ég tók blaðið þá höfðu útlínurnar færst yfir á bakann.
Venjulega hefði ég notað fínan pensil og málingu en ég ákvað að breyta til núna og keypti penna sem á að virka eins og máling, svokallaðan paint marker. Og eftir að hafa prófað hann þá fór ég og keypti annan lit, þannig að já, ég var ánægð með hvernig þetta kom út. Ég tók svo hjörtun og skrifaði ártöl á þau sem eru mikilvæg fyrir Liverpool klúbbinn. Svo var bara að bíða eftir að allt væri þornað og fara létt yfir með strokleðri.
Núna var komið að kertastjökunum. Ég notaði límbyssuna mína til að líma snærið utan um stjakana og svo límdi ég hjörtun á þau.
Svo var bara að setja bakkann á mitt borðið, kveikja á kertunum og bíða eftir næsta leik.
Ég heiti Kristbjörg og ég er 2 barna móðir sem elskar föndur, að skapa með höndunum, að búa til eitthvað úr engu og að reyna að auðvelda mér lífið með því að skipuleggja, skipuleggja, skipuleggja.