Ilmkjarnaolíur hafa ýmsa góða eiginleika og geta haft mikil og góð áhrif á líkamskerfi okkar. Ilmkjarnaolíufræði og ýmsar Ilmkjarnaolíumeðferðir er eitt af mörgu sem ég læri í mínu námi. Ég hafði aldrei mikla trú á Ilmkjarnaolíum og fannst alltaf bara heldur vond lykt af þeim. Hinsvegar eftir að ég byrjaði að læra um þær, prófa þær á sjálfri mér og kynna mér efnafræði og virkni ilmkjarnaolía hefur skoðun mín breyst mikið. Ég hef þjáðst af miklum hausverkjum lengi og fæ reglulega slæma verki þar sem ég er heltekin heilu dagana. Ég hef alltaf raðað í mig verkjalyfjum sem oft gera lítið sem ekkert gagn en ná oftast að láta mig sofna sem slær oft á verkinn. Ég ákvað að láta á það reyna að prófa ilmkjarnaolíu við hausverknum, systir mín gaf mér Peppermint olíu og það sem ég geri þegar ég fæ mikinn hausverk er að ég nudda vel svæðið aftan á hálsinum þar til það kemur roði á svæðið og vöðvinn er orðinn heitur, eftir það set ég um 2 dropa af olíunni á svæðið og nudda henni aftan á hálsinn. Eftir smá stund deyfist höfuðið og verkirnir minnka til muna. Síðan ég byrjaði að nota Ilmkjarnaolíur hef ég alltaf kosið þær yfir verkjatöflur vegna þess að þær einfaldlega virka betur á minn hausverk. Þetta er bara eitt dæmi um mína reynslu af Ilmkjarnaolíum en nú ætla ég að tala um áhrif Ilmkjarnaolía á húðina & hárið. Ég mun fara betur í önnur líkamskerfi í næstu greinum
Hvað gera ilmkjarnaolíur fyrir húðina?
Ilmkjarnaolíur hafa lengi verið notaðar í húðumhirðu og hafa ýmsa góða eiginleika fyrir húðina. ilmkjarnaolíur geta dregið úr streitu og vinna gegn ýmsum tilfinningalegum vandamálum sem koma niður á útlitinu. ilmkjarnaolíur vinna einnig með hormónakerfinu og geta þannig haft umtalsverð áhrif á húðvandamál sem stafa af hormónaójafnvægi, bólur og þurr húð. Auk þess efla ilmkjarnaolíur ónæmiskerfið og draga þannig úr sýkingum og veikindum sem hafa neikvæð áhrif á húð.
ilmkjarnaolíur eru..
Græðandi – Þær hvetja sáragræðslu og endurnýjun húðfrumna. Geta hjálpað til að koma í veg fyrir öramyndun, sár, brunasár, skrámur, ör, slitför ofl. þær vinna einnig gegn ótímabærri öldrun húðar.
Róandi – vinna gegn kláða, útbrotum og ertingu
Bólgueyðandi – gegn bólgum í húð, ss. exemi, psoriasis, útbrotum, bólum, mari ofl.
Bakteríueyðandi – gegn sýkingum í húð, sýktum sárum, bólum, graftarkýlum, skordýrabitum ofl.
Sveppaeyðandi – gegn ýmsum sveppasýkingum í húð og hársverði
Herpandi – Draga vefi saman, minnka húðholur (opnar húðholur valda bólum og fílapenslum) og fínar línur á húð.
Svitadrífandi/afeitrandi – Auka svitmyndun og hjálpa útskilnaði eiturefna
Mýkjandi – veita yfirborðsrakagjöf og mýkja
Koma jafnvægi á fitu og svitaframleiðslu húðar.
Hvernig aðferðir getur þú notað til að koma ilmkjarnaolíum í kerfið þitt?
Það eru ýmsar aðferðir sem hægt er að nota. Mikilvægt er að fá allaf leiðbeiningar hjá fagaðila um hvernig þú átt að meðhöndla ilmkjarnaolíurnar og mikilvægt er að kynna sér vel skammtanir og aðferðir áður en þú framkvæmir þær. Ýmsar meðferðir ættu einungis að vera framkvæmdar af fagaðila og á stofu.
Hér eru nokkur dæmi um aðferðir – mikilvægt er að nota réttar tegundir ilmkjarnaolía fyrir hverja meðhöndlun. ilmkjarnaolíur eru mjög misjafnar og hafa afar mismunandi áhrif.
Krem og gel – Gefa raka og vernda húðina
* 3-12 dropar af ilmkjarnaolíu eða synergíu út í 30 ml af lyktarlausu kremi eða geli
Nudd – er frábær aðferð til að nota ilmkjarnaolíur. Nuddið sjálft veitir vellíðan en auk þess hefur núningurinn þau áhrif að ilmkjarnaolíurnar fara hraðar inn í blóðrás og nýtast betur. Nuddið örvar blóðrás húðar og hraðar þannig útskilnaði eiturefna. Einnig getur nudd örvað losun dauðra húðfrumna og flýtt fyrir endurnýjun húðar sem er einungis af hinu góða. Andlitsnudd með ilmkjarnaolíum getur minnkað spennu í andlitsvöðvum (grettur sem mynda hrukkur) örvar einnig blóðrás og bætir útlit
* Líkamsnudd – 2,5% blanda: 15 dropar af ilmkjarnaolíu í 30 ml af grunnolíu
* Andlitsnudd – 2% blanda: 12 dropar af ilmkjarnaolíu í 30 ml grunnolíu
Böð – bæta lélega blóðrás í húð og minnka streitu, hjálpar þér að slaka á
* Settu 2-7 dropa út í baðvatn rétt áður en farið er í baðið, dreifið vel ofaní
getið einnig búið til baðsalt en þá blandið þið 2-7 dropum af ilmolíu eða synergíu við 1 og 1/2 bolla af baðsalti og setjið í baðið rétt áður en farið er út í.
Bakstrar – eru góð leið til að róa útbrot, bólgur, sólbruna og kláða.
* Setjið 4-6 dropa af ilmkjarnaolíu í grunna skál með svölu vatni. Takið þurran klút og rennið yfir yfirborðið til að ná filmunni sem ilmkjarnaolíurnar mynda. Vindið vel og leggið yfir svæði sem á að meðhöndla. Endurtakið eftir þörfum
Ég ætla að fjalla meira um ilmkjarnaolíur á næstunni. Ef þú hefur áhuga á virkni þeirra getur þú fylgst með.
Heimildir fékk ég úr bókinni Ilmkjarnaolíufræði eftir Rúnu Björk Smáradóttur en einnig úr kennslustundum hjá Stefaníu Mörtu Katarínusdóttur