Álfabikarinn (The Keeper) er margnota gúmmíbikar sem tekur við tíðablóði og kemur í stað dömubinda og tappa. Hann er gerður úr 100% náttúrulegu gúmmíi, án allra aukaefna og veldur því ekki ertingu.
Álfabikarinn er bjöllulaga, um 5 cm á lengd og tekur um 30ml af tíðablóði. Meðalkona missir um 80-100ml við hverjar blæðingar.
Hve lengi endist hann?
Endingartími Álfabikarsins er 10 ár og á honum er þriggja mánaða skilafrestur ef konur af einhverjum ástæðum geta ekki notað hann.
Hvernig nota ég hann?
Álfabikarinn er auðveldur í notkun. Honum er komið fyrir neðarlega í leggöngum meðan á tíðum stendur og þarf að tæma á 4-12 tíma fresti, en það er þó nokkuð misjafnt eftir því hvað blæðingarnar eru miklar.
Notkun hans að næturlagi er örugg og ekki þarf að fjarlægja hann við þvaglát eða losun hægða.
Er Álfabikarinn fyrir allar konur?
Álfabikarinn hentar öllum konum, ekki síst þeim sem eru á ferð og flugi. Hægt er að stunda bæði sund og aðrar íþróttir, klífa fjöll og firnindi svo að eitthvað sé nefnt.
Úr hverju er Álfabikarinn?
Álfabikarinn er gerður úr náttúrulegu gúmmí. Við framleiðslu Álfabikarsins er notað eins umhverfisvænt ferli og kostur er. Gúmmítrén eru ekki höggvin niður, heldur er gúmmíkvoðunni tappað af þeim og sama plantekran notuð aftur og aftur.
Eru mismunandi stærðir?
Álfabikarinn er til í tveimur stærðum: stærð A er fyrir konur sem hafa fætt og stærð B fyrir konur sem ekki hafa fætt B er einnig fyrir þær konur sem hafa gengist undir keisaraskurð.
Ég er með ofnæmi fyrir bindum. Er Álfabikarinn fyrir mig?
Það mikilvægasta er að Álfabikarinn er á engan hátt óheilsusamlegur, en það geta tappar og bindi hins vegar verið. Ofurrakadrægir tappar geta valdið eitrun (Toxic Shock Syndrome) ef þeir eru hafðir of lengi í leggöngunum og einnig innihalda margar gerðir tappa og dömubinda bleikiefni og ýmis önnur óæskileg sterk efni, sem geta valdið ertingu eða ofnæmi. Mjög algengt er að konur finni fyrir ofnæmi af þessum völdum sem leiðir síðan gjarnan til þrálátra sveppasýkinga með tilheyrandi óþægindum og útgjöldum. Konur með svokallað latexofnæmi geta notað Álfabikarinn.
Notkun
Áður en Álfabikarnum er komið fyrir í fyrsta sinn er litla typpið stytt um helming. Þar sem hann situr mjög neðarlega í leggöngunum getur afgangurinn af því hugsanlega valdið ertingi og margar konur klippa það því alveg af. Þegar Álfabikarnum er komið fyrir er mikilvægt að hendur séu ávallt hreinar.
Gott er að halda honum undir heitu vatni um stund, það bæði velgir hann og mýkir svo að innsetning verður auðveldari.
Því næst er hann brotinn saman eftir endilöngu og efsta brúnin sett upp í leggöngin, þar er takinu sleppt og þá opnast hann.
Örlítil loftgöt ofarlega á Álfabikarnum gera það að verkum að loftjöfnun á sér stað og við það opnast hann. Mjög mikilvægt er að hann opnist fullkomlega því annars getur lekið meðfram honum.
Síðan er honum ýtt rólega upp og gott er að snúa honum einn hring um leið til að tryggja að hann sitji sem best.
Þegar búið er að koma Álfabikarnum fyrir situr hann mjög neðarlega, eða aðeins 1-1 ½ cm frá opi legganganna. Hins vegar getur hann færst aðeins upp á við, við hreyfingu og er það alveg eðlilegt.
Þegar hann er tæmdur er tekið um neðsta hluta hans með tveimur fingrum, eða um typpið ef það hefur ekki verið fjarlægt. Gott er að nota léttan þrýsting frá kviðvöðvunum um leið. Hversu oft þarf að tæma hann fer eftir magni blæðinga en miðað er við að þess þurfi á 4-12 tíma fresti.
Til að þrífa Álfabikarinn má nota vatn, eða vatn og milda sápu en ekki má sjóða hann þar sem hann er úr náttúrulegu gúmmíi sem gæti trosnað og eyðilagst við suðu.
Til að sótthreinsa hann má nota edikslausn: 1 hluti af borðediki á móti 4-6 hlutum af vatni, látið hann liggja í ½ -1 klukkustund og skolið síðan vel í hreinu vatni. Þetta bæði sótthreinsar og tekur lykt ef einhver er.
Við lok blæðinga er Álfabikarinn þveginn mjög vel, þurrkaður og síðan geymdur í litlum bómullarpoka sem fylgir honum.
Heimild: Doktor.is