Algeng mistök í mataræði

Ansi margar aðferðir eru til staðar sem eru misgóðar til að grennast eða viðhalda ákveðinni þyngd. Sumt virkar, annað ekki. Sumt virkar til lengri tíma, annað til skemmri tíma.

Sumt er til þess fallið að missa mikla þyngd á sem skemmstum tíma, annað til að missa þyngdina hægt og rólega á sem heilbrigðastan og eðlilegastan máta.Síðarnefnda leiðin er sú leið sem skilar yfirleitt mestum árangri til lengri tíma. Hver þekkir ekki einhvern sem hefur misst 10 kg í átaki einungis til að bæta því öllu á sig aftur og jafnvel rúmlega það? Því er svo mikilvægt að gera hlutina rétt og með langtíma markmið í huga.

Eðlileg spurning í framhaldinu gæti verið á þá leið að „ég veit bara ekkert hvað ég á að gera“. Og það er afskaplega eðlileg spurning. Ansi margir taka hina og þessa matarkúra og snúa þeim á hvolf í öfgunum sínum og leit að bættri heilsu. Gott dæmi um það eru lágkolvetnakúrar og nýlegt æði þar að lútandi. Ykkur til upplýsinga þá er lágkolvetna mataræðið (LKL) alls ekkert nýtt af nálinni. Ég kynntist þessu fyrir um 20 árum síðan og var þá ekkert nýtt í þessum heimi. Slíkt mataræði hentar mér gífurlega vel. En það er ekki þar með sagt að það henti öllum vel.

Það sem ég hef tekið eftir þegar nýtt „æði“ á sér stað er að fólk tekur þetta í svo miklum öfgum. Sem dæmi þá er á Facebook lokaður hópur sem heitir einfaldlega „LKL lágkolvetna lífsstíllinn“. Þó það séu margir góðir hlutir að gerast á þeirri síðu þá er eitt sem er afskaplega áberandi svo ekki verður um villst. Í matargerðinni þá er í rauninni ekki verið að breyta neinu. Þú, lesandi góður, ert e.t.v. vanur að fá kökuna þína eða sæta matinn þinn dags daglega. Svo breytirðu um lífsstíl og ákveður að taka lágkolvetna-leiðina. Gott og vel. En hverju ertu eiginlega að breyta með því að dæla sætuefnum, hvort sem það heitir Stevia, aspartam eða eh annað, í uppskriftir í stað sykurs og kolvetna? Kaka er kaka og sætt er sætt. Ég er ekki að segja að þessi lífsstíll krefst þess að þú megir aldrei borða slíkan mat. En í alvöru talað þá er þetta frekar undarleg hugsun. Svona svipað og fólkið sem leitar að töfralausn sem er ekki til staðar. Þú átt að skipta út óhollustu fyrir MAT, ekki kökur, gerviefni o.þ.h. Í eitt sinn lagði ég inn uppskrift að mjög góðum smoothie og hann innihélt smá magn af ávöxtum, þ.a. einn miðlungsstóran banana. Tek það fram að 2/3 af hitaeiningunum kom frá fitu og próteinum. Og það gjörsamlega rigndi yfir athugasemdum um að bananar væru óhollir, innihéldu of mikið af kolvetnum o.s.frv. Ef þið hugsið þetta aðeins, finnst ykkur þetta rökrétt og heilbrigð hugsun? Ekki finnst mér það. Og það sem meira er þá er hún ekki líkleg til árangurs til lengri tíma litið.

Góðir hlutir gerast hægt.

Það er eitt sem ALLIR verða að vita og hafa í huga þegar verið er að grenna sig. Til að byrja með er árangurinn yfirleitt alltaf góður. Með því að taka út óhollustuna í mataræðinu í sambland við aukna hreyfingu þá minnkar bjúgur yfirleitt á nokkrum dögum, vatnslosun verður töluverð undir húð og allt í einu ertu 3-4 kg léttari. Allir voða ánægðir en svo gengur þetta bara svo svakalega erfiðlega eftir það. Og af hverju er það? Svarið er einfalt. Næstum ALLUR hluti þessara 3-4 kg sem misst er í upphafi er vatn. Mjög lítið af þessu er fita. Fitutap gerist hægt, mjög hægt. Burtséð frá því þá gerist það ekki samfleytt og stöðugt. Þvert á móti þá gerist það í rispum. Fyrstu 4-6 vikurnar gengur þetta ofboðslega vel. Þú léttist stöðugt, sérð mikinn mun á þér og líður mun betur. Svo stoppar þetta. Ekkert gerist og oftar en ekki læðist örvænting inn í myndina. Þú panikar, ferð á taugum. Og þegar fólk fer á taugum þá eru sjaldnast teknar gáfulegar ákvarðanir. Þú breytir jafnvel mataræðinu, eykur æfingarálagið. Gerir ALLT sem þú átt alls ekki að gera. Og hvað ÁTTU að gera? Byrjaðu á að slappa aðeins af, ekki panika, ekki örvænta því þetta er eðlilegt. Eins og ég segi þá gerist þetta í bylgjum. Þú léttist vel fyrst um sinn, svo stoppar þetta í nokkrar vikur, svo byrjar þetta aftur og svo koll af kolli. Það er erfitt að horfa fram á engan árangur eftir það sem á undan er gengið. En þarna kemur hugarfarið inn. Ef hugarfarið er í lagi, ef fókusinn og einbeitingin er í lagi og þú heldur ótrauð áfram þá kemur þetta.

Það er vissulega til hópur af fólki sem þarf lítið að hafa fyrir þessu. Ég minnist þess að þjálfa einstakling fyrir fitness mót fyrir allnokkru síðan. Hann var ekki með hátt fituhlutfall og við áætluðum 3 vikur þar til hann yrði tilbúinn… ekki 7 daga eins og raunin varð!! Ef þú ert að lesa þetta þá eru allar líkur á að þú sért ekki í þeim minnihlutahóp og því skaltu ekki einu sinni hugsa út í það fólk. Hvað þennan þátt varðar þá áttu fátt sameiginlegt með þeim. Sorglegt en satt.

Nokkur atriði til að hafa í huga: 

1. Ef það er eitthvað sem allir þjálfarar reka sig á með tíð og tíma þá er það sú staðreynd að matarkúrar mislukkast oftar en þeir heppnast. Línur eru lagðar fyrir viðskiptavininn, þetta máttu borða, þetta máttu ekki borða. Svona áttu að æfa, svona máttu ekki æfa. Mikið hefur breyst í þessum efnum síðastliðin 15-20 ár. Kvenfólk er farið að átta sig á því að það breytist ekki í kvenkyns útgáfu af Hulk við að lyfta þungum lóðum og próteinduftsmataræðið er (sem betur fer) á undanhaldi. En af hverju gengur þetta samt illa? Það er vegna þess að þó þetta sé allt á réttri leið þá vantar ennþá upp á. Munið eftir pistlinum um hugarfarið? Það á við um mataræðið líka. Kíkjum aðeins nánar á þetta.

2. Hvað er matarkúr og af hverju virkar hann ekki sem skyldi? Oft skortir hugsun til lengri tíma þegar farið er á matarkúra. Það geta flestir borðað egg og beikon með gúrku og tómat í morgunmat. Próteinpönnuköku í millimál. Kjúklingabringu í hádegismat. Próteinduft og banana seinnipartinn og svo aftur kjúklingabringu eða fisk í kvöldmat með tilheyrandi meðlæti. Svo próteindrykkur á kvöldin. Það geta allir vigtað ofan í sig matinn og talið ofan í sig hitaeiningarnar. En spurningin er hvort matarkúrinn sem verður fyrir valinu er sá kúr sem hægt er að vera á til frambúðar. Viltu ALLTAF borða sama matinn? Sömu hitaeiningarnar? Fyrir flesta þá gengur þetta ekki upp til lengri tíma. Viljinn bugast, svindldagarnir verða fleiri og styttra á milli þeirra. Maturinn verður verri og verri á bragðið og próteinduftið sem var áður svo gott veldur klígjukennd við tilhugsunina eina saman. Fjölbreytni er lykillinn að þessu og það verða allir að átta sig á. Það er alls enginn skortur á uppskriftum á netinu sem og víðar sem hægt er að styðjast við. En til að það virki sem skyldi þá verður fólk að vita hvað er í matvörunum sínum. Það þarf að lesa á innihaldslýsingarnar og læra hvað það er sem á þeim stendur. Það þarf að versla eins lítið af unnum mat og mögulegt er. Megnið af unnum mat er ekki eingöngu stútfullt af alls kyns rotvarnarefnum heldur er það oftar en ekki sykurbætt einnig. Gott dæmi eru kjúklingabringur. Hafið þið aldrei fundið sætubragðið af bringunum? Það er vegna þess að glúkósa er oftar en ekki sprautað inn í kjötið ásamt vatni (ókeypis uppástunga: Kaupið heilan kjúkling þar sem þeir eru yfirleitt lausir við slíkt).

3. Próteinduftin geta þjónað sínum tilgangi, ég neita því ekki. En hafa þarf vissa hluti í huga. Þeir þjóna tilgangi en þeir eru fjarri því að vera lífsnauðsynlegir. Þegar EAS tröllreið markaðnum með fæðuígildisduftið sitt hér á árum áður þá einfaldlega hætti visst fólk að borða mat og lifði á þessu eingöngu (í sumum ýktum tilfellum). Aðrir framleiðendur fylgdu í kjölfarið og úr varð bóla sem sá ekki fyrir endann á. En hvernig sem á þetta er litið, hvernig sem framleiðendur kynna sínar vörur þá er þetta EKKI matur. Eflaust eru einhverjir ósammála en máli mínu til stuðnings, án þess að fara djúpt í hlutina er einfaldlega þessi. Opnaðu próteindollu/bréf, sturtaðu innihaldinu ofan í skál. Horfðu á þetta. Sérðu mat? Nei, þetta eru fæðubótarefni. Mikið af fyrirtækjunum eru með prófessora, doktora, lækna og alls kyns sérfræðinga á sínum snærum sem segja ótrúlegustu hluti eins og t.d. að þetta er betri en matur, rannsóknir sýna að árangurinn er 450% betri með þessum eða hinum efnum o.s.frv. Hérna er um auglýsingabrellu að ræða sem ÓTRÚLEGA margir falla fyrir. Læt ég vera að nefna nöfn þar að lútandi.

Fæðubótarefni geta nýst og eru að mörgu leyti mjög góð. En þau eru viðbót við mat, ekki staðgengill þess.

Og nú er komið að því. Þetta er sennilega ein stærsta ástæðan fyrir því að margir falla á mataræðinu sínu. SVINDLDAGURINN! Þetta er án efa einhver fáránlegasta hugmynd sem komið hefur fram hingað til. Hafið þið einhvern tímann farið í Hagkaup á laugardegi og gengið framhjá nammibarnum? Fólk gjörsamlega missir sig þarna. Ein staðreynd sem þarf að átta sig á, og þetta er gífurlega mikilvægt, er að sykur er ÁVANABINDANDI! Gífurlegur fjöldi rannsókna hafa staðfest þetta og sumar ganga jafnvel svo langt að segja (og sanna) að verðlaunastöðvar heilans hegði sér á sama hátt og ef um neyslu kókaíns sé að ræða. Máli mínu til stuðnings er þetta einfalda ,,slideshow“ sem ég hvet ykkur til að skoða gaumgæfilega: Smellið HÉR

Til að leggja þetta upp á sem skiljanlegasta máta þá er hægt að orða þetta svona. Segjum að þú sért alkóhólisti sem er að koma af meðferð á Vogi. Þú ert að taka þér tak og ná þér aftur á beinu brautina, myndirðu halda upp á árangurinn með að fá þér í glas um hverja helgi?! Nei auðvitað ekki. En miðað við það sem þið sáuð hér fyrir ofan, hver er þá munurinn? Munurinn er enginn. Það er bara þannig hvort sem sannleikurinn hentar eða ekki. Það er ennþá verið að kynda undir fíknina. Það er alveg sama hvernig hlutirnir eru orðaðir eða túlkaðir, hvaða afsakanir eru notaðar, sykur er óhollur og gerir lítið, ef nokkurt, gott fyrir skrokkinn.

Án þess að afsaka eitt né neitt þá er ég ekki að predika að það megi ALDREI fá sér súkkulaði eða eitthvað álíka. Það er ekki markmiðið með þessu. En að stilla af einn dag í vikunni fyrir massíft sykurát er ekki bara undarlegt heldur er það einfaldlega ekki sniðugt. Ef þig langar í súkkulaðistykki, fáðu þér þá súkkulaðistykki. En það er munur á því að fá sér af og til ef mataræðið er heilt yfir gott heldur en að plana heilan dag í át. Eða, eins og margir gera, borða einn poka af nammi yfir svindldaginn og láta það duga. Nota bene… hafið þið séð stærðina á nammipokunum í Hagkaup? Allt er gott í hófi. Reynslan sýnir það svart á hvítu að við Íslendingar erum enn að temja okkur þá siði. Enda erum við á meðal þeirra þjóða þar sem gosdrykkja og nammiát er með því hæsta sem fyrirfinnst í okkar heimi í dag. Og ég leyfi mér að fullyrða að það eru ekki bara blessuð börnin sem eru sek í þessu.

Ein stærstu mistökin sem gerð eru eru þessi… AÐ FLÆKJA HLUTINA OF MIKIÐ! Þó svo að viss grunnþekking þarf að vera til staðar þá er þetta ekki flókið. Ég var nýlega í heimsókn hjá gömlum félaga sem var að taka sig á. Hann sýndi mér hvað hann var að nota og þetta hefði verið nóg til að fylla allan ísskápinn hjá mér. Og athugið að ég er einungis að tala um fæðubótarefni. Nema þið séuð á fullu í vaxtarrækt eða einhverju álíka þá er þetta óþarfi. Jafnvel í vaxtarræktinni er þetta ekki nauðsynlegt. Svo ég tala nú ekki um þann gígantíska kostnað sem hlýst af þessu. Notist við mat. Matur er lífsnauðsynlegur og góður hollur matur veitir okkur vellíðan og ánægju. Þið vitið öll að djúpsteiktur matur er óhollur, að heimatilbúinn matur er hollari en pakkamatur. Það vita allir að súkkulaði, gos, snakk o.s.frv. er ekki hollt né gott. Allir vita þetta og ég þarf ekki að fræða ykkur um þessa hluti. Ákvörðunin er ykkar. Þið ráðið yfir ykkar gjörðum og verðið sömuleiðis að taka ábyrgð á þeim.

Til að kóróna þennan pistil þá notast ég við frasa sem kemur frá Bandaríkjunum. Kaninn er jú snillingur í að koma með styttingar á orðasamböndum og eitt af þeim sem eru í miklu uppáhaldi hjá mér er K.I.S.S. (Keep It Simple Sweetheart).

SHARE