Allir af stað!

Með hækkandi sól eru margir sem skríða út úr hýðinu og þrá ekkert heitara en að komast út að hreyfa sig í guðs grænni náttúrunni.

Út að hlaupa
Það er mjög góð hreyfing að fara út að hlaupa. Það kostar ekkert og því fylgir lítil fyrirhöfn. Hér eru nokkur góð ráð áður en þú reimar á þig hlaupaskóna og hleypur af stað.
Farðu rólega af stað ef þú ert byrjandi.
Ef þú ert tímabundin/n, farðu þá stuttan hring frekar en að sleppa því.
Settu þér markmið og haltu dagbók utan um hlaupin þín.
Talaðu við vin og fáðu hann með þér, það er skemmtilegra að hlaupa í félagsskap.
Teygðu vel eftir hlaupin, það kemur í veg fyrir harðsperrur og minnkar líkur á meiðslum.
Hlustaðu á taktfasta og góða tónlist hún hjálpar þér við hlaupin.
Hugsaðu vel um næringuna, ekki fara svangur út að hlaupa og passaðu þig að drekka nóg af vatni.

 

 

Göngutúr
Það er bæði gott fyrir líkama og sál að fara í göngutúr. Í kringum Reykjavík eru ótal spennandi kostir fyrir göngugarpa. Þá er bara að reima á sig gönguskóna og arka af stað.
Öskjuhlíðin er fallegur og skemmtilegur staður að heimsækja og fá sér hressandi göngutúr.
Nóg er að merktum gönguleiðum og fyrir áhugafólk um stríðsminjar er Öskjuhlíðin sannkölluð gullkista. Gaman er að skoða braggana og gaman getur verið að rölta niður að Nauthólsvík og anda að sér fersku sjávarloftinu.
Yst á Seltjarnarnesinu er Gróttuviti. Það er góður göngustígur sem hægt er að rölta með kringum allt Seltjarnarnesið. Gönguferð úti í Gróttuvita er einstaklega skemmtileg og eins gönguferð í fjörunni sem umleikur nesið. Ýmislegt ber þó að varast þegar gengið er út í vitann og fólk þarf að huga vel að flóði og fjöru.
Í Elliðaárdal er að finna einstaklega mikið af fallegum og skemmtilega gönguleiðum. Svæðið er eitt stærsta græna svæðið innan borgarmarka Reykjavíkur. Elliðaáin rennur í gegnum dalinn og eftir þeim dregur dalurinn nafn sitt. Að sumri til er tilvalið að taka með sér nesti og skella sér í góða lautarferð. Nóg er af bekkjum til þess að tylla sér og hvíla lúin bein.
Í Laugardal er fjöldinn allur af gönguleiðum og afþreyingu að finna. Grasagarðurinn er einstakur og þar er hægt að gleyma sér tímunum saman, hvort sem það er að labba um garðinn eða lesa sér til um allan þann fjölda platna sem þar er að finna. Fyrir þá sem eru áhugasamir um sögu Reykjavíkur er gaman er að skoða gömlu þvottalaugarnar í Laugardalnum. Ferð í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn er eitthvað sem hittir í mark hjá allri fjölskyldunni.
Heiðmörk er sannkölluð útivistarparadís við jaðar borgarmarkanna. Þar er hægt að finna ótal skemmtilegar gönguleiðir. Skógrækarfélag Reykavíkur hefur unnið ótrúlega mikið og gott starf í Heiðmörk. Þá er gönguferð í kringum Elliðavatn góð og skemmtilega ganga. Eins getur verið spennandi að skoða Maríuhella.

 

 

Hjól
Að fara út að hjóla er einstaklega holl og góð hreyfing. Hvort sem að fólk notar hjólið til afþreyingar eða sem farartæki til þess að komast til og frá vinnu. Mikið hjólaæði hefur gripið um sig meðal landsmanna og hjólreiðarstígar eru komnir víða um borgina sem auðvelda fólki að fara leiðar sinnar á hjóli.
Með aukinni umhverfisvitund eru æ fleiri farnir að gera sér grein fyrir kostum þess að nota hjól í staðinn fyrir einkabíl. Þú slærð margar flugur í einu höggi, færð góða hreyfingu og sparar peninga og ert umhverfisvænni í leiðinni.

 

Heimildir: Fréttatíminn

 

SHARE