Nýjasta auglýsingaherferð Victoria’s Secret hefur bókstaflega gert allt vitlaust í netheimum og Twitter hefur logað undanfarna sólarhringa, en markaðsherferðin sem bar (í þátíð) heitið THE PERFECT BODY og var hrint af stað í Bretlandi, sýndi tágrannar og brosandi fyrirsætur á undirfatnaði einum fata.
Baráttufólk fyrir jákvæðri líkamsvitund brást tafarlaust við og ekki að ástæðulausu, því mörgum þótti yfirskriftin, sem blasti við á auglýsingaskiltum og útiskýlum víðsvegar í breskum borgum, stríða gegn almennri sálarheill kvenna og ýta undir vanlíðan þeirra milljóna kvenna sem auglýsinguna bera augum.
Svona leit auglýsingin, sem gerði allt vitlaust í Bretlandi, út í upphafi:
Herferðin var sett á laggirnar í Bretlandi og sýndi einar 10 fyrirsætur í eggjandi undirfatnaði og setti netheima fljótlega á hvolf, en hér má sjá skjáskot af Twitter sem fljótlega tók að tikka undir formerkjum #iamperfect en eins og sjá má að neðan, þótti mörgum nóg um.
Þá tóku þrjár breskar háskólastúdínur til sinna ráða og efndu til undirskriftasöfnunar á Change.org þar sem farið var fram á að Victoria’s Secret sendi frá sér formlega afsökunarbeiðni til kvenna víðsvegar um heim og breytti yfirskrift auglýsingaherferðarinnar, en þegar þetta er ritað hafa u.þ.b. 29.500 einstaklingar lagt söfnuninni lið.
Skilaboðin eru beinskeytt og skýr en neytendum var nóg boðið:
En þar er ekki öll sagan sögð; undirfatafyrirtæki eru af ýmsum toga og þannig stigu markaðsmógúlar Dear Kates fram með afar athyglisvert mótsvar. Fyrirtækið lýsti opinberlega yfir stuðningi við undirskriftasöfnun þá sem getið er hér að ofan og birti nú þessa ljósmynd á vefsíðu sinni, ásamt því að nafngreina allar fyrirsætur og tiltaka starfsheiti þeirra:
Á vefsíðu Dear Kates má lesa nöfn allra fyrirsætanna ásamt starfsheitum þeirra kvenna sem sitja fyrir og eru netverjar að endingu hvattir til að deila ádeilunni á Twitter, sem og ljá undirskriftasöfnuninni nafn sitt og deila á Facebook svo ádeilan nái sem augum flestra.
„Með þessari ljósmynd viljum við varpa ljósi á þær kvengerðir sem fjölmiðlar og markaðsfyrirtæki kjósa að sniðganga við gerð hefðbundins kynningarefnis. Við viljum sýna konur í sínu raunverulega ljósi og fjölbreytilegar líkamsgerðir þeirra.”
Öflug viðbrögð netverja og undirskriftalistinn sem telur nú tæplega 30.000 nöfn og svo hárbeitt ádeilan hér að ofan, hefur borið tilætlaðan árangur þó talsmenn Victoria’s Secret hafi ekki enn gefið út formlega yfirlýsingu. Orðalagi auglýsingaherferðarinnar hefur nú verið breytt og ber ekki lengur nafnið THE PERFECT BODY heldur A BODY FOR EVERY BODY en svona lítur myndin út í dag:
Þegar þetta er ritað hefur enn engin formleg yfirlýsing borist frá forsvarsmönnum Victoria’s Secret og þó flestum þyki breytingin langt frá því að vera viðsættanleg má þó segja að um skref í rétta átt sé að ræða.
Ekki sé þó nóg að breyta orðalaginu einu, segja gagnrýnisraddir, þar sem gagnrýnin sjálf beinist að því að undirfatnaður Victoria’s Secret sé ekki ætlaður öllum konum – heldur einungis þeim konum sem eru fullkomnar í vextinum. Konur séu af öllum stærðum og gerðum og séu misjafnar að gerð og lögun og þar til undirfatnaður sem henti öllum líkamsgerðum verði settur á markað, sé lítið varið í innantómt orðagjálfur undirfatarisa, sem setji að lokum fram blúndur í örstærðum undir formerkjum „fullkomnun” sem örfáar konur geti klæðst.
Ertu sama sinnis og hér er lýst að ofan? – Smelltu HÉR
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.