Alma Lind: „Ég ætlaði að vera edrú eftir hverja einustu meðferð“ – Hefur farið í 27 meðferðir

Alma Lind er 37 ára gömul móðir sem hefur aldrei upplifað að hún geti passað í þennan venjulega kassa. Hún ákvað mjög ung að hún ætlaði að prófa allt og miðaði við að hún myndi geta byrjað á öllu um fermingu, að reykja og drekka áfengi. Hún drakk í fyrsta skipti þegar hún var 13 ára. „Þetta var alltaf skrifað í stjörnurnar,“ segir Alma í hlaðvarpinu „Sterk saman“.

„Ég var alveg forsprakki í þessu“ segir hún þegar hún talar um þegar hún og félagar hennar byrjuðu að drekka. Hún drakk fljótlega hverja helgi og tíminn leið. Þegar hún var að klára 9. bekk varð hún fyrir nauðgun og þá segir hún að allt hafi farið á hvolf og hún sett upp skjöld sem átti eftir að fylgja henni.

Eftir grunnskóla fór Alma að læra hárgreiðslu og reykja hass og þá segir hún að himnarnir hafi opnast. Hún prófaði mikið af efnum og var komin í mikla neyslu um tvítugt, kláraði þó hárgreiðsluna en segir að þetta hafi alveg verið góður tími, það hafi verið mjög gaman.

Þegar Alma var 26 ára fór hún í fyrstu meðferðina en hún átti eftir að fara í 27 meðferðir. Hún eignaðist tvo drengi á neyslutímanum og segist ekki hafa fengið neina hjálp frá ríkinu og Barnavernd hafi brugðist henni algjörlega. Alkóhólismi var allsráðandi í hennar lífi allsstaðar.

Í neyslunni varð hún fyrir 7 klukkustunda frelsissviptingu og hún reyndi að hengja sig í fangaklefa.

Þetta er áhugaverð og átakanleg saga konu sem hefur upplifað hluti sem við flest getum varla ímyndað okkur.

SHARE