
Söfnun stendur nú yfir á Karolina Fund, til styrktar Ölmu Geirdal en hún glímir nú við alvarlegt krabbamein. Alma á 3 börn og tvö stjúpbörn svo það er nóg að gera hjá henni á sama tíma og hún tekst á við veikindin.
Sigríður Karlsdóttir, eða Sigga Karls eins og hún er oftast kölluð, skrifar ljóðin og hóf söfnunina á netinu.

„Áætlað er að gefa út 250 eintök af ljóðabókinni „Á dauða mínum átti ég von“. Verkefnið gengur út á að safna 250.000 krónum eða 1800 Evrum en það er sú upphæð sem þarf til að láta prenta út bókina.
Öll eintökin fara í sölu, bæði í bókabúðum og hjá mér sjálfri. ALLUR ágóði af sölu bókarinnar rennur til Ölmu og fjölskyldu,“ segir Sigga á síðunni á Karolina Fund.
„Alma glímir við krabbamein á fjórða stigi og skrifar hún um það ferli á Facebook Hún er einlæg, falleg og ótrúlega heiðarleg í skrifum sínum sem fær mörg þúsund manns daglega, til að hugsa á annan hátt,
Mig langaði til að hjálpa henni fjárhagslega en fann ekki aðra leið en að gefa út ljóðabókina til styrktar henni,“ segir einnig á síðunni.
Við hjá Hún.is viljum hvetja alla þá sem geta að styðja Ölmu með framlagi til hennar.
Þið getið fylgst með skrifum Ölmu undir Alman vs cancer á facebook.

Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.