Ég heiti Íris Hrund og er bara óskaplega ,,venjuleg” stelpa en er þó að spá í hvort draumurinn minn sé bara draumur á þessu litla Íslandi. Mig er búið að dreyma og vona frá því ég var mjög ung, var alltaf með pottþétt svar við spurningunni ,,Á hvaða braut ætlar þú á þegar þú ferð ég framhaldsskóla?” Ég svaraði hiklaust í hvert skipti hársnyrtibraut.
Ég byrjaði með æðislegt bros í hjarta og von um æðislega framtíð í því sem mig dreymdi um, hugsaði með mér hvað ég myndi verða flott þegar ég væri að greiða frænkum mínum og öllum vinkonum mínum á flottri stofu. Fyrsta önnin leið, frekar stressuð en samt það skemmtilegasta sem ég hafði upplifað hingað til. Ég reddaði öllum módelunum mínum og fleirum með og ég fékk flottar einkunnir. Jólafríið kom og ég fór að huga meira að því að leita af samning. Ég skrifaði niður allar stofur á Íslandi sem taka nema samkvæmt Iðan.is, skipti því niður í skipulagða dálka því sem væri næst mér og hófst handa. Þetta byrjaði ágætlega.. nei bara að grínast, þetta byrjaði hræðilega og hefur ekkert batnað. Önnur önnin var skemmtilegri en með miklu meira stressi en ég gróf upp góða skapið og bjartsýnina þar sem ég var með svo æðislegu fólki í tímum og hélt áfram með bros á vör. Hamingjan tók öll völd en það var þó stutt í næstu hugsun þar sem velti fyrir mér hvort þetta væri allt á leiðinni einhvert, samt langaði mér áfram. Sumarið kom, ég spáði og pældi í hvar ég mögulega gæti byrjað. Ég fór á alla staðina á Akureyri sem ég kom mér inná, fékk nei á flestum stöðum en tveir eða þrír staðir voru í hugleiðingum árið 2012.
Ég leit á þetta sem merki um að ég ætti mögulega séns á samning. Ég kláraði þriðju önnina og áður en ég vissi var ég komin á endastaðinn. Ég fór suður og kíkti á hátt í 30 hárgreiðslustofur á tveimur dögum sem ég hafði til þess að þvælast. Ég hefði mögulega náð einni stofu ef ég væri minn eigin bílstjóri en þar sem ég var með þennan frábæra einkabílstjóra og GPS- tæki þá tókst þetta. Hljóp í rigningunni, með skærgula möppu í allra fínustu ,,hversdagsfötunum” mínum að bílnum til að sleppa við að fá sekt einhverstaðar við Laugaveginn. Ég hafði aldrei komið þar áður (sem er fáránlegt, ég veit) og var þetta mitt eigið litla ævintýri í leit að tækifæri. Ég leitaði af skanna og prentara í dágóðan tíma, áttavillt í von um að ég myndi nú finna einhvern sem gæti skannað fyrir mig ferilskráarflóð fyrir heimsóknirnar á stofurnar. Af öllum þessum stofum voru nokkrar smá spenntar, mjög margir vorkenndu mér fyrir að vera í þessarri aðstöðu en sögðu mér að halda áfram og óskuðu mér góðs gengis. Ég tók þau orð en lét önnur orð sem vind um eyrun þjóta, eins og á einni stofu í Hafnarfirðinum, hann sagði mér nú bara að fara því ég ætti aldrei séns hjá honum. Ég þakkaði fyrir mig, gaf honum bros svo hann gæti nú lifnað smá við karlgreyið.
Ég var sátt við þessa ferð og hélt að þetta hefði mögulega skilað einhverju. Mér leið vel. Nýtti tækifærið þar sem ég var í svona þrusu æfingu og þræddi stofurnar á ný hér á Akureyri. Ég reyni samt að vera vongóð, ég gefst ekki svona auðveldlega upp. Nei, ef ég gefst upp hér er ég að gefa svo margt upp á bátinn og hver veit nema tækifærið mitt bíði handan við hornið þar sem ég þarf að finna það hvar sem það er geymt.
Ég hef sent fjölmarga tölvupósta, er vísað fram og til baka með lausnir, allir vilja hjálpa en það lítur út fyrir að enginn getur það. Ég er að reyna eins og ég get, eða það hélt ég. Versta við þetta er að skólinn getur ekki enn hjálpað okkur, það er tekið inn nýja og nýja nema og haldið áfram með þessa vitleysu sem er löngu komin í rugl. Við erum mörg sem erum í þessari aðstöðu, getum ekkert snúið okkur til að fá aðstoð í þessu fagi. Sérstaklega við sem erum ekki neinni klíku, við sem eigum enga frænku eða frænda sem taka mann inn þrátt fyrir að það séu margir aðrir efnilegri og áhugasamari.
Ég er ekki búin… Ég verð einn daginn fulllærð og ánægð! Það var draumurinn minn þegar ég byrjaði og hví að henda honum í ruslið þegar ég er komin svona langt. Ég gefst ekki upp og ég tek allar ráðleggingar frá þeim sem vilja leggja mér í lið. Fulldramatísk frásögn en svona er ástandið í dag í hársnyrtibransanum. Eigum við þetta skilið? Að það sé tekið okkur inn í skólann, látið okkur borga rosalegann skólapakka og svo hent okkur út, með engri mögulegri hjálp frá skóla. Skora á kennarana, skólameistarana og menntamálaráðuneytið að opna aðeins hugann fyrir ástandinu í dag og hjálpa okkur sem eru byrjuð eru og pikkföst á sama staðnum í leit af samning til að klára námið sem okkur dreymir um. Ekki taka inn fleiri nema heldur að hjálpa okkur sem erum þegar byrjuð.