Alvöru konur – Eru þær flokkaðar eftir þyngd?

Það virðist vera orðið vinsælt trend hjá fjölmiðlum bæði erlendum og hér á landi að tala um “alvöru konur”. Þessar alvöru konur eru nánast alltaf með aukakíló eða curvy eins og fólk talar oft um. Við sjáum auglýsingar frá búðum sem auglýsa föt fyrir konur með aukakíló og nánast í hverri einustu er talað um “föt fyrir alvöru konur”. Ég er nokkuð viss um að allt yrði vitlaust ef tískuvöruverslanir sem auglýstu föt í litlum stærðum myndu markaðsetja sig þannig að þeir væru með föt fyrir alvöru konur. Ég hef svo oftar en ekki séð fólk deila fréttum þar sem grannar konur eru niðurlægðar og til dæmis hafði verið birt grein á ónefndum fjölmiðli um daginn um Victoriu Beckham. Victoria var að halda upp á afmælið sitt og birtu þeir mynd af henni með afmælisköku. Fólk fór að deila fréttinni og gantaðist með það að hún myndi nú örugglega ekki fá sér köku, í það minnsta myndi hún örugglega æla henni ef hún myndi nú hætta sér í að fá sér bita!

Þessi mynd er tekin af síðu sem heitir Fashion for real women og er einungis fyrir konur sem eru curvy.

Ég velti því fyrir mér hvaða skilaboð sé verið að reyna að senda, er bannað að ræða það að konur hafi aukakíló en í leiðinni er gefið skotleyfi á allar konur sem eru grannar? við viljum að konur komi í öllum stærðum og gerðum (það segja þeir í það minnsta) en samt þegar talað er um “alvöru konur” eru þær nánast alltaf í dag með nokkur aukakíló. Ég velti því þá í leiðinni fyrir mér hvort að grönnu konurnar séu eitthvað minna alvöru en þær sem eru örlítið þykkari?

Erum við ekki bara allar alvöru konur? sama hvað talan á vigtinni segir? það myndi ég nú halda. Mér persónulega finnst grannar konur glæsilegar, mér finnst curvy konur líka glæsilegar. Ég met ekki gæði fólks út frá þyngd þeirra eða útliti, ég spái meira í innri manneskju. Það breytir ekki því að þegar ég sé glæsilega konu finnst mér allt í lagi að segja henni hvað hún líti vel út, hvort sem hún er 100 kg eða 50 kg.

Meiningin er góð, að tala um alvöru konur. Þetta byrjar allt þegar fólk fór að verða meðvitað um að fyrirsæturnar sem voru að sýna voru að fá of litla næringu. Þegar fyrirsætur voru að deyja vegna anorexíu fór fólk að spá í hvað væri að. Við þurftum að sýna konur í öðru ljósi, við þurftum að vekja athygli á því að anorexía og pressan á þessar fyrirsætur og ungar stelpur að vera horaðar var óeðlileg og lífshættuleg. Það er allt gott og gilt og það er svo sannarlega óheilbrigt og lífshættulegt að svelta sig. Í dag er það í tísku að vera heilbrigður. Fólk er hvatt til að borða góðan og næringarríkan mat og hreyfa sig reglulega, allt eitthvað sem gott er fyrir líkama og sál. Pressan á ungar stelpur að líta óaðfinnanlega út, og í raun konur almennt hefur verið alltof mikil, við skulum ekki láta eitthvað annað slæmt taka við. Það er alveg jafn mikil pressa á sumar konur þegar talað er um að alvöru konur hafi aukakíló. Það eru ekki allar konur sem hafa aukakíló, og það á svo sannarlega ekki að láta þeim líða eins og minni manneskjum fyrir vikið.

Við megum ekki gleyma því að það eru til fullt af konum sem eru grannar án þess að vera með anorexíu eða vanta næringu. Það er til fullt af konum sem passa upp á mataræðið, borða hollan og næringarríkan mat og hreyfa sig. Það eru líka til konur sem þurfa að berjast við að bæta á sig kílóum, ég þekki konur sem hafa orðið fyrir mikilli gagnrýni alla tíð vegna þess hversu “horaðar” þær eru. Þær eru að drekka prótínsjeika með matnum sínum og reyna allt til að bæta á sig, þeim finnst nefninlga ekki gaman að hafa engar línur eða að fólk geti talið rifbeinin.

Svo eru til konur sem berjast alla tíð við aukakílóin, þær eiga í erfiðleikum með að borða hæfilegan skammt af mat og hreyfa sig og sumar glíma jafnvel við hæg efnaskipti og annað sem getur verið virkilega erfitt. Sumar konur eru með aukakíló þrátt fyrir að þær passi hvað þær láti ofan í sig og hreyfi sig reglulega.

Eigum við ekki bara að leyfa öllum tegundum af konum að lifa í friði. Eru þær ekki allar jafn mikið alvöru? metum við það hvort kona sé alvöru kona eða ekki útfrá þyngd hennar? erum við ekki komin langt út fyrir efnið og farin að senda röng skilaboð, aftur? erum við ekki komin í vítahring þar sem við virðumst enn vera að meta gæði kvenna eftir útliti og þyngd? ég sé ekki betur, það skiptir engu máli hvort við segjum að grannar konur eða þykkar konur séu alvöru, hvort tveggja er dæmi um að meta konu út frá útliti hennar.

Við erum allar alvöru konur, sama hvað vigtin segir! 

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here