Amaba sem étur upp heila fólks var í drykkjarvatni í Louisiana

Amaba þessi borar sig gegnum slímhimnuna í nefinu og kemst þaðan upp í heilann þar sem hún tekur til að éta hann. Hún dregur fólk til dauða á u.þ.b. 14 dögum og ekki er nokkur leið þekkt til að ráða við þennan ófögnuð.

 

Í síðast liðnum mánuði dó fjögurra ára gamall drengur af völdum amöbu sem kemst um nef fólks upp í heilann og eyðileggur hann. Sams konar amaba olli líka dauða 12 ára drengs í Florida í síðustu viku.  (Naegleria fowleri er amaba sem getur sýkt menn og dýr og étið upp heila þeirra.)

Yfirvöld í Louisiana segja fólki að öruggt sé að drekka vatnið, það megi bara ekki láta það komast í nefið á sér. Einnig er fólkinu sagt að margar vikur muni líða þar til hættan sé liðin hjá. Í drykkjarvatni íbúa er sett klór en greinilega hefur of lítið verið sett í vatnið því að amaban hefur þrifist vel í vatninu. Klór í réttu magni drepur  amöbuna.

Eins og áður greinir fer amaban upp nef fólks, margaldast, étur heilann og fólkið  deyr. Fyrstu einkennin eru höfuðverkur, hiti, ógleði, uppköst og stífleiki í hálsvöðvum. Svo eykst vanlíðan og verður enn alvarlegri, fólk missir einbeitinguna, fær flog, ofskynjanir og deyr að lokum innan tveggja vikna.

Hart nær allir sem lenda í þessu deyja. Kali Hardig,  12 ára gömul stúlka í Arkansas lifði sýkinguna af. Amaban komst í hana þegar hún var að leika sér í vatnsgarði í heimabæ sínum. Henni var gefið lyf í tilraunaskyni þegar mamma hennar sá að eitthvað annað en venjulegt kvef amaði að telpunni.

 

SHARE