Án jákvæðra hugsana er engin vellíðan

Forsendur fyrir því að okkur geti liðið vel er óumdeilanlega góð heilsa, andleg líkamleg og félagsleg.  Og allt spilar þetta saman. Hver einstaklingur er sérstakur, með mismunandi reynslu, aðstæður, aðbúnað, persónuleika og líffræðilega virkni. Sumir einstaklingar eru viðkvæmari en aðrir og þannig útsettari fyrir geðrænum og/eða líkamlegum vandamálum. Allir sveiflast í geðslagi frá degi til dags, sem er eðlilegt. Það er ekki fyrr en þessar sveiflur eru orðnar meiri og standa lengur yfir með alvarlegum einkennum sem hægt er að segja að um sjúklegt ástand sé að ræða sem rétt er að leita aðstoðar fagfólks með.

Sjá einnig: Geðhvarfasýki – Vitundarvakning

Við þurfum að vera meðvituð um það, sem ógnar heilsu okkar, og að þekkja meðal annars takmörk okkar og bjargráð við streitu. Þá er mikilvægt að vera  sáttur við sjálfan sig svo og meðvitaður um kosti sína og galla.  Ennfremur er mikilvægt að hafa þann styrk til að bera að geta tekist á við vandamál og erfiðleika á jákvæðan og uppbyggilegan hátt en falla ekki í þá gryfju að mála skrattann á vegginn og láta hendur fallast.

Fyrsta geðorðið “Hugsaðu jákvætt, það er léttara” er því undirstaða vellíðunar því án jákvæðra hugsana er engin vellíðan. Neikvæðar hugsanir, koma oftast nær óboðnar.  Þær skjóta upp kollinum án fyrirhafnar, en það þarf að hafa fyrir því að draga úr þeim. Ef hugur okkar er jákvæður þá er hann mun líklegri til að fara strax af stað með að finna mögulegar leiðir til að takast á við hlutina.

Sjá einnig: Geðræktarkassinn jafn sjálfsagður og sjúkrakassinn

Þeir sem eru undir miklu álagi eiga oft erfitt með að kalla fram jákvæðar hugsanir. En hjálplegt er að gera sér grein fyrir því, að það eru hugsanirnar sem eru neikvæðar en ekki öll tilveran. Mikilvægt er fyrir hvern og einn að vera meðvitaður um hvað kallar fram jákvæðar hugsanir og þannig hvað veiti vellíðan. Gott er að gera þetta á markvissan hátt og grípa til þess þegar vanliðan færist yfir. Þar kemur Geðræktarkassinn að góðum notum.

Fyrirmyndin að kassanum eru ráð konu nokkurrar, sem missti mann sinn frá tíu börnum þeirra um aldamótin 1900.  Hún þurfti að láta frá sér átta elstu börnin og  tvístruðust þau milli bóndabæja.  Til að hjálpa börnunum að takast á við föðurmissin og í raun móðurmissinn einnig, útbjó hún að skilnaði lítinn kassa handa hverju og einu þeirra.  Í kassana setti hún hluti sem voru börnunum kærir og höfðu mikið persónulegt gildi fyrir þau, en einnig setti hún efnisbút úr flík sem hún notaði mikið og báru lykt hennar. Börnin áttu svo að leita í kassana þegar vanlíðan og söknuður færðust yfir og minnast um leið loforðs móður þeirra um að fjölskyldan mundi sameinast, þó síðar yrði.  Það gekk eftir að lokum.

Þessi hugmynd á erindi til allra sama á hvaða aldri þeir eru.  Upplagt er að safna hlutum í kassa sem vekja gleði og góðar minningar og nota meðvitað til að láta sér líða vel.

Einnig er upplagt fyrir unga sem eldri, að föndra slíkan kassa fyrir sjálfan sig og/eða gefa þeim sem manni þykir vænt um. Í kassann má setja ýmsa hluti s.s. uppáhalds myndband, geisladisk, bók og ljósmyndir eða,  bara hvað sem er sem tengist jákvæðum og góðum tilfinningum. Leita  má svo í kassann þegar neikvæðar hugsanir skjóta upp kollinum t.d. eftir erfiðan dag, rifrildi eða skammir og þegar okkur leiðist, við erum einmana eða vantar stuðning.

Kjörið er einnig, að venja sig á, að byrja hvern dag á því að hugsa jákvætt um lífið og tilveruna, og vera meðvitaður um þau forréttindi sem  því fylgja, að fá að líta nýjan dag, sem aldeilis er ekki sjálfgefið.

Það er gott veganesti fyrir daginn!

Lestu fleiri áhugaverðar greinar á doktor.is logo

SHARE